10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3611 í B-deild Alþingistíðinda. (3691)

293. mál, söluskattur

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki mörgu við að bæta öðru en þá að þakka fyrir jákvætt hugarfar sem kom fram í ræðum hv. þm. Jóns Kristjánssonar og Davíðs Aðalsteinssonar. Vissulega met ég það nokkurs. En það kemur fyrir lítið ef þeir hafa ekki vilja til þess að ná málinu fram. Og mér er óskiljanlegt, af því að búið er bæði í fyrra og aftur nú að vekja rækilega athygli á þessu máli og sýna fram á að það er enginn vandi, það er bókstaflega enginn vandi að framkvæma þetta — ég taldi mig færa rök fyrir því hér áðan ef aðeins væri vilji fyrir hendi. Og ég vil minna á það, að ég er ekki að stofna ríkissjóði í vanda með því að kippa af honum 10 millj. kr. í ár. Ég miða þetta við næsta fjárlagaár, þannig að hægt sé að taka tillit til þess.

Ég legg ekki mjög mikið upp úr loforði um að taka málið til athugunar, og ég minnist þess núna, að ég á sæti sjálf í fjh.- og viðskn. Sennilega verður búið að kippa mér út af þingi áður en ég fæ að ljá því lið þar. En ég vil endurtaka: Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að menn komi hér ár eftir ár og lýsi góðum vilja og láti fögur orð falla í þessu máli, en lyfti svo ekki litla fingri til þess að framkvæma það þegar þeir eiga kost á því. Og ég veit það, að ef núv. ríkisstj. vill ná þessu máli fram er ekkert auðveldara. En það er kannske bara af því að það er stjórnarandstöðumál. Mikið ósköp erum við nú orðin smá í sniðum í þessari hv. stofnun ef við getum ekki metið mál eftir gildi málsins sjálfs, heldur eftir því einungis hvort það kemur frá stjórnarliðum eða stjórnarandstæðingum. Ég vil minna á að ég bað stjórnarliða að taka það til athugunar áður en það var lagt fram, bað meira að segja um að það yrði tekið til athugunar í þingflokkum. Það var gert. En nú vil ég ekki vera of svartsýn. Ég vona og ég trúi því, að þegar menn skoða þetta af íhygli og sanngirni og þeim skilningi sem ég veit að þm. hafa á málinu, þá hljóti þeir að leggjast af öllu afli með framgangi þess nú í vor. Það kemur ár eftir þetta ár og þetta mál verður ekki látið niður falla enda þótt það kæmist ekki fram nú.