10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3617 í B-deild Alþingistíðinda. (3696)

296. mál, umhverfismál

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil alls ekki láta hjá líða að ítreka nú, þó með öðrum formerkjum sé, þau ummæli sem ég hafði úr ræðustól þegar hæstv. þáv. iðnrh., hæstv. núv. forsrh., Gunnar Thoroddsen, flutti þetta frv. á sínum tíma, 1978. Þá lýsti ég yfir því, að enda þótt ég fyndi ýmislegt í þessu frv. sem ábótavant væri, þá væri það eigi að síður með þeim hætti að fyrir þetta frv., fyrir þetta þingmál gæti ég fyrirgefið honum margt.

Hin dýpri merking þessarar yfirlýsingar minnar var sú, að hann hafði þá fyrir skemmstu knúið í gegnum Alþingi samþykkt á Grundartangaverksmiðjunni við Hvalfjörð þar sem hvergi nærri var staðið sæmilega að þeim málum, sem að umhverfinu lúta, og tekin ákaflega alvarleg áhætta. Þetta mál var náttúrlega samþykkt með atkv. sjálfstæðismanna að einu undanskildu og Framsfl. og Alþfl.

Ég tel að þetta frv. sé vissulega til þess fallið að stuðla að því, að vandamál umhverfisins verði tekin til alvarlegrar íhugunar, og að frv. sé innlegg í það mál sem við verðum að takast á við senn, þ. e. að koma vernd umhverfis og náttúruvernd í stjórnskipulega rétt form.

Ég vil ekki nú fremur en þá orðlengja um einstök atriði þessa frv., sem öll horfa til bóta, enda þótt mér finnist, eins og ég áður sagði, að nokkuð vanti á að málið sé nægilega útfært í þeirri mynd sem það hér liggur fyrir.

Og svo rétt í lokin vil ég minna hv. þm. þessarar deildar á það, í hvílíkri þakkarskuld Íslendingar standa við þingeyska bændur, sem risu upp á sínum tíma með afli og komu því inn í höfuðin á íslenskum tæknikrötum og stjórnmálamönnum, að umhverfi þessa lands og lífríki eiga einnig sinn rétt, og sýndu það í verki, að fólkið í landinu lætur sig þessi mál ákaflega miklu varða og vill fórna nokkru fyrir að þau mál séu í viðunandi skynsamlegu horfi.