10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3618 í B-deild Alþingistíðinda. (3697)

296. mál, umhverfismál

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég vil nú aðeins þakka hæstv. félmrh. og hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir þær góðu undirtektir sem endurflutningur á þessu frv. hefur fengið hér. Ég get alveg tekið undir það með hæstv. félmrh., að það hefur ýmislegt gerst síðan þetta frv. var lagt fram og ýmislegt sem þessi lög taka einnig til, en okkur þótti rétt að flytja frv. óbreytt og gera heldur ráð fyrir því, að í meðferð nefndar kæmi það til skoðunar og ýmis atriði, bæði ný sem kæmu inn og jafnvel önnur sem þyrfti að breyta. Ég er nú aðeins farin að kynnast störfum nefnda þingsins og gera mér grein fyrir því, að við gefum okkur tíma til að velta vöngum jafnvel yfir orðalagi og ýmsum orðum sem koma fram í frumvörpum. Og það getur vel verið og er ekki ólíklegt að við eigum eftir að fjalla í félmn. um og velta fyrir okkur orðum eins og landnýtingu og landnotkun. Og ég er alveg sammála því, að þetta eru þættir sem ekki væri óeðlilegt að kæmu þarna inn.

Varðandi það, í hvaða ráðuneyti þetta ætti að vera, þá tek ég undir það, að mér hefur virst það vera eðlilegt að þetta færi undir félmrn., enda hefur formaður nefndarinnar, sem fram kemur í grg. að samdi þetta frv., einmitt skýrt mér frá því, að það hafi helst komið til orða að eðlilegt væri að þetta væri í félmrn., þó að það sé ekki tekið sérstaklega fram í frv., heldur sennilega gert ráð fyrir að það verði ákveðið á annan hátt.

En ég vildi sem sagt ítreka þakkir mínar fyrir þær undirtektir sem frv. hefur fengið. Varðandi fjárútlátin er það að sjálfsögðu rétt, að þetta hlýtur að kosta fjármagn. En erum við ekki þarna líka að hagræða hlutunum, sem gæti e. t. v. orðið til þess að það yrði ekki meira fjármagn, sem færi í stjórnunina á þessu máli þegar það væri komið á einn stað, heldur en nú er? Ég gæti best trúað því.