10.04.1981
Efri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3618 í B-deild Alþingistíðinda. (3698)

296. mál, umhverfismál

Egill Jónsson:

Herra forseti. Mér þótti ástæða til þess að koma hér upp því að mér fannst nóg um þegar tveir virðulegir ræðumenn hér, bæði hæstv. ráðh. og svo 1. flm. þessa máls, voru farnir að impra á því, að það ætti að gera eitt allsherjarsvið í kringum mengunar-, landverndar- og gróðurverndarmál hér á landi. Og hæstv. ráðh. impraði á því, að e. t. v. hefðu nýst betur þeir fjármunir, sem Alþingi gaf íslensku þjóðinni árið 1974, ef um það hefði verið til heildstæð og góð áætlun og þá væntanlega eitthvað tengd við mengunarvarnir og annað slíkt.

Ég vil fyrir það fyrsta taka það fram, að ég held að því fjármagni, sem varið var til Landgræðslu ríkisins með þjóðargjöfinni, hafi verið varið alveg sérstaklega vel. Og ég held að það væri athugandi og reyndar rannsóknarefni fyrir Alþingi og ríkisstj. að kanna það, hvað mikið fer t. d. í skrifstofuhald eða yfirstjórn hjá þeirri virðulegu stofnun. Ég hygg að það muni ekki aðrar stofnanir skila jafnmiklu starfi með jafnlítilli yfirbyggingu og einmitt sú stofnun gerir. Ég tek að vísu þessar ábendingar alls ekki sem neitt ámæli í þeirra garð, en ég hef óneitanlega orðið þess var hér í Alþingi, að svo virðist þessa dagana sem menn hafi nokkrar áhyggjur af því, hvernig það fjármagn, sem Landgræðsla ríkisins hefur haft til umráða, nýtist. En það er önnur saga. Og væntanlega verður það rætt og skýrt í sambandi við landgræðsluáætlunina sem áformað hefur verið að um yrði fjallað hér á Alþingi. En víst er um það, að þótt okkar frv., sem nú er til umræðu, sé gott, þá held ég að það verði ekki til þess að bæta úr framkvæmdagöllum á vegum Landgræðslu ríkisins. Þeir eru að sjálfsögðu einhverjir, en ég er sannfærður um að þeir eru í miklu minni mæli en víðast annars staðar í opinberum stofnunum.