10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3620 í B-deild Alþingistíðinda. (3703)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal hafa mál mitt örstutt. Mér er það bæði ljúft og skylt að koma hér í ræðustól og draga ummæli mín til baka um það, hver ætti mestu þakkir skildar fyrir það að hafa fellt niður nýbyggingargjaldið. Ég sagði í ræðu minni fyrr í þessari umr. að það hefðu verið framsóknarmenn, en nú er upplýst að það er hæstv. landbrh., Pálmi Jónsson, sem á að fá rós í hnappagatið. Ég trúi því, að það sé rétt, og vænti þess, að hæstv. landbrh. haldi áfram á þessari braut.

Í þessu máli hafa orðið talsverðar umr. um það jafnframt, af hvers konar völdum þessi lög voru sett á sínum tíma um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hér hafa komið upp tveir hv. Alþfl.-þm. og sagt að ástæður hafi verið tvær: Annars vegar verðbólguástæður, þ. e. að stjórnendur fyrirtækja hefðu viljað festa fé sitt í húsnæði vegna verðbólgunnar, og hins vegar af þensluástæðum. En auðvitað er það ein og sama ástæðan. Þenslan í þessum efnum átti sér auðvitað rætur í því, að menn tóku lán og festu fjármagn í slíku húsnæði. Þessar forsendur eru horfnar, eins og margoft hefur verið bent á í þessum umr. Þetta hafa þeir hv. Alþfl.-menn, sem sömdu á sínum tíma stefnuna um jafnvægi í efnahagsmálum, skilið, enda kemur nú berlega í ljós hver er höfundur hennar því að hann hefur lýst sig andvígan þessum skatti. Það er hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Hann hefur enn einu sinni sýnt að hann hefur yfirburði yfir aðra flokksmenn sína um skilning á efnahagsmálum.