10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3629 í B-deild Alþingistíðinda. (3715)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það hefur verið rætt mjög ítarlega bæði um frv. til lánsfjárlaga og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, bæði í hv. Ed. og eins í Sþ. Enn fremur hafa sjálfstæðismenn í Ed. gefið út mjög ítarlegt nál. þar sem sjónarmið flokksins koma glögglega fram. Þess vegna er óþarfi fyrir mig að gerast mjög langorður við þessa 1. umr. um frv. til lánsfjárlaga í Nd.

Helstu atriðin í gagnrýni stjórnarandstöðunnar er þó rétt að láta koma fram. Vil ég í fyrsta lagi minnast á það atriði sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. þar sem hann gerði lítið úr þeirri gagnrýni stjórnarandstöðunnar, að illa væri staðið að gerð lánsfjáráætlunar og lánsfjárlagafrv. Hæstv. ráðh. vitnaði til þess, að tiltölulega nýlega hefði verið byrjað á því að leggja fram lánsfjáráætlun og lánsfjárlög eins snemma og gert væri nú og á síðasta ári. Eins og allir vita er það nú lögbundið, hvernig að þessu skuli staðið, og má finna um það ákvæði í svokölluðum Ólafslögum, lögum nr. 13 frá 1979, þar sem skýrt er tekið fram að leggja skuli lánsfjáráætlunina fram ásamt fjárlögum, en það er gert ráð fyrir að þau liggi fyrir við upphaf þings. Þetta eru lög sem hæstv. fjmrh. sjálfur setti ásamt þeirri stjórn sem hann átti þá sæti í. Hann getur því ekki við neinn annan sakast en sjálfan sig um þetta efni. Gagnrýni okkar byggist auðvitað á því, að hann hefur sjálfur sett sér þessar eðlilegu reglur, en síðan þegar á hólminn er komið, neitar hann að fara eftir þeim. Fyrir jól, þegar átti að afgreiða fjárlög, var gefið út bráðabirgðaplagg sem kallað var lánsfjáráætlun. Þar kom fram að ætlunin var að leggja fram strax eftir jól lánsfjáráætlun og lánsfjárlög. Það dróst hins vegar svo, að það var ekki fyrr en síðustu daga í marsmánuði sem lánsfjáráætlun og lánsfjárlagafrv. sáu dagsins ljós á Alþingi.

Því verður ekki á móti mælt og hefur ekki verið hrakið, að lántökur aukast gífurlega samkv. því lánsfjárlagafrv. sem hér er til umr. Það er auðvitað auðvelt að reka ríkiskassann hallalausan um stundarbil þegar efnt er til slíkra lána erlendis, en menn verða að gæta þess, að slíkt háttalag bindur auðvitað hendur þeirra sem í framtíðinni þurfa að setja fjárlög og gera áætlanir fyrir ríkissjóð. Það er tiltölulega lítill vandi að fá lán erlendis, jafnvel lán sem ekki þarf að greiða af svo áratugum skiptir. Og mér er sagt að eitt slíkra lána sé á þann veg, að fyrsta afborgun eigi að fara fram árið 2016. Þá verður hæstv. forsrh. 106 ára og hæstv. fjmrh. að nálgast áttrætt. Og þó að ég viti að þessir ágætu höfðingjar báðir tveir eldist vel, þá er ég ekki viss um að þeir verði í fararbroddi þeirra stjórnmálamanna árið 2016 sem þurfa að taka ábyrgð á þessum endurgreiðslum. (Gripið fram í: Fullyrtu nú ekki of mikið.) Nei, ég hafði fyrirvara á eins og hv. þm. heyrði.

Danir hafa lent í miklum erfiðleikum einmitt vegna þess að þeir hafa tekið mikil erlend lán. Nú er svo komið, að nánast allar opinberar framkvæmdir í Danmörku eru fjármagnaðar með lántökum, en til rekstrar danska ríkisins er aflað fjár með skattgreiðslum og síðan aðeins afborganir af lánum. Þetta vildi ég láta koma fram strax í upphafi sem svar við því sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. En til viðbótar kom hæstv. ráðh. inn á það atriði að ekkert væri að marka bráðabirgðatölur vegna afkomu ríkissjóðs á s. l. ári þar sem þær tölur væru byggðar á greiðslugrunni og væri t. d. ekki tekið tillit til tekna ríkissjóðs af söluskatti vegna desembermánaðar sem yfirleitt er miklu hærri en aðra mánuði. Þetta er út af fyrir sig einkennileg yfirlýsing þegar þess er gætt, að fjárlögin og þá um leið ríkisreikningur, sem borinn er saman við fjárlög, er á svokölluðum greiðslugrunni og ekki tekið tillit til útistandandi skulda. Þær tölur á hverjum tíma, sem sjást í fjárlögum, eru á greiðslugrunni, þ. á m. söluskatturinn eins og allur annar skattur. Það er þess vegna alveg út í bláinn þegar hæstv. fjmrh. ætlar að réttlæta afkomubrest ríkisins með þessum hætti.

Það er öllum ljóst að baráttan við verðbólguna er tengd baráttunni við það að halda fjárlögum niðri, útgjöldum ríkisins í skefjum. Fyrir síðustu kosningar skrifaði ágætur framámaður og einn af forustumönnum Sjálfstfl. grein í Morgunblaðið og þar segir 28. nóv. 1979, með leyfi forseta:

„Áður en fjárlagagerð hefst verður ríkisstj. að ákveða hámark ríkisútgjalda, þak á fjárlögin. T. d. mætti ákveða að þau skuli á næsta ári vera 10% lægri en fjárlagafrv. sem vinstri stjórnin lagði fram í okt. og hljóðaði upp á 350 milljarða.“ Ég skýt því hér inn, að það er okt. 1979. „Innan þessa ramma verða fjárlaga- og hagsýsludeild og fjvn. Alþingis að koma útgjöldunum fyrir. Niðurgreiðslur úr ríkissjóði á landbúnaðarvörum kosta nú milli 20 og 30 milljarða á ári og eru komnar úr hófi. Hér má spara milljarða. Bændur sjálfir og samtók þeirra hafa látið í ljós að þær megi helst ekki verða meiri en mismunur á framleiðsluverði og söluverði. Þessar miklu niðurgreiðslur skekkja verðlag og draga úr hvöt til að ráðast í nýjar búgreinar. Þær bjóða heim hættu á misnotkun og spillingu. Þær leiða til þess, að þeir ríku fá meira í sinn hlut úr ríkissjóði en þeir snauðu. Þegar dregið verður úr niðurgreiðslum á að bæta láglaunafólki það upp með tekjutryggingu, fjölskyldubótum og afnámi á tekjuskatti þannig að kaupmáttur þess fólks minnki ekki.“

Hér lýkur tilvitnun í Morgunblaðið 28. nóv. 1979. Tilvitnunin er í grein eftir núv. hæstv. forsrh. og ég verð að segja að ég held að hann hafi ekki — þrátt fyrir eflaust góðan vilja — komið í gegn sínum sjónarmiðum, nema síður sé. En ég veit að hann hefur ekki misst trú á þeim málstað sem þarna kemur fram. Það, sem hins vegar hefur gerst, er að aðrir aðilar í ríkisstj. ráða því hve mikið fer í eyðslu ríkissjóðs og þess vegna hefur hæstv. forsrh. ekki haft sína stefnu fram. Þau lánsfjárlög, sem nú er verið að fjalla um, benda eindregið til þess, að hæstv. forsrh. eigi enn langt í land í þeim efnum að ná tökum á ríkisfjármálunum eins og hann helst vildi gera. Sjálfstæðismenn hafa bent á það í umr. um lánsfjárlög, að megineinkenni frv. til lánsfjárlaga fyrir yfirstandandi ár séu þau sömu og lánsfjárlaga s. l. árs, en þau voru fyrstu lánsfjárlög núv. ríkisstj. Þessi megineinkenni eru að því er varðar stýringu lánsfjár og fjárfestingar sem hér segir:

1. Heildarfjárfesting er enn um eða yfir 26% af þjóðarframleiðslu þrátt fyrir áformaðan magnsamdrátt í stórvirkjunum, stóriðju og hitaveituframkvæmdum.

2. Opinberar framkvæmdir aukast enn að magni til þriðja árið í röð og er það eini meginliður fjármunamyndunar í landinu sem þróast þannig.

3. Stórfelldur samdráttur er fyrirhugaður í fjármunamyndun atvinnuveganna, eða 12.6% að magni til, og fyrirsjáanlegur er samdráttur í íbúðabyggingum þriðja árið í röð. Það, sem er alvarlegt við það sem þarna er að gerast, er að atvinnuvegirnir, sem nú verða að standa að fullu straum af auknum fjármagnskostnaði, verða áfram skattpíndir og geta því ekki fjárfest, en arðsöm fjárfesting þeirra er auðvitað nauðsynleg forsenda nægrar atvinnu og batnandi lífskjara. Það fjármagn, sem skattgreiðendur, þar með talin fyrirtækin, lögðu fjárfestingarlánasjóðum til, hefur minnkað hlutfallslega, en ríkisvaldið notar það til annarra þarfa, einkum rekstrar og niðurgreiðslna, til samneyslu og millifærslna. M. ö. o.: Það er út af fyrir sig eðlilegt að fyrirtækin greiði sparifjáreigendum fullan fjármagnskostnað og ávaxti fé þeirra með þessum hætti, en þá verður ríkisvaldið auðvitað á móti að slaka á skattheimtunni. Það hefur núverandi stjórnarherrum láðst að gera.

4. Erlend lánsfjáröflun til opinberra framkvæmda er aukin um rúmlega 1 milljarð nýkr. eða tæp 105% og heildarlántaka til opinberra aðila um 85%.

5. Erlendar skuldir í árslok 1980 voru tæplega 6 milljarðar nýkr. miðað við áramótagengi. Áformað er að taka ný erlend lán um 1.5 milljarða á árinu. Þetta þýðir 71.4% hækkun erlendra skulda að raungildi á fjórum árum.

6. Greiðslubyrði erlendra lána verður á næsta ári 15.716.4% af útflutningstekjum og skuldastaðan 36.6% af þjóðarframleiðslunni í árslok 1981. Greiðslubyrði í prósentum af útflutningstekjum var til samanburðar árið 1977 13.7% og skuldastaðan 31.6% af þjóðarframleiðslu. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. í ræðu hans hér áðan, að þessar tölur eru auðvitað áætlunartölur sem geta að sjálfsögðu breyst, ekki síst vegna þess að stofninn breytist, þ. á m. þjóðarframleiðslan, en það rýrir samt á engan hátt gildi slíkrar áætlunargerðar. Og ég þykist vita að þessar tölur, sem koma fram í áætlunum hæstv. ráðh. sjálfs, séu til þess gerðar að gera gleggri og betri grein fyrir því, hver þróun mála sé. Þess vegna verður stjórnarandstaðan að treysta á að þær tölur séu réttar, a. m. k. miðað við þær forsendur sem gefnar eru á hverjum tíma.

7. Haldið er áfram niðurskurði á framlögum ríkissjóðs af samtíma skatttekjum til þess að halda uppi framkvæmdum. Þetta er í raun nýtt form á hallarekstri ríkissjóðs eins og áður var rækilega minnst á.

Ég hef nú gert grein fyrir hver eru helstu megineinkenni frv. að áliti okkar sjálfstæðismanna. Ég tel þó ástæðu til þess að benda á til viðbótar að hæstv. ráðh. hefur aflað sér tvennra heimilda, til þess annars vegar að skera niður ríkisútgjöldin og hins vegar til þess að fresta opinberum framkvæmdum. Annars vegar hefur hann heimild í 6. gr. fjárlaga og hins vegar lá honum gífurlega mikið á um s. l. áramót að afla sér nýrrar heimildar til þess að geta frestað opinberum framkvæmdum. Þá var því lýst yfir af ríkisstj. að brýna nauðsyn bæri til þess að setja lög til þess að ríkisstj. hefði heimild til að fresta opinberum framkvæmdum. Nú kemur hæstv. ráðh. í ræðustól á Alþingi, þegar komið er fram um miðjan aprílmánuð, og spyr stjórnarandstöðuna: Viljið þið láta fresta þessu, viljið þið skera þetta o. s. frv., o. s. frv. — og telur þar upp hitaveitur og annað það sem ríkisstj. og sveitarfélögin hyggjast framkvæma á árinu. Þetta er kynleg aðferð þegar þess er gætt, að þessi sami hæstv. ráðh. hefur þegar aflað sér heimildar og það hlýtur að vera í hans verkahring að koma til alþm. með skrá yfir þær framkvæmdir sem hann vill láta fresta. Það er í raun skylda hans að leggja slíka skrá fyrir fjvn. þingsins. Eftir því sem lengra líður á árið er erfiðara fyrir opinber fyrirtæki að endurskoða áætlanir sínar vegna þess að mesti framkvæmdatíminn er yfir sumarmánuðina og ef það dregst öllu lengur gerist það nánast ómögulegt fyrir ýmis stærri opinberu B-hluta fyrirtækin.

Þá er í þessu sambandi einnig ástæða til að benda á að hæstv. ráðh. Framsfl. hafa ítrekað, bæði innan þings og utan, lýst yfir að þeir vilji lækka skatta á almenningi og skera niður og fresta framkvæmdum á móti. En engar upplýsingar, engar tillögur, engar hugmyndir um slíkan niðurskurð eða frestun koma aftur á móti frá þessum sömu mönnum. Er nú til of mikils mælst af hæstv. ráðherrum ríkisstj., bæði Framsóknarráðherrunum og Alþb.-ráðherrunum, að þeir segi þingi, áður en þing fer heim, hvernig þeir ætla að notfæra sér þær heimildir sem þeir hafa þegar aflað sér með meirihlutavaldi á Alþingi til frestunar og niðurskurðar?

Það mál, sem mesta athygli hefur vakið í sambandi við afgreiðslu lánsfjárlaga að þessu sinni, er án efa bygging flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Ég sé ekki ástæðu til að ræða það mál ítarlega nú, en minni á að fyrir jólin fluttum við fjvn.-menn Sjálfstfl. og Alþfl. till. þess efnis, að á fjárlögum yrði gert ráð fyrir fjármagni til flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurflugvelli. Við drógum þessa till. til baka vegna orða hæstv. viðskrh. Tómasar Árnasonar sem sagði að hæstv. utanrrh. mundi beita sér fyrir málinu í hæstv, ríkisstj. Ekki var annað að skilja á hæstv. viðskrh. en að hann væri sammála hæstv. utanrrh. í málinu. Nú hefur það sýnt sig í Ed. að ekki var meiri hluti fyrir málinu þar. Afstaða hæstv. utanrrh. er hrein og klár og hún kemur þess vegna ekki á óvart. Um hana var vitað frá því í haust.

Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir hv. Alþingi að gefa út viljayfirlýsingu um það, að ætlunin sé á næstunni að byggja flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Þetta er þeim mun nauðsynlegra sem það er ljóst að við verðum ekki eini aðilinn sem stendur að framkvæmdunum. Af þessu tilefni hafa sjálfstæðismenn ákveðið að athuga það rækilega nú við meðferð málsins í Nd., hvernig hægt sé að vinna þessu máli brautargengi svo að sjöttungur þingsins geti ekki komið í veg fyrir að slíkrar heimildar sé aflað, ekki síst með tilliti til þess — svo að vitnað sé til grg. hæstv. utanrrh. — að það er álit hans að þrátt fyrir heimildina geti ríkisstj. að sjálfsögðu ráðið því hvort hún notar slíka heimild eða ekki. Það er ástæða til þess að benda á þetta hér. Ríkisstj. hefur margfaldar heimildir til þess að fresta opinberum framkvæmdum. Í lánsfjárlögum er fyrst og fremst um heimildir að ræða. Samt sem áður fær Alþingi Íslendinga ekki vegna ofríkis 11 þm. að gefa út viljayfirlýsingu í þessu máli. Og í þessu sambandi skil ég afstöðu hv. framsóknarmanna þannig að þeir í hjarta sínu fylgi auðvitað fremur ályktun miðstjórnar flokksins en boðum og bönnum Alþb.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þetta mál að sinni. Nefndarmenn hv. fjh.- og viðskn. úr röðum sjálfstæðismanna munu að sjálfsögðu vinna að þessu máli og gera þær tillögur sem þeir telja eðlilegastar í málinu.