10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3640 í B-deild Alþingistíðinda. (3718)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu, að hv. þm. Albert Guðmundsson, eins og ég bjóst við að hann mundi gera, stendur í einu og öllu við yfirlýsingu sína og orð sem féllu 26. mars s. l. um kröfu um að málið verði afgreitt með þingmeirihluta og styður að sjálfsögðu þá afgreiðslu. Ég vil aðeins taka það fram, að það liggur engin till. fyrir í málinu. Það hefur engin till. verið lögð fram í þessu máli og liggur engin till. frammi í málinu í þessari hv. deild. (Gripið fram í.) Nei, till. liggur aðeins fyrir í Ed. og var þar afgreidd. Engin till. hefur komið fram hér. Og ég tek það aðeins fram að ég mun óska mjög eindregið eftir því að hafa samstarf og fullt samráð við Albert Guðmundsson um, hvernig þessi till. verður úr garði gerð, og lýsi því fyrir mína hönd, að ég er reiðubúinn að ganga til samkomulags við Albert Guðmundsson um till. um þetta mál, að hún verði þannig úr garði gerð sem hann getur fellt sig við þannig að staðið sé við það afdráttarlausa markmið sem hann með skörungsskap lýsti í ræðu sinni 26. mars s. l. Ég mun vinna í fjh.- og viðskn. þessarar deildar, þar sem við hv. þm. Albert Guðmundsson eigum báðir sæti, með þetta að leiðarljósi og vænti þess að sjálfsögðu, að samkomulag takist milli mín og hv. þm. um að gera till. þannig úr garði sem við báðir viljum.