10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3641 í B-deild Alþingistíðinda. (3722)

297. mál, tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 631 flyt ég frv. til l. um tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að Stóra-Ármóti. Meginefni þessa frv. er fólgið í því, að landbrh. er heimilt að semja við stjórn Búnaðarsambands Suðurlands um sameiginlegan rekstur tilraunastöðvar að Stóra-Ármóti í Flóa.

Árið 1952 tókst Búnaðarsambandi Suðurlands að fá jörðina Laugardæli í Hraungerðishreppi leigða til 25 ára og stofnaði þar tilraunastöð í nautgriparækt. Jörðin var í eigu Kaupfélags Árnesinga sem hafði rekið þar bú í 15 ár, en þetta vor seldi Kaupfélagið Búnaðarsambandinu bústofn og lausafjármuni alla og leigði því jörðina á hagstæðum kjörum til starfrækslu tilraunastöðvar í nautgriparækt. Þáv. nautgriparæktarráðunautur gekkst fyrir því að ríkissjóður styrkti þessa stofnun með árlegu framlagt, og gerði það Búnaðarsambandinu kleift að hefja nauðsynlegar framkvæmdir í Laugardælum. En tilraunastöðinni var þá þegar ætlað fjölþætt hlutverk, sérstaklega á sviði tilrauna í nautgriparækt og mjólkurframleiðslu.

Á þeim 28 árum, sem þessi tilraunastöð hefur starfað í Laugardælum, hefur hún sinnt fjölþættum viðfangsefnum á sviði tilrauna. Skulu hér rakin helstu verkefni stöðvarinnar, sem hún hefur fengist við, nokkurn veginn í réttri tímaröð.

1. Afkvæmarannsóknir á nautum.

2. Tilhögun beitar og áburðargjafar á ræktað land fyrir mjólkurkýr.

3. Sumarbeit lambáa á ræktað land.

4. Samanburður á vaxtarhraða og kjötgæðum ungneyta af íslenskum stofni og blendinga af Galloway-stofni.

5. Fóðurtilraunir á kálfum til lífs og til slátrunar.

6. Tilraunir með mismikla votheysgjöf til mjólkurkúa í lágri eða hárri nyt.

7. Könnun á kjarnfóðurgildi grasmjöls og grasköggla.

8. Rannsóknir á gildi þess að blanda dýrafitu í grasköggla.

9. Rannsóknir á átgetu mjólkurkúa á heyi með mismikilli kjarnfóðurgjöf.

10. Samanburður á afurðagetu mjólkurkúa sem fóðraðar eru á snemmslegnu og síðslegnu heyi.

Í fyrstu var leitað af hálfu Tilraunastöðvarinnar í Laugardælum samstarfs um verkefnaval og framkvæmd tilrauna við Tilraunaráð búfjárræktar sem þá var sú stofnun sem fór með þessi mál í umboði ríkisins. Síðan færðist þetta samstarf yfir á herðar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins af hálfu ríkisins, eftir að sú stofnun var sett á laggir, og s. l. sex ár hefur Rannsóknastofnun landbúnaðarins haft fastan tilraunaeftirlitsmann í Laugardælum auk þess sem sérfræðingur á stofnuninni hefur komið þar vikulega. Fullyrða má að samstarf þessara aðila hefur gengið með ágætum og árangur af starfi þessarar tilraunastöðvar hefur orðið veigamikill fyrir íslenskan landbúnað.

Í Laugardælum er aðstaða að ýmsu leyti góð eða sæmileg enda þótt þar sé margra úrbóta þörf. Þannig er þó ástatt, að Búnaðarsamband Suðurlands hefur á undanförnum árum leitað eftir því að fá jörðina Laugardæli keypta af Kaupfélagi Árnesinga, en þær tilraunir hafa ekki borið árangur. Nú hefur Búnaðarsambandið jörð þessa á leigu til fimm ára og kann auðvitað að vera að unnt sé að fá þann leigusamning framlengdan. En óvissa er slík um framtíð stöðvarinnar á þessum stað að forráðamenn Búnaðarsambandsins telja hana ekki til frambúðar.

Á s. l. vori var Búnaðarsambandi Suðurlands gefin jörðin Stóra-Ármót í Hraungerðishreppi fyrir tilraunastarfsemi Búnaðarsambandsins. Jörðin er álíka landmikil og Laugardælir eða um 700 hektarar og ræktunarland er þar gott. Jörðin er nágrannajörð við Laugardæll. Fyrirhugað er að flytja starfsemi þessarar tilraunastöðvar frá Laugardælum að Stóra-Ármóti og er þetta frv. flutt til þess að kveða á um samstarf Rannsóknastofnunar landbúnaðarins fyrir hönd ríkisins og Búnaðarsambands Suðurlands um að flytja stöðina til sem þessu nemur og um starfrækslu hennar þar.

Ég tel í fyrsta lagi að það sé mjög nauðsynlegt að halda áfram starfi þessarar tilraunastöðvar sem rekin hefur verið af myndarskap af Búnaðarsambandi Suðurlands. Einnig tel ég það æskilegt form, að samið sé um hlutdeild ríkisins í þeirri uppbyggingu, sem þarna er fyrirhuguð, og um fyrirhugaðan rekstur á hinum nýja stað. Í frv. er kveðið á um það, að þátttaka ríkissjóðs í kostnaði við mannvirkjagerð og rekstur ákvarðist af fjárveitingu hverju sinni. Enn fremur er kveðið á um það, að við tilraunastöðina starfi sérfræðingur í fóðurfræði og rannsóknamaður sem ráðnir séu af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og þar með á ríkislaunum. Það er mjög heppilegt að starfsemi sem þessi sé að veigamiklu leyti á ábyrgð og í höndum heimaaðila, og ég lít svo til að með því frv., sem hér er flutt, sé stefnt að heppilegu fyrirkomulagi á rekstri þessarar tilraunastöðvar er gæti e. t. v. orðið fyrirmynd að slíkri starfsemi annars staðar á landinu.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska eftir því, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. landbn.