10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3643 í B-deild Alþingistíðinda. (3723)

297. mál, tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt um það mál sem liggur fyrir og hæstv. landbrh. hefur mælt hér fyrir. Þetta er stórmál fyrir bændasamtökin á Suðurlandi sem hér hefur verið lagt fram. Eins og hæstv. ráðh. minntist á hefur verið rekin tilraunstöð í Laugardælum í 28 ár þar sem ýmis mikilvæg málefni hafa verið rædd og rannsökuð og gerðar tilraunir á margvíslegum þáttum landbúnaðarins, bæði hvað varðar fóðrun mjólkurkúa og beit á ræktað land, afkvæmarannsóknir og margs konar fóðurtilraunir: Þetta eru þær rannsóknir sem landbúnaðurinn byggist að stórum hluta á og er mjög mikils vert að gerðar séu úti í hinum stærri landbúnaðarhéruðum. Er Suðurland óneitanlega eitt af þeim. Sú stöð, sem þarna hefur verið rekin af Búnaðarsambandi Suðurlands, nær yfir fjórar sýslur á Suðurlandi. Það er mjög mikilvægt að sú samstaða, sem ríkt hefur, geti haldið áfram. Þar á ég ekki síst við það, að Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur haft þarna aðstöðu og verið góð samvinna við þá stofnun um framkvæmd og uppbyggingu tilraunanna. Ráðunautar Búnaðarsambandsins hafa líka átt þarna gott starf við að skipuleggja þær tilraunir.

Ég vil undirstrika það, að ánægjulegt er að þetta frv. skuli nú liggja fyrir. Það verður athugað í landbn. sem ég á sæti í, og ætla ég því ekki að ræða þetta nánar núna, en vil taka það fram, að ég hvet til að þessu máli verði hraðað í gegnum þingið.