13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3646 í B-deild Alþingistíðinda. (3738)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur tekið þetta frv. fyrir á einum fundi, en hins vegar hafa margir fundir verið haldnir á undanförnum vikum um frv. til lánsfjárlaga og sömuleiðis um lánsfjáráætlunina eftir að hún sá dagsins ljós. Við teljum ekki ástæðu til annars en greiða fyrir afgreiðslu þessa máls. Nóg er samt að gert frá hendi hæstv. ríkisstj. því að hún er orðin brotleg við lög sem meginþorri hennar setti, Alþb. og Framsfl. stóðu að, lög um stjórn efnahagsmála frá 1979, en þar er komið því ákvæði í lög að lánsfjárfrv. og lánsfjáráætlun eigi að liggja fyrir við framlagningu fjárlagafrv. í byrjun þings þannig að þm. sjái heildarmyndina af framkvæmdum ríkisins á hverjum tíma. Það hefur ekki tekist betur til en það, að þó að segi í aths. við fjárlagafrv. að lánsfjáráætlun skuli liggja fyrir í nóvemberlok stóðst það ekki, en bráðabirgðaskýrsla var send þm. um opinberar framkvæmdir og erlendar lántökur. Í þeirri skýrslu segir að vinna við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun í heild sinni sé nú vel á veg komin og áformað að leggja áætlunina fyrir Alþingi að loknu jólaleyfi. Efndirnar urðu þær, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun var lögð fyrir Alþingi um mánaðamótin mars-apríl. Þrátt fyrir þennan vítaverða seinagang, sem brýtur í bága við efnahagslögin frá 1979, taldi ríkisstj. brýna nauðsyn bera til að gefa út brbl. á gamlársdag þar sem hún fær heimild til að fresta framkvæmdum sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun fyrir þetta ár sem nú loksins er verið að afgreiða. Finnst mönnum ekki undarlega að farið, að ríkisstj. notar sér heimild í stjórnarskrá til að gefa út brbl. um að fresta tilteknum framkvæmdum í lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun sem þá er ekki tilbúin? Þetta þóttu býsn og undur og bera vott um alveg sérstaklega góða stjórn að gefa þannig út brbl. til þess að fresta framkvæmdum við lánsfjáráætlun sem lá ekki fyrir og var ekki fullsköpuð frá hendi ráðh. Ég hygg að það megi leita í öllum þjóðþingum í hinum vestræna heimi og lýðræðisheimi að öðrum eins snillingum og eiga sæti í ríkisstjórn Íslands á þessu herrans ári, enda hefur margt annað farið eftir þessu.

Þessi lánsfjáráætlun og þar með þetta frv. til lánsfjárlaga ber svipmót mikillar aukningar erlendra skulda og stórfelldrar útþenslu á ríkisbákninu. Á sama tíma er verulegur samdráttur í fjármunamyndun atvinnuveganna. Þrátt fyrir fullyrðingar ríkisstj. um góða afkomu á s. l. ári er það staðreynd, að flest stærstu fyrirtæki og stofnanir, sem ríkissjóður á og rekur, töpuðu milljörðum kr. á s. l. ári og þau eru rekin það sem af er þessu ári með gífurlegum rekstrarhalla. Í þessu sambandi er vert að minnast á örfá ríkisfyrirtæki. Við skulum nefna í þessu sambandi Póst og síma. Við skulum nefna áburðarverksmiðju. Við skulum nefna Sementsverksmiðjuna sem fékk leyfi frá vitlausum aðila nýlega. (Gripið fram í: Ekki vitlausum aðila.) Jú, snarvitlausum. (Gripið fram í.) Er skrifarinn eitthvað órólegur hjá hæstv. forseta? (Forseti: Ég mun gæta hans betur.) Já, takk fyrir. Forseti verður að gæta barna sinna og undirmanna. — Þá var ekki snúið sér til réttra verðlagsyfirvalda og ekki heldur verðlagsráðherra eða iðnrh. Það var dómsrh., yfirmaður Rannsóknarlögreglu ríkisins, stjórnarmaður í Sementsverksmiðjunni, sem skilaði til Sementsverksmiðjunnar að nú mætti hækka verð á sementi um 10%. Þar með er farið fram hjá þeim aðilum sem eiga að fjalla um verðlagsmálin og það er líka farið fram hjá ráðuneytunum sem hér eiga að fara með málin og ættu að fylgja því eftir: í fyrsta lagi verðlagsmálaráðherra, hæstv. viðskrh., og í öðru lagi iðnrh., sem er yfirmaður Sementsverksmiðjunnar. Það liggur við að verðlagsyfirvöldin í landinu segi af sér vegna þess að ríkisstj. fer alltaf á svig við lögin og gleymir hvernig á að fara að í sambandi við verðbreytingar. Hún hefur heimild til að samþykkja eða hafna tillögum verðlagsyfirvalda, en þá fer hún að krukka í þær samþykktir. Þetta eru undarleg vinnubrögð og ég spyr þdm.: Þekkja þeir nokkur fordæmi þessa, að þannig hafi verið unnið að verðlagsmálum áður í þessu landi? Ég held að það megi lengi leita að fordæmi í þessum efnum.

Hvað er um Ríkisútvarpið? Hvernig stendur það? Hvað er um Landsvirkjun? Hún hefur verið rekin frá því að vinstri stjórn tók við haustið 1978 með miklum halla og er rekin með halla enn í dag. Svo kemur fjmrh. — ég tala nú ekki um hæstv. forsrh. — í sjónvarp og útvarp og hælir sér að góðri afkomu ríkissjóðs á s. l. ári. En þegar tekin er með í dæmið afkoma stofnana og fyrirtækja á vegum ríkisins, sem eru í B-hluta fjárlaga, kemur í ljós að þessi fyrirtæki eru rekin með milljarða halla. Og ef við lítum á ríkisdæmið í heild er ekki af að guma, heldur þvert á móti.

Það er öllu haldið í herfjötrum. Svo er verið að gorta af því að verðbólgan fari niður á við; það sé eitthvert taumhald á verðbólgunni haft með því að loka augunum í nokkra mánuði og þora ekki að taka ákvarðanir í rekstri opinberra fyrirtækja. En hvað er þetta á við stöðu atvinnuveganna í landinu sem eru reknir með milljarða halla? Sjávarútvegurinn safnaði skuldum á s. l. ári upp undir 60 þús. millj. kr. Standa stórfyrirtækin í landinu í hlutafélagaeign, eða í samvinnu- eða félagsrekstri vel? Hvernig er hagur Eimskipafélags Íslands eftir reksturinn á árinu 1980? Það, sem bjargar því félagi, er að það stendur á traustum grunni, en það tapaði hálfum þriðja milljarði gkr. á s. l. ári. Allir vita um Flugleiðir. Þannig má lengi telja. Verslun er rekin með stórum halla og önnur skipafélög eru rekin með halla.

Það hallar mjög á ógæfuhliðina. Skilur ríkisstj. það? Skilur ríkisstj. að það halli á ógæfuhliðina? Nei, hún lokar augunum og lætur sig dreyma og segir að allt gangi vel. Formaður Framsfl. segir: Þetta er góð stjórn. — Það finnst mér hæfa honum vel að gefa slíka yfirlýsingu því að hann hugsar aldrei mjög ítarlega um málin. Hann er alltaf búinn að tala áður en hann hugsar. Það er kominn tíma til að bæði hann og fleiri ráðherrar og stuðningslið ríkisstj. hugsi svolítið áður en það talar þó að enginn fari jafnhratt á undan hugsun sinni og formaður Framsfl. Sá næsti kemst ekki með tærnar þar sem hann hefur hælana hvað það snertir að tala á undan því að hugsa.

Framsfl. hélt aðalfund sinn nýlega. Þar tók hann á máli sem búið er að liggja fyrir ríkisstjórnum á undanförnum árum, svokölluðu flugstöðvarbyggingarmáli á Keflavíkurflugvelli, og þar var gerð skynsamleg ályktun sem betri og greindari menn flokksins hafa sennilega staðið að. þar var lýst yfir fullum stuðningi við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurvelli. Undirbúningur þessa máls hefur verið jafnvel meira í höndum framsóknarmanna en annarra þó að þessi mál heyri undir ríkisstj. á hverjum tíma. Einar Ágústsson, fyrrv. utanrrh., stóð mjög að undirbúningi þessa máls og viðræðum við Bandaríkjamenn í sambandi við hlutdeild í kostnaði við þessa byggingu og það sem af henni leiðir. Núv. hæstv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, tók þar við eftir stutt starf hæstv. fyrrv. utanrrh. Benedikts Gröndals, sem hélt áfram því starfi sem Einar Ágústsson hafði lagt grundvöllinn að. Sú ríkisstj., sem Einar Ágústsson átti sæti í hafði gefið Benedikt grænt ljós svo að haldið yrði áfram að vinna í þeim anda. Þá kemur það á daginn, að þegar á að knýja á um ákvarðanatöku í þessu máli snúast kommúnistar gegn því. Þeir eru, eins og ég hef sagt hér áður, eitt alíhaldssamasta og afturhaldssamasta afl í þessu þjóðfélagi. Þeir vilja halda í við alla framleiðsluaukningu og uppbyggingu atvinnuvega, en þeir hafa fengið það alveg sérstaklega á heilann að það megi ekkert gera á stað sem heitir Keflavíkurflugvöllur. Það er tabú í þeirra augum. Í stað þess að styðja að því, að byggð verði flugstöð, og nota sér þá gífurlegu fyrirgreiðslu, sem Bandaríkin hafa heitið í þessu sambandi og stendur til okt. 1982 eða á næsta ári, berja þeir höfðinu við steininn.

Þó að vitað sé að mikill þingmeirihluti sé fyrir því að hraða því að farið verði í þessar framkvæmdir er lýðræðið hér í þessu landi með þeim hætti, að 11 þm. Alþb. telja sig geta stöðvað þetta mál eins og aðrar framkvæmdir á sviði utanríkis- og öryggismála, eftir að vitað er að tveir menn úr lýðræðisflokkum hafa gert sig seka um að gera leynisamning kommúnista þar sem þeir gefa þeim neitunarvald í framkvæmdum í þessu máli og þó alveg sérstaklega í öryggismálum Íslands. Þetta liggur fyrir. Þó að það hafi ekki átt að vitnast kemur hæstv. utanrrh. þessu upp á sínum tíma í samtali við flokksblað sitt, Tímann. Þegar hann segir að hann viti ekki um annað en að utanrrh. fari einn með þessi mál og viti ekki um neitt leynisamkomulag er hann farinn að fá grun um að þessir sálufélagar hafi gert leynisamning við kommúnista um öryggismál Íslands. Og það er þessi leynisamningur, sem nú er kominn upp á yfirborðið, sem ætlar að þvælast fyrir öndunarfærunum á formanni Framsfl. og hæstv. forsrh. sem hafa staðið að þessum leynisamningi. M. ö. o.: það er sjáanlegt á öllu að kommúnistar hafa komið ár sinni svo fyrir borð við myndun þessarar ríkisstj. að þeir eru nánast allsráðandi í ríkisstj. Hinir eru þrælar þeirra, „skítpligtugir“ að hlýða þeim í hverju sem á gengur.

Það er einn maður úr þessu liðið sem átti þó og á það sjálfstæði að vilja ekki fylgja eins og hver annar böggull með þessum leynisamningi. Það er hæstv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson. En svo langt er gengið í þingflokki Framsfl. að allir þm. í Ed. voru píndir til þess að snúast öndverðir gegn utanrrh. og fyrrv. formanni Framsfl., Ólafi Jóhannessyni, sem hefur fyrst og fremst með þetta mál að gera og þekkir það betur en hinir þm. flokksins til samans. Hann var skilinn einn eftir í atkvgr. Og það er kaldhæðni örlaganna að varaformaður Sjálfstfl. varð til þess að fella þessa till. sjálfstæðismanna og Alþfl.-manna í Ed. og þar með að koma sér enn í mjúkinn hjá kommúnistum.

Meiri hl. nm. í fjh.- og viðskn. hefur náð samkomulagi um að flytja till. um byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli að nýju, enn ákveðnari en flutt var í Ed. Er till. okkar svohljóðandi:

Ríkisstj. skal á árinu 1981 taka lán að upphæð allt að 5 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, sem verja skal til greiðslu byrjunarkostnaðar við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli samkv. nánari ákvörðun utanrrh.

Þessi till. er flutt ásamt mér af Matthíasi Á. Mathiesen, Albert Guðmundssyni og Sighvati Björgvinssyni. Við erum þeirrar skoðunar, að það beri brýna nauðsyn til þess, að Alþingi taki nú, áður en því verður slitið, ákvörðun um að fara í framkvæmdir við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Utanrrh. og utanrrn. hafa undirbúið þetta mál mjög vel. Teikningar eru allar fullgerðar. Það er 3–5 daga vinna að ganga frá þessu máli svo að verkið sé tilbúið til útboðs. Talið er að það muni taka 4 mánuði að bjóða það út og ganga frá tilboðum og samtals 6 mánuði þyrfti undirbúningur málsins að taka svo að hægt verði að hefja framkvæmdir við byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.

Ég tel fyrir mitt leyti að eftir þær breytingar og þá nákvæmu yfirferð sem þetta mál hefur fengið í utanrrn., sé ekki vansalaust fyrir Alþingi að standa í vegi fyrir því, að ákvörðun sé tekin. Mér er alveg ljóst að það verða ekki miklar eða dýrar framkvæmdir á þessu ári, en einhvern tíma þarf ákvörðun að taka. Ef ákvörðunin á að bíða næsta þings eða fram undir jól á þessu ári þurfa að líða enn 6 mánuðir áður en framkvæmdir geta hafist. Þá fer að líða á þann tíma sem er tilgreindur í samþykkt Bandaríkjastjórnar fyrir fyrirgreiðslunni við flugstöðina.

Það er undarleg tregða, sem á sér stað hjá afturhaldsöflunum í landinu, að vilja ekki taka þessa ákvörðun og vilja enn um hríð fara í gegnum herstöð. Þegar við Íslendingar þurfum að ferðast til eða frá landinu þurfum við að fara í gegnum hlið varnarliðsins. Við eigum að fá greiðan aðgang að okkar flugstöð sjálfir. Þar við bætist að flugstöðin, sem nú er er fyrir löngu orðin mjög ófullkomin. Viðhald hennar er sama og ekkert. Þar er allt að grotna niður og er orðið þjóðinni til skammar. Það laðar ekki erlenda ferðamenn að og þá sem millilenda hér, en koma ekki inn í landið, að sjá þessa fyrstu og einu mynd af Íslandi og af íslenskum framkvæmdum. Það verður ekki til þess að því fólki, sem fær að sjá þessa mynd leiki forvitni á að koma og sjá þetta land. Þeir, sem berjast gegn þessu, eru menn sem skilja ekki tímanna tákn, sem skilja ekki að nauðsynlegar framfarir verða að eiga sér stað.

Við viljum freista þess einu sinni enn þá að reyna þessa leið. Við vitnum til samþykktar Framsfl. við vitnum til þeirrar afstöðu sem hæstv. utanrrh. hefur tekið í þessu máli og er í samræmi við samþykkt Framsfl. Og við viljum vita hvort flokkurinn meinar eitthvað með þessari samþykkt sinni, hvort hann ætlar ekki að sjá að sér eftir þau mistök sem hann gerði við afgreiðslu málsins í Ed. E. t. v. hefur flokknum ekki þótt nógu ákveðið að orði komist í till. í Ed. þar sem hún var í heimildarformi. En nú er hún ákveðin þannig að „ríkisstj. skal á árinu 1981“ o. s. frv., eins og ég las upp áðan. Ég vænti þess því, að það komi nú í ljós hvað er á bak við slíka samþykkt hjá Framsfl. Er flokkurinn að gera samþykkt í alvöru eða er hann að blekkja þá fulltrúa sem koma til fundar í flokknum og standa að slíkri samþykkt? Hvað er það sem hefur breyst? Er það rétt, sem hæstv. fjmrh. lét hafa eftir sér, að þessi flugstöðvarbygging skuli ekki rísa meðan Alþb. er í ríkisstj.? Þá skiptir ekki máli hvort það er 1981 eða 1982 því að þeir hafa keppst við að lýsa yfir að þessi ríkisstj. sé staðráðin í því að sitja út kjörtímabilið. Er það þá rétt skilið, ef enginn þm. Framsfl. ætlar að taka sönsum í þessu máli, að þeir hafi ákveðið að sætta sig við að hefja ekki þessar framkvæmdir út kjörtímabilið og þar með að hætta á að Bandaríkin dragi sína mikilvægu aðstoð til baka? Hér er ekki lítið fjármagn í húfi og það er meira en lítið vald sem kommúnistar hafa yfir framsóknarmönnum og aftaníossum þeirra í ríkisstj. ef þeir ráða þessu.

Enn fremur leyfum við okkur, sömu menn, að flytja till., sem er b-liður till. á þskj. 647, svohljóðandi: „Ríkisstj. er heimilt að taka lán allt að 2.5 millj. kr., sem verja skal til kaupa á öryggistækjum á flugvelli samkv. nánari tillögum flugmálastjóra og flugráðs.“ Okkur þm. er það öllum ljóst að það vantar mikið af öryggistækjum á ýmsa flugvelli hér á landi. Með þessari till. erum við að leggja til að reynt verði að bæta úr ítrustu neyð í þessum efnum og farið verði eftir tillögum flugmálastjóra og flugráðs. Hér er ekki um háa upphæð að ræða eða allt að 250 millj. gkr., en ætti þó að verða til þess að hægt væri að bæta úr mestu neyðinni hvað þetta snertir.

Að lokum vil ég taka fram, að einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja öðrum till. en þeim sem meiri hl. fylgir.