13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3652 í B-deild Alþingistíðinda. (3741)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Út af orðum hæstv. forseta áðan hef ég áhuga á að spyrjast fyrir um hvort óskað hafi verið eftir því við hæstv. forseta, að til atkvgr. yrði ekki gengið þegar umr. lýkur, og hvort hæstv. forseta hafi nokkuð verið gert viðvart um að svo kynni að fara að atkv. gengju jafnvel ekki kl. 4, þegar gera á hlé til þingflokksfunda. Hafi herra forseti fengið einhverjar slíkar óskir vildi ég gjarnan fá að vita hvaðan þær eru komnar. Ég tel sjálfsagt að sá háttur verði hafður á um þetta mál eins og önnur að þegar umr. um það lýkur sé hægt að ganga til atkv. (Forseti: Ég þarf ekki að standa neinum skil á þessari ákvörðun minni. Hana hef ég tekið einn og sjálfur.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir upplýsingarnar. Þá liggur það sem sagt fyrir að það hefur engin ósk komið frá neinum aðila hér í þessari hv. deild um að atkv. verði ekki látin ganga í þessu máli eins og efni standa til.

Herra forseti. Ég ætla ekki heldur að vera langorður um frv. það sem hér hefur verið lagt fram og til stendur væntanlega að afgreiða í dag eftir 2. umr., enda hefur þegar verið rækilega um það fjallað bæði í hv. Ed. og eins í sameinuðu Alþingi. Ég vil aðeins minna á, eins og ég gerði við 1. umr. um málið, að miðað við reynsluna af síðustu lánsfjárlögum hæstv. ríkisstj., sem afgreidd voru á svipuðum árstíma og stendur til að afgreiða þessi lög nú, er harla lítil von um að það frv., sem hér verður afgreitt, verði svo mikið sem pappírsins virði sem til þess er varið. Eins og menn muna var það sérstaklega tekið fram af hálfu stjórnarsinna í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar þegar síðast var afgreitt hliðstætt frv. frá hæstv. ríkisstj. að til þess væri ætlast að þær tölur, sem væru í frv. um heimild Alþingis til ríkisstj. til töku erlendra og innlendra lána, væru tölur sem ekki mætti frá víkja. Þó svo að hæstv. ríkisstj. hefði aðeins örfáa mánuði, aðeins 2/3 úr árinu, til þess að framfylgja þeim vilja Alþingis, sem mótaður var við afgreiðslu síðustu lánsfjáráætlunar, hélt hún engu að síður þannig á málum að ekki ein einasta tala stóðst af þeim heimildum sem Alþingi veitti hæstv. ríkisstj. Hún fór bæði í erlendum og innlendum lánum langt fram úr því, sem hv. Alþingi hafði heimilað ríkisstj., og fór því ekkert að þeim lögum sem sett voru um þetta leyti fyrir einu ári. M. a. þess vegna vek ég athygli á því, að stjórnarsinnar í hv. fjh.- og viðskn. við afgreiðslu þessa máls telja ekki lengur ástæðu til að taka fram að það sé að þeirra viti a. m. k. ætlast til þess, að hæstv. ríkisstj. haldi sig við þau lög sem hér á að fara að afgreiða. M. ö. o. má gera ráð fyrir því, þó svo að komið sé langt fram á árið, að það frv., sem hér verður senn að lögum, verði ekki betur haldið en þau lög sem afgreidd voru fyrir einu ári og þess vegna gætu menn sparað sér að ræða þetta mál svo ítarlega þar sem við megum búast við að reynslan verði ósköp svipuð af ríkisstj. á árinu 1981 og hún var af hæstv. ríkisstj. að þessu leyti á árinu 1980.

Ég ætla aðeins að benda á það að lokum í þessum almennu orðum mínum um lánsfjáráætlunina, hversu góðar ytri aðstæður ríkisstj. hefur nú til þess að ná verulegum árangri sem ríkisstjórnir á umliðnum árum hafa ekki haft. Svo að nokkur dæmi séu nefnd vil ég minna á að verð á skreið frá Íslandi hefur nýverið hækkað um 10% í erlendum gjaldeyri miðað við það verðlag sem gilti í fyrra. Saltfiskur hefur hækkað fluttur frá Íslandi um um það bil 70% á milli ára. Auk þess hefur gengi dollarans verið mjög stöðugt. Að þessu leyti nýtur ríkisstj. nú lags sem ríkisstjórnir um nokkurt skeið hafa ekki notið. Aðstæður eru hæstv. ríkisstj. heldur hagfelldar hvað varðar þær ytri aðstæður sem við búum við í þjóðfélaginu. Auk þess bætist það við, að allar líkur eru á að vaxtastefnan sé nú farin að skila þeim árangri að til ráðstöfunar sé í lána- og peningastofnunum miklu meira fé, bæði fyrir opinbera aðila og einkaaðila, bæði í atvinnurekstri og einstaklinga, en hefur verið á umliðnum árum. Allar hinar ytri aðstæður í útflutningsmálum okkar Íslendinga eru hagstæðar — og gleymi ég þá að hæstv. sjútvrh. hefur margoft tekið fram, að hann eigi von á að innan skamms fari íslenskur fiskur að hækka í verði á Bandaríkjamarkaði, og hefur fyrir því heimildir sem hann telur öruggar.

Þegar horft er á þetta allt saman: mjög hagstæða verðlagsþróun fyrir íslenskar útflutningsafurðir erlendis og mjög hagstæða þróun á innlendum peningamarkaði vegna þess að vaxtastefnan er farin að skila árangri, þá er niðurstaðan sú, að í fyrsta sinn um langt skeið séu þær ytri aðstæður nú hagstæðar stjórnvöldum sem hingað til hafa verið íslenskum stjórnvöldum óhagstæðar. Þetta lag ætti hæstv. ríkisstj. að geta notað til þess að ná allverulegum árangri í efnahagsmálum, ef hún hefur þá kjark og getu til þess. Hæstv, ríkisstj. hefur sjálf sagt að nú sé hraði verðbólgunnar ekki nema sem samsvarar 35% á ársgrundvelli. Ef hæstv. ríkisstj. nýtir sér nú það lag sem hún hefur vegna hagstæðrar verðlagsþróunar á íslenskum útflutningsafurðum á erlendum mörkuðum, mikilla verðhækkana á þessum afurðum, sem þegar hafa orðið og von um frekari verðlagshækkanir, sem hæstv. sjútvrh., hefur upplýst um, — þegar menn nýta þetta ásamt þeim hagstæðu innri aðstæðum í þjóðfélagi okkar sem koma fram t. d. í sambandi við aukið innlánsfé peningastofnana, þá ætti hæstv. ríkisstj. mætavel að geta náð allverulegum árangri í efnahagsstjórn á þessu ári ef hún hefur vit og vilja til. Hæstv. ríkisstj. getur sem sé ekki í ár kennt um óhagstæðum ytri aðstæðum, heldur hefur hún þvert á móti nú í fyrsta skipti um langt skeið í höndum spil sem ef hún spilar rétt út geta skapað verulegan árangur til hagsbóta fyrir íslenska þjóð.

Eins og fram kemur stend ég að nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. og þeim tillögum sem meiri hl. n. gerir á sérstöku þskj. Auk þess leyfi ég mér, hæstv. forseti, að endurflytja nokkrar brtt. sem þingflokkur Alþfl. mótaði til frv. þessa og fluttar voru við 2. umr. í hv. Ed. Þar var gerð mjög nákvæm grein fyrir þessum brtt. og ég ætla því að leyfa mér að stikla á mjög stóru í frásögnum mínum af þeim.

Hér er um að ræða alls fimm brtt. og er 1. brtt. við 3. gr. frv., þar sem hinir almennu lífeyrissjóðir eru skyldaðir samkv, orðanna hljóðan í greininni til að ráðstafa allt að 40% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á verðtryggðum skuldabréfum frá Byggingarsjóði verkamanna, Byggingarsjóði ríkisins, Framkvæmdasjóði Íslands, ríkissjóði og öðrum fjárfestingarlánasjóðum sem viðurkenndir eru af Seðlabanka Íslands. Ég þarf vart að minna hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, á þau orð sem hann hafði yfir slíka ráðabreytni þáv. ríkisstj. fyrir þremur árum að ætla sér að skylda hina frjálsu lífeyrissjóði í landinu til að verja svo stórum hluta af ráðstöfunarfé sínu til að kaupa verðtryggð skuldabréf af opinberum sjóðum, en það skerðir að sjálfsögðu möguleika viðkomandi lífeyrissjóða til að veita lífeyrissjóðsfélögum, fólkinu sem í lífeyrissjóðina greiðir, fjárhagslega fyrirgreiðslu að einu eða öðru marki. Þá komu þm. Alþb. hér upp hver af öðrum til að lýsa harkalegri andstöðu sinni við slíka eignaupptöku í hinum almennu lífeyrissjóðum, eins og þeir orðuðu það. Mig minnir að hæstv. fjmrh. hafi lýst því þannig um þáv. ríkisstj. að af öllum vitlausum leiðum, sem til boða hafi staðið, hafi þáv. ríkisstj. valið þá sem vitlausust var í þessu sambandi. Nú hefur hæstv. ráðh. sjálfur fetað í þessi fótspor og leggur til að lögskylda lífeyrissjóðina til að nota allt að 40% af ráðstöfunarfé sínu til að kaupa verðtryggð skuldabréf, m. a. af ríkissjóði sem hann stýrir núna sjálfur. Það virðist því ekki skipta öllum sköpum í þessu sambandi fyrir Alþb. hvernig að er farið, heldur hver það er sem situr á ríkiskassanum. Sé það Alþb.-maður er allt í lagi að framkvæma þessa eignaupptöku hjá hinum almennu lífeyrissjóðum. Sé það flokksmaður annars flokks er slíkt hróplegt siðleysi.

Við þm. Alþfl. leggjum til að þessari grein verði breytt þannig að í stað þess, að lífeyrissjóðunum sé gert að skyldu að verja allt að 40% af ráðstöfunarfé sínu til að kaupa verðtryggð skírteini af opinberum sjóðum, sé hinum opinberu sjóðum skylt að hafa til sölu á hinum almenna markaði verðtryggð bréf sem numið geti allt að 40% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna, þannig að lífeyrissjóðunum sé í sjálfsvald sett hvort þeir vilji ávaxta fé sitt með þessu móti. Hafi lífeyrissjóðirnir áhuga á að ávaxta fé sitt með því móti að kaupa bréf af t. d. Byggingarsjóði ríkisins, Byggingarsjóði verkamanna eða ríkissjóði sjálfum séu slík bréf til kaups. Þessum sjóðum er samkv. orðanna hljóðan í brtt. okkar skylt að hafa slík bréf til sölu til lífeyrissjóðanna óski lífeyrissjóðirnir eftir að kaupa slík bréf. Þar með er lagaskyldan færð frá lífeyrissjóðunum, eins og er í frv. hæstv. ráðh., til viðkomandi fjárfestingarlánasjóða, en það hins vegar sett í vald lífeyrissjóðanna hvort þeir vilja ávaxta fé sitt með því móti að kaupa verðtryggð skírteini af opinberum fjárfestingarlánasjóðum og ríkisvaldinu eða hvort þeir vilja fjárfesta með því móti t, d. að veita lífeyrissjóðsfélögum aukna fyrirgreiðslu.

2. brtt. okkar er við 9. gr. í frv., þess efnis, að síðasti málsliður greinarinnar falli niður. 9. gr. fjallar um að til viðbótar útflutningsuppbótum úr ríkissjóði, þ. e. meðgjöf með útfluttum landbúnaðarafurðum af almannafé sem nýtt er til fulls, vantar allverulega upp á að bændur fái tryggt grundvallarverð fyrir þær offramleiðsluafurðir sem flytja þarf út úr landinu og verðábyrgð ríkissjóðs lögum samkv. nægir ekki fyrir. Það er óskóp eðlilegt að menn reyni að hjálpa söluaðilum landbúnaðarafurða í þessu sambandi með því að dreifa á fleiri ár en eitt þeirri byrði að þurfa að flytja út svo mikið af landbúnaðarafurðum umfram það sem fólkið sjálft neytir. Hitt er mjög óeðlilegt, að hafa þann hátt á, sem var hafður á í fyrra og á nú að endurtaka, að verið sé að láta Framleiðsluráð landbúnaðarins taka eitthvert gervilán, sem í sömu grein segir að ríkissjóður eigi síðan að ábyrgjast, ekki aðeins upp í greiðslur á afborgunum, heldur jafnframt upp í greiðslur á vöxtum og öllum kostnaði. Þetta er raunar ekkert annað en linlega dulbúin aðferð til að hækka verðábyrgð ríkissjóðs á útfluttum landbúnaðarafurðum umfram það 10% markmið sem lög hæst leyfa. Þetta er ekkert annað en að verið er að framsenda almenningi reikninginn fyrir aukinni lántöku vegna þessa. Finnst mönnum ekki skjóta nokkuð skökku við þegar íslenskt launafólk er ekki aðeins látið verja milljörðum gkr. af skattfé sínu fyrir s. l. ár til að borga með íslensku lambakjöti ofan í Norðmenn og Færeyinga, heldur er íslenskur almenningur jafnframt látinn taka erlent lán til að borga meira af slíkum niðurgreiðslum fyrir íslenskar afurðir ofan í útlendinga en lög mest leyfa? Þetta er það sem verið er að gera með 9. gr. eins og hún er orðuð nú. Við Alþfl.- menn höfum út af fyrir sig ekkert á móti því, að Framleiðsluráði landbúnaðarins verði auðveldað að taka lán til þess að dreifa á fleiri ár þeirri byrði sem framleiðendur landbúnaðarafurða óhjákvæmilega verða fyrir vegna þess að þeir framleiða miklum mun meira af landbúnaðarafurðum en neysla er fyrir hendi í landinu sjálfu og þarf því að flytja út við miklu lægra verði en þeir þurfa að fá. Við getum stutt að Framleiðsluráði sé heimilt að taka lán til að jafna þessari byrði á framleiðendur landbúnaðarafurða á fleiri ár en eitt, en við getum ekki fellt okkur við að um leið og Framleiðsluráðinu er heimilað að taka slíkt erlent lán skuli vera ákveðið óbeint að skattborgararnir skuli taka að sér að greiða þessi lán til viðbótar þeim útflutningsuppbótum, þeirri niðurgreiðslu til útlendinga sem þetta fólk greiðir lögum samkvæmt.

Þá gerum við í þriðja lagi brtt. við 16. gr., framlög til Byggingarsjóðs ríkisins, um að hækka tölur þar úr 27 millj. í 75 millj. og úr 43 millj. í 90 millj. þannig að annað af launaskattstigunum renni í ríkissjóð, hitt fari í Byggingarsjóð verkamanna og jafnhátt framlag komi úr ríkissjóði á móti.

4. brtt. okkar er við 25. gr., en þar er farið út á þá braut sem m. a. Verslunarráð Íslands hefur harðlega gagnrýnt í fjármálabúskap núv. hæstv. ríkisstj., að þegar hæstv. ríkisstj. setur saman fjárlagafrv. sitt er ekki nema hluti af almennum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs þar færður á rekstrarreikning til þess að í orði kveðnu náist nokkurt jafnvægi í ríkisbúskapnum. Hæstv. ríkisstj. leikur þann leik að hún tekur hluta af almennum rekstrarútgjöldum ríkisins og aflar sér fjár til þeirra með erlendri lántöku. Með þeim hætti færast viðkomandi útgjöld ekki á rekstrarreikning ríkissjóðs og koma þar ekki fram, heldur koma fram sem breyting á lánahreyfingum. Þannig er ákveðnum rekstrarþætti ríkissjóðs breytt í lánahreyfingar og með því móti leikinn sá leikur, að rekstrarreikningurinn er sýndur hagstæður vegna þess að hluti af útgjöldunum er falinn með nýrri lántöku. Þetta er gert í 25. gr. frv. hæstv. ríkisstj. þar sem verið er að heimila fjmrh. að taka lán á árinu 1981 til að greiða skammtímaskuldir og vanskilaskuldir sem hæstv. ríkisstj. stofnaði til á árinu 1980 við Seðlabanka Íslands vegna ýmissa framkvæmda sem hæstv. ríkisstj. réðst í, en hafði ekki peninga til þess að kosta. Þessum framkvæmdum má skipta í tvennt: annars vegar eru það framkvæmdir vegna lagningar byggðalína sem námu um það bil 5 milljörðum gkr., hins vegar aðrar framkvæmdir af ýmsum toga sem námu 25 milljörðum gkr. Okkur Alþfl.-mönnum finnst ekkert óeðlilegt að kostnaðinum vegna lagningar byggðalínanna sé mætt með erlendri lántöku, enda er það almenn þumalfingursregla í framkvæmdum okkar fyrir opinbert fé að orkuframkvæmdir eru yfirleitt unnar fyrir erlent lánsfé, en við teljum rétt, að öðrum vanskila- og skammtímaskuldum, sem hæstv. ríkisstj. hefur stofnað til á árinu 1980 vegna framkvæmda sem hún hafði ekki peninga fyrir, verði mætt með lántökum innanlands, og bendum í því sambandi á mjög hagstæða þróun í innlánsfé bankastofnana sem ég benti á áðan, en með því opnast verulegur möguleiki fyrir hæstv. ríkisstj. til að snúa frá erlendri lántöku og stefna að innlendri lántöku sem tvímælalaust fer í þá átt að hefta þenslu í þjóðfélaginu og berjast gegn verðbólgu. Því leggjum við til, að greininni verði breytt þannig að af þessum 30 milljörðum nýkr., sem hæstv. ríkisstj. telur sig þurfa að taka að láni erlendis vegna óreiðuskulda frá síðasta ári, verði henni heimilað að taka erlendis allt að 5 millj. kr. í lán til að greiða kostnað vegna framkvæmda við byggðalinu, ef fyrir 25 millj., sem þá standa eftir, verði séð á innlendum lánamarkaði.

Síðasta till. okkar er varðandi 27. gr., en þar kennir alveg nýrra búskaparhátta hjá hæstv. ríkisstj. sem ég man ekki til að hafa séð áður í lánsfjárlögum. Um nokkurra ára skeið — ég man nú ekki hversu langt er síðan það kom inn — hefur hæstv. fjmrh. verið heimilað að breyta erlendum lánum, sem kunna að hafa verið tekin til skamms tíma, í langtímalán sem eru í öllum tilvikum hagstæðari en skammtímalán. Þessa almennu heimild þarf hæstv. fjmrh. jafnan að hafa á hverjum tíma til að geta breytt, þegar færi gefst, óhagkvæmum skammtímalánum erlendis í hagkvæm langtímalán. Er ekkert við því að segja þó að slík heimild verði veitt aftur. En það, sem gerist til viðbótar og er nýtt í þessari grein og er dæmi um þann ríkisbúskap sem ég var að lýsa áðan, þar sem með leik er verið að færa hluta af almennum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs yfir í lánahreyfingar, er að í lok greinarinnar er hæstv. ráðh. veitt heimild til að taka erlent lán til að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum sem á sínum tíma voru tekin vegna Kröfluvirkjunar. Ég held að gert sé ráð fyrir að hæstv. fjmrh. taki með þessum hætti milli 6 og 7 milljarða gkr. að láni erlendis til að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum sem tekin voru á sínum tíma vegna Kröfluvirkjunar sem átti að skila öllum landsmönnum birtu og yl, eins og menn muna, en skilar nú engu öðru en óborguðum reikningum. Með þessu móti er að sjálfsögðu verið að færa mjög hefðbundin rekstrarútgjöld ríkisins, afborganir og vexti af lánum vegna framkvæmda, út úr rekstrarreikningi ríkissjóðs og yfir á lánahreyfingar og þar munar nú um minna en milli 6 og 7 milljarða gkr. Ef rétt væri með þessa fjárhæð farið í sambandi við uppsetningu fjárlagafrv. og fjárlaga er ég hræddur um að það hallaðist heldur betur á Brúnku, þá er ég hræddur um að það væri aldeilis slagsíða á ríkissjóði. En hæstv. fjmrh. leikur sér sem sagt að því að velja nokkur stór almenn rekstrarútgjaldaverkefni, afla fjár til þeirra með lántöku og breyta þeim þannig úr almennum rekstrarútgjöldum í lánahreyfingar. Hann kemur síðan með rekstrarreikning, sem þannig er útbúinn, og segir: Sjáið þið, hvaða árangri ég hef náð í því að láta tekjur og gjöld mætast. — Þetta er eins og ég segi algert nýmæli varðandi afgreiðslu lánsfjárlaga — nýmæli sem er ekki eftirbreytni vert. Víð Alþfl.-menn leggjum til að þessi síðasta klausa í 27. gr. frv., um að heimila hæstv. fjmrh. að taka erlend lán til að borga vexti og afborganir af öðrum erlendum lánum vegna Kröflu, verði felld niður.

Herra forseti. Það, sem mestan spenning vekur nú sjálfsagt vegna þessarar umr., er till. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur varðandi flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Eins og fram var tekið er það Framsfl. sem má segja að hafi haft frumkvæði um það mál alveg frá upphafi. Það var þáv. utanrrh. Framsfl., þáv. varaformaður Framsfl., Einar Ágústsson, sem mig minnir 22. okt. árið 1974 skrifaði undir samkomulag við ríkisstj. Bandaríkjanna í nafni þáv. ríkisstj. Íslands um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og kostnaðarskipti milli Bandaríkjamanna og Íslendinga vegna slíkrar byggingar. Samningarnir voru á þá lund, að Bandaríkjamenn skyldu greiða allan kostnað við eldsneytisleiðslur vegna hinnar nýju byggingar, allan kostnað við flughlöð og aðstöðu fyrir flugvélar og akbraut að hinni nýju byggingu. Kostnaði hins vegar við bygginguna sjálfa og við gerð bifreiðastæða við bygginguna skyldi skipt á milli aðila eftir nánara samkomulagi. Það var varaformaður Framsfl., hæstv. þáv. utanrrh., Einar Ágústsson, sem hafði frumkvæði um að þetta samkomulag var gert. Framsfl. var þannig höfundur málsins og það hefur lent í höndum Framsfl. að fylgja því fram síðan. Hæstv. utanrrh. hefur í samræmi við þessa afstöðu flokksins, sem síðast var ítrekuð á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. fyrir röskri viku, fylgt málinu eftir í þessum anda og lokið öllum undirbúningi málsins. Teikningavinnu er allri lokið og teikningar liggja nú fyrir margendurskoðaðar og yfirfarnar í þeim tilgangi að reyna að draga sem mest úr kostnaði við bygginguna. Þá eru útboðsgögn einnig öll til að öðru leyti en því, að ólokið er ákveðinni lögfræðilegri vinnu við einn kafla útboðsgagnanna, sem deildarstjóri varnarmáladeildar og formaður byggingarnefndar flugstöðvar áætla að taki 2–5 daga að ljúka við. M. ö. o.: málið er tilbúið til ákvarðanatöku og það eru ekki nema 2–5 dagar eftir, ef ákvörðun verður tekin, þangað til hægt er að fara að semja útboðslýsingu. Að sögn formanns byggingarnefndar munu þá líða frá 4 og upp í 6 mánuði þangað til hægt er að hefja samninga og ganga frá þeim við væntanlega verktaka þannig að framkvæmdir geti hafist.

Það er skoðun utanrrh. og hans ráðuneytis, að nú sé tímabært að taka ákvörðun í þessu máli og ákveða hvort Íslendingar ætli að láta verða af þessari framkvæmd eða ekki. Bandaríkjamenn hafa þegar samþykkt í fjárlögum framlag allt að 20 millj. dollara til þessarar byggingar. Sú afgreiðsla tekur gildi í októberbyrjun 1981, en fellur úr gildi í októberbyrjun 1982 verði framkvæmdir ekki hafnar fyrir þann tíma. M. ö. o.: frá því að ákvörðun um framkvæmdirnar er tekin og þangað til framkvæmdir geta hafist líða a. m. k. 6 mánuðir, sennilega lengri tími. Tíminn er m. ö. o. nú þegar að hlaupa frá okkur, og það er ótvíræð skoðun bæði hæstv. utanrrh. og rn. hans að tíminn til að taka ákvörðun í málinu sé nú. Að bera það fyrir sig að undirbúningi sé ekki lokið og því verði að fresta ákvarðanatöku vegna þess að eftir er að vinna 2–5 daga lögfræðilegt starf við einn kafla útboðsgerðarinnar er auðvitað algerlega út í hött. Ef menn efast um það væri nærtækast að spyrja þann mann sem veit gerst um það, en það er auðvitað hæstv. utanrrh. sjálfur.

Við 1. umr. málsins komu fram ýmsar ábendingar frá hv. þm. Albert Guðmundssyni sem tillit hefur verið tekið til við gerð þeirrar till. um byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli sem hér hefur verið lögð fram, enda er till. lögð fram af meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Vitað er þegar að þrír flokkar af fjórum eru fylgjandi þessu máli og flokkur utanrrh., Framsfl., hefur allar götur frá því 22. okt. 1974 haft frumkvæði í málinu og séð málinu farborða í ríkisstj. Nú telur sá maður, sem fer með málið af hendi flokksins í ríkisstj., rétt og tímabært að taka ákvörðun og eftir því megi ekki bíða. Þar sem þessir flokkar þrír hafa 49 af 60 þingsætum hér á Alþingi ættu ekki að vera mikil vandkvæði á því að taka þá ákvörðun sem hér um ræðir. En þetta eru að vísu aðeins 49 þm. af 60, 11 eru eftir. Þessir 11 eru andvígir byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli og þeir halda því stíft og stöðugt fram, að þegar ágreiningur sé um slíkt mál milli 49 þm. annars vegar og 11 þm: hins vegar séu þessir 11 þingmeirihluti vegna þess að þeir séu í Alþb. Hér á Alþingi eru menn sem sé ekki aðeins jafnir. Hér á Alþingi eiga menn samkv. skoðun Alþb. að vera misjafnlega mikið jafnir. Hér á Alþingi eiga samkv. skoðun Alþb. 11 þm. að vera meiri hluti, en 49 þm. að vera minni hl. Þetta kalla þeir lýðræði. Þetta kalla þeir að starfa í anda stjórnarsáttmálans, að 11 þm. geti beygt 49 þm. undir vilja sinn. En það eru ekki 49 þm. sem Alþb. getur beygt undir vilja sinn í þessu sambandi. Þeir þm., sem Alþb. hyggst beygja undir vilja sinn, eru hvorki þm. Alþfl.þm. Sjálfstfl., heldur þm. Framsfl., flokksbræður hæstv. utanrrh. Þá er eftir að sjá, herra forseti, hvort í afgreiðslunum, sem verða hér á eftir, megi sín meira forsaga Framsfl. í málinu, samþykkt miðstjórnar, aðgerðir fyrrv. formanns, Ólafs Jóhannessonar, og afstaða hans hér á þingi, aðgerðir fyrrv. utanrrh. og varaformanns, Einars Ágústssonar, sem átti frumkvæði að þessu máli, — hvort þessi atriði megi sín meira í huga framsóknarmanna eða frekja hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og hans fylginauta.