13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3658 í B-deild Alþingistíðinda. (3742)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það eru einkum tvö efnisatriði sem ég vil ræða hér, — efnisatriði sem snerta afgreiðslu þess frv. til lánsfjárlaga sem hér er til umr. og ég vil minna á að bíða úrlausnar, en hafa ekki komist inn í frv. sjálft eins og það liggur hér fyrir.

Ég hef um nokkurt skeið verið í sambandi við framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga sem hefur haft það verkefni að safna saman upplýsingum um það tjón, sem orðið hefur á mannvirkjum, eftir fárviðrið sem geisaði yfir vestanvert landið í vetur. Því miður eru ekki komin gögn úr öllum umdæmum landsins sem tjónamats er að vænta frá, en það er þó farið að sjá nokkuð fyrir endann á þessu. Það er búið að sjá að nokkrir einstaklingar hafa orðið fyrir mjög stórfelldu tjóni sem útilokað er að þeir fái borið án hjálpar í einhverri mynd. Mér skilst á þeim fréttum, sem ég hef frá framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, að enn vanti upplýsingar um það tjón sem hefur orðið hér í höfuðborginni. Úr Mosfellshreppi hefur komið mat og er tjón þar nokkuð mikið, eins og vænta mátti, þar sem gróðurhúsabyggingar fóru mjög illa og sá gróður, sem kominn var af stað, ónýttist sums staðar, þó ekki alls staðar.

Ég vil minna á að þegar þetta frv. var til umfjöllunar í Ed. lögðu sjálfstæðismenn í deildinni fram brtt. sem var við það miðuð, að fjmrh. væri heimilt að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs til að veita Bjargráðasjóði fjármagn til ráðstöfunar til að bæta það tjón að meira eða minna leyti sem menn hafa orðið fyrir. Þar var tilnefnd upphæðin allt að 30 millj. kr. Ég er ekki enn þá búinn að átta mig fyllilega á því, hvað þessi tala er raunhæf, en allar líkur benda til þess, að lánsfjárheimild þurfi ekki að ná þessari upphæð.

Í viðræðum við menn hingað og þangað að af þessum landshluta, sem verst hefur orðið úti, hef ég þráfaldlega verið spurður að því, hverjar líkur væru á að menn fengju bætur frá ríkissjóði. Ég hef því miður ekki getað bent á hvað ríkisstj. ætlaðist fyrir í þessu efni. Ég held að það fari ekki milli mála, að það er uggur í brjósti hjá þeim, sem verst hafa orðið úti, á meðan ekki hillir neitt undir með hverjum hætti komið verður til móts við þessar bráðu þarfir. Sem betur fer er tjónið ekki almennt stórvægilegt, en það eru þó mikið hjá ýmsum einstaklingum og hjá nokkrum einstaklingum veit ég um mat upp á allt að 20 millj. gkr. á einstakling. Ég hef ákveðið að beita mér fyrir því, að það verði flutt brtt. við frv. við 3. umr. sem gangi í þá átt, eins og lagt var til í Ed., að fjmrh. verði heimilað að taka lán í þessu skyni.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi að ræða þetta frekar. En það er annað mál sem ég vildi hér aðeins koma að og vildi gjarnan fá svör við. Ég hefði óskað eftir að hæstv. forsrh. væri hér viðstaddur. Ég hefði þurft að beina til hans örfáum spurningum og vildi nú gjarnan að forseti kannaði hvort hæstv. forsrh. væri í húsinu og gæti hlustað á þessar spurningar mínar. (Forseti: Það er verið að athuga málið. — Gripið fram í: Forsrh. er farinn úr húsinu.) Jæja.

Herra forseti. Ég mun eigi að síður koma að þessu máli og vænti þess, að hæstv. forsrh. verði bornar þær fsp. sem ég vil leggja fyrir hann hér. Hér er um að ræða málefni sem okkur Sunnlendingum hefur lengi verið hugleikið, byggingu brúar á Ölfusárósa.

Það mun hafa á þeim tíma þegar vinstri stjórnin starfaði hér, á árunum 1978–1979, verið sett inn á vegáætlun að á árunum 1981 og 1982 skyldi verða lagt fram fé til hönnunar brúnni á Ölfusárósa. Ég sé ekki betur en að á Fyrstu tillögum, sem borið hefur fyrir mín augu um endurskoðaða vegáætlun á þessu ári, hafi þessi tala verið færð niður um 5 millj. kr. fyrir árið 1981. Þetta geri ég sérstaklega að umræðuefni við umr. um þetta lánsfjárlagafrv. af því að hæstv. forsrh. sat fyrir svörum á „Beinni línu“ hjá útvarpinu 22. okt. í haust og þá hringdi í hann Sigurjón Bjarnason á Eyrarbakka og spurði eftirfarandi spurninga, með leyfi hæstv, forseta:

„Mig langaði til þess að spyrja þig, Gunnar, að því, hver afstaða þín væri til byggingar brúar á Ölfusá við Óseyrarnes. Nú er svo, að fróðir menn eru farnir að búast við jarðskjálftum á Suðurlandi, en brúin, sem er við Selfoss, stendur á aðalsprungunni. Þess vegna er þetta mikið öryggismál, fyrir utan að þetta er bókstaflega lífsspursmál fyrir þorpin hérna á ströndinni: að fá samgöngur við höfn. Og mig langaði einnig að spyrja í leiðinni: Hafa þeir þm. Suðurlandskjördæmis, sem styðja ríkisstj., ekki notað tækifærið nú, þegar þeir eiga aðild að stjórninni, til þess að þrýsta á þetta mál?“

Hæstv. forsrh. svarar: „Út af fsp. vil ég segja það, að ég er því eindregið fylgjandi að þetta brúarmál við Óseyrarnes verði kannað rækilega og ekki aðeins náttúrlega byggingarkostnaður eða smíðakostnaður, heldur allar hliðar þess máls. — Út af því, sem þú spurðir um þingmennina, þá vil ég taka það fram, að strax eftir stjórnarmyndunina í fyrra lagði Eggert Haukdal sérstaka áherslu á það, að hafist yrði nú verulega handa um það að kanna og undirbúa þetta mál.“

Fyrirspyrjandi, Sigurjón Bjarnason, spyr þá enn fremur: „Og hefur eitthvert nýtt líf komist í málið síðan?“

Hæstv. forsrh. svarar: „Já, já. Málið er á dagskrá og kemur til meðferðar núna í sambandi við fjárlög og sérstaklega lánsfjáráætlun.“

Og Sigurjón Bjarnason segir: „Ég þakka þér kærlega fyrir, Gunnar.“

Það er von að spurt sé þegar svo stórt er talað. Ég dreg ekki í efa að Eggert Haukdal hafi lagt sérstaka áherslu á að hafist yrði nú verulega handa, og ég vildi gjarnan að ég mætti treysta því að svo hafi verið gengið frá þegar lánsfjáráætlun var samin og þegar lögin um lánsfjárlög eru sett fram, að ætlað hafi verið fé til þessara málefna. En af þeim upplýsingum, sem ég hef um þetta efni, get ég því miður ekki séð að svo sé. Þess vegna ber ég fram þá spurningu og vænti þess að ég fái við því svör, annaðhvort við 2. umr. eða þá við 3. umr., hvort það hafi við einhver rök að styðjast að unnið hafi verið af krafti að því að útvega fjármagn til þessara bráðnauðsynlegu framkvæmda, sem eru, eins og fyrirspyrjandi sagði, lífsspursmál fyrir þorpin á suðurströndinni, hvort ríkisstj. hafi unnið að þessu þannig að við megum vænta þess að verulegt fjármagn fáist til þess að koma brúnni áfram.

Herra forseti. Ég hafði ekki uppi þessa umr. til að tefja fyrir máli þessu á nokkurn hátt, en ég tel að ég hafi fjallað um tvö svo veigamikil atriði að það hefði ekki mátt láta þau vera óhreyfð við 2. umr. um lánsfjárlögin. Ég vænti þess fastlega, að þeir ráðh., sem hér eru staddir, beri þessa fsp. mína til hæstv. forsrh. og að hann sjái sér fært að svara því sem hér var spurt um, annaðhvort við þessa umr., eins og ég áðan sagði, eða við annað tækifæri.