13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3660 í B-deild Alþingistíðinda. (3743)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það vakti nokkra athygli að hv. þm. Halldór Ásgrímsson, talsmaður stjórnarsinna í fjh.- og viðskn. Nd., áminnti hæstv. ráðh. mjög ákveðið í örstuttri ræðu sinni hér í deildinni fyrir stundu. Hann aðvaraði ráðh. í hæstv. ríkisstj. að tefja ekki mál þetta, sem hér er til umr., og gaf í skyn að framkoma hæstv. ráðh. hefði oftsinnis orðið til þess að tefja framgang mála sem þeim ætti þó að vera umhugað um að yrðu afgreidd. Það fór ekki á milli mála að hv. þm. átti þarna við orðaskipti hæstv, fjmrh. og hæstv. utanrrh. í Ed., enda hefur formaður þingflokks Framsfl. sent hæstv. ráðh. Alþb. tóninn með þeim hætti sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson áréttaði áðan.

En hvert er í raun og veru efni málsins? Mér skilst að efni málsins sé í raun og veru það, að þeir Alþb.-menn og framsóknarmenn komi sér saman um að Alþb.-menn eigi að þegja þunnu hljóði og megi ekki opna sinn munn, en hins vegar skuli framsóknarmenn vera þá eins og lömb og rétta upp hendurnar alveg eins og Alþb.-menn vilja. Þetta kalla ég tiltölulega góð kaup hjá þeim Alþb. mönnum, að þurfa ekki að gera annað en halda sér saman til þess að fá á gulldiski atkvæði þeirra framsóknarmanna. Og lítilþægir eru nú framsóknarmenn að taka þátt í slíkri kaupmennsku. Það kemur svo á daginn hvort þessi kaup halda sem hér virðast hafa verið gerð, en eru auðvitað fyrir neðan virðingu hv. alþm.

Það hefur orðið nokkur þáttur í umr. um lánsfjárlögin hvort veita skuli heimild eða leggja lántökuskyldu á ríkisstj. til að hefja byrjunarframkvæmdir við flugstöð í Keflavík. Það hefur vakið athygli að hæstv. utanrrh., sem raunar fer fyrst og fremst með málið, byggingu flugstöðvar í Keflavík, hefur einn sinna flokksmanna greitt atkvæði með veitingu slíkrar lántökuheimildar. Er það nú með eindæmum að flokksbræður hans skuli ekki fylgja honum að málum og treysta forsjá hans, sem er kunnugastur þessum málum öllum. Í ljósi þess er bókun þeirra framsóknarmanna lítt sannfærandi, en fyrir þeirra hönd gerði hv. þm. Guðmundur Bjarnason grein fyrir atkvæði framsóknarmanna í Ed. Með leyfi, herra forseti, er bókunin svohljóðandi:

„Miðstjórn Framsfl. hefur samþykkt að byggja skuli nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar hefur komið fram að undirbúningi að byggingunni sé ekki svo langt komið að framkvæmdir geti hafist á þessu ári. Því er ekki ástæða til að auka nú heimildir til lántöku í þessu skyni. Því segi ég nei.“

Nú er alveg ljóst að sá maður, sem veit gleggst og best um hvort unnt er að hefja byggingarframkvæmdir á þessu ári og hvort æskilegt eða nauðsynlegt sé að afla lánsfjárheimildar, er auðvitað hæstv. utanrrh. Ég trúi honum fyrir mitt leyti í þessu falli betur en bókun sem á að veita þeim framsóknarmönnum skjól sem greiddu atkvæði í Ed. eins og Alþb.-menn krefjast.

Þessi afstaða framsóknarmanna, annarra en hæstv. utanrrh., er auðvitað því óskiljanlegri sem þeir voru nýlega komnir af miðstjórnarfundi sínum þar sem svohljóðandi samþykkt var gerð með samhljóða atkvæðum, að því er fréttir herma, með leyfi forseta:

„Aðskilnaður hers og þjóðar, meðan erlendur her er í landinu, er grundvallaratriði í stefnu framsóknarmanna, og bygging nýrrar flugstöðvar er forsenda þeirrar stefnu. Ný flugstöð er auk þess skilyrði bættrar ferðaþjónustu, og núverandi aðstaða er ósamboðin þjóðlegum metnaði. Aðalfundur miðstjórnar 1981 lýsir því eindregnum stuðningi við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.“

Þetta er athyglisverð samþykkt, og ég hygg að flestir hv. þm. geti tekið undir þá samþykkt. Ég tel að flestir hv. þm. séu t. d. fylgjandi aðskilnaði hers og almennrar starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Ég hygg að flestir hv. þm. séu sammála því, að bygging nýrrar flugstöðvar sé forsenda þess, að slíkur aðskilnaður komist í framkvæmd. Og ég er þeirrar skoðunar, að við getum flestir þm. verið sammála um, að ný flugstöð er skilyrði fyrir bættri ferðaþjónustu, og loks að núverandi aðstaða er ósamboðin þjóðlegum metnaði. Hvað er það sem ver þá afstöðu hv. þm. framsóknarmanna að vilja ekki hefjast handa í máli sem þeir undirstrika að er í raun og veru þjóðlegum metnaði nauðsynlegt? Hvernig stendur á því að þeir hopa af hólmi? Það er auðvitað að þeir hafa glæpst á því að skrifa undir málefnasamning stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. þar sem eftirfarandi er sagt, með leyfi forseta:

„Áætlanir um flugstöð á Keflavíkurflugvelli verði endurskoðaðar og ekki ráðist í framkvæmdir við hana nema með samkomulagi allrar ríkisstj.

Um fyrri málsliðinn, um endurskoðun teikninga og áætlana um flugstöð á Keflavíkurflugvelli, er ekki ágreiningur. Þessi endurskoðun hefur farið fram fyrir frumkvæði hæstv. utanrrh. og þeirrar byggingarnefndar sem fjallar um undirbúning þessarar framkvæmdar. Lagðar hafa verið fram teikningar og útboðslýsingar í höfuðdráttum, í utanrmn. m. a., og sömuleiðis hefur fjárlaga- og hagsýslustofnun gert rekstraráætlun varðandi rekstur flugstöðvarinnar eftir að hún kemst upp. Er það meira en hægt er að segja um ýmsar þær framkvæmdir sem veitt er lánsheimild til samkv. þeim lánsfjárlögum sem við fjöllum um nú í deildinni.

Það er og upplýst af hálfu formanns byggingarnefndar, Helga Ágústssyni deildarstjóra í varnarmáladeild utanrrn., að unnt sé með nokkurra daga fyrirvara að auglýsa útboð byggingarframkvæmdanna, en með því að hér sé um mikla framkvæmd að ræða þurfi sennilega um fjóra mánuði til að undirbúa tilboðsgerð. Ef svo fer sem horfir er auðvitað nauðsynlegt að ætla sér rúman tíma til þess áður en framkvæmdir geta hafist. En hitt er ljóst, að framkvæmdir geta hafist eftir að úrvinnslu tilboða lýkur, þ. e. eftir fimm til sex mánuði, eða í haust. Það er skiljanlegt að menn vilji ekki bjóða bygginguna út nema fyrir hendi sé lánsfjárheimild. Það er óneitanlega fremur óvarlegt að hefja útboð á byggingarframkvæmdum nema byrjunarframlög til byggingarframkvæmda séu tryggð. Ef málið dregst úr hömlu að þessu sinni og ekki verður veitt lánsfjárheimild til byrjunarframlaga til flugstöðvarinnar liggur í augum uppi að við stöndum í sömu sporum um þetta leyti næsta ár. Ef allt fer fram sem horfir og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er jafnseint á ferðinni fyrir það ár og fyrir yfirstandandi ár erum við búnir að tefla á tæpasta vaðið og hætta á að verulegar byggingarframkvæmdir séu ekki hafnar fyrir 1. okt. á næsta ári. En til þess að tryggja mótframlag Bandaríkjastjórnar er nauðsynlegt að tryggilega sé frá því gengið að marktækar byggingarframkvæmdir séu þá hafnar. Það er þess vegna svo, að hv. framsóknarmenn tefla í tvísýnu þessari framkvæmd sem þeir telja nauðsynlega til þess að fullnægja þjóðlegum metnaði, — framkvæmd sem þeir telja skilyrði fyrir bættri ferðamannaþjónustu og forsendu fyrir aðgreiningu varnarstarfsemi og almennrar starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Það er skiljanlegt að hæstv. utanrrh. geti ekki fellt sig við slíka málsmeðferð af hálfu flokksbræðra sinna.

En þá kem ég að þætti Alþb.-manna í þessu máli. Þá er e. t. v. fyrst að víkja að því, að það er athyglisvert að þessi framkvæmd, sem er auðvitað íslensk framkvæmd þótt mótframlag hennar komi frá Bandaríkjastjórn, er eina varnarframkvæmdin á Keflavíkurflugvelli sem Alþb. gerir fyrirvara um í stjórnarsáttmálanum. Þeir hafa, ef stjórnarsáttmálinn einn er lesinn, afsalað sér öllum afskiptum af öllum öðrum framkvæmdum í þágu varna og öryggis landsins á Keflavíkurflugvelli eða annars staðar, miðað við stjórnarsáttmálann sjálfan. Þeir velja að gera fyrirvara um þá einu framkvæmd sem eru að öllu leyti í raun íslensk framkvæmd og er fyrst og fremst hagsmunamál í daglegu lífi okkar Íslendinga, auk þess sem ég dreg ekki dul á að þessi framkvæmd er einnig mikilvæg til að styrkja varnir og öryggi landsins og eftirlitsstarfsemi sem fram fer frá Keflavíkurflugvelli. Það er saga til næsta bæjar að við stjórnarmyndunina 1978, þegar Ólafur Jóhannesson myndaði stjórn sína, 1. sept. það ár, var birtur stjórnarsáttmáli sem áskildi þó Alþb. mönnum stöðvunarvald hvað snertir allar meiri háttar varnarframkvæmdir, en það var það lengsta sem þeir gengu þá varðandi andstöðu við varnir landsins og varnarstarfsemi. Þeir hurfu þá í fyrsta skipti frá því að fá inn í stjórnarsáttmálann einshvers konar fyrirheit um endurskoðun á varnarsamningi og einhvers konar yfirlýsingu um brottför varnarliðsins frá Íslandi, þó ekki væri nema í áföngum, eins og var í stjórnarsáttmálanum 1971. Þeir voru þarna, að því er virtist, að hörfa til baka varðandi stefnu sína um að herinn skyldi á brott, en staðnæmdust þó í þessum áskilnaði, að meiri háttar varnarframkvæmdir skyldu þó háðar samþykki allra aðila ríkisstj. Við þetta sat þann stutta tíma sem þessi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar sat eða rúmt ár, frá 1. sept. til októbermánaðar næsta ár, 1979.

Þegar svo stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstj. er gerður töldu menn að Alþb.-menn hefðu algerlega yfirgefið „hugsjónarmál“ sín um brottför varnarliðsins og hefðu látið sér þennan áskilnað um byggingu flugstöðvar einan nægja. En síðan hefur ýmislegt athyglisvert komið fram, eins og upplýst hefur verið hér á þingi og utan þings, m. a. að fyrir hendi er leynisamningur sem samkvæmt orðalagi Svavars Gestssonar er meginforsenda stjórnarinnar — drengskaparsamkomulag, sem er undirritað, um að ef ágreiningsmál komi upp í ríkisstj. hafi hver stjórnaraðili neitunarvald ef hann vill beita því. Hæstv. ráðh. og formaður Alþb., Svavar Gestsson, segir að hér sé um að ræða algerlega afdráttarlaus ákvæði þannig að staða Alþb.-manna í þessum efnum eigi að vera nægilega sterk til að koma í veg fyrir að bandaríska hernum líðist að auka hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli.

Það hefur komið fram að hæstv. utanrrh. var ekki kunnugt um þennan leynisamning. Eftir að hæstv. forsrh. og samgrh. Steingrímur Hermannsson, formaður Framsfl., reyndu að neita tilvist þessa leynisamnings hefur það þó komið fram að hann er fyrir hendi með undirskrift þeirra beggja og hæstv. ráðh. Ragnars Arnalds. Það er sem sagt undirritað samkomulag um að hver stjórnaraðili hafi neitunarvald ef ágreiningsmál komi upp í ríkisstj. ef hann vill beita því. Þá stöndum við frammi fyrir því, að á bak við þing og þjóð hefur verið gert samkomulag um að færa Alþb. neitunarvald um þau mál sem ágreiningur kann að verða um í ríkisstj. Það getur ráðið ferðinni. Það er auðvitað stórhættulegt að slíkur leynisamningur sé gerður. Það er í senn óþingræðislegt og ólýðræðislegt. Alþb. hefur þannig komið sér svo fyrir, að þótt það sé andsnúið einhverju máli getur það setið áfram í ríkisstj. Það er þeirra, sem vilja ná máli fram, að segja sig úr ríkisstj., en ekki hinna, sem eru í andstöðu við málið.

Þetta stöðvunarvald Alþb. hefur raunar komið fram í fleiri málefnum en í varnar- og öryggismálum. Þetta stöðvunarvald Alþb. hefur komið fram í virkjunarmálum og stóriðjumálum. Þetta stöðvunarvald Alþb. hefur komið fram í efnahagsmálum, og e. t. v. er þetta neitunarvald skýringin á úrræðaleysi núv. ríkisstj. og athafnaleysi í öllum málum, ekki síst í efnahagsmálum þar sem allt er dregið á langinn og ekkert gert nema þá í síðustu forvöð, ef þá eitthvað er aðhafst.

Við sjáum dæmin um vinnubrögðin við framlagningu og umr. um þau lánsfjárlög sem við fjöllum um núna. Við munum aðgerðaleysi ríkisstj. allt síðasta ár. Og við sjáum ekki teikn til þess, að aðgerðirnar verði meiri á þessu ári. Árangurinn er a. m. k. sá, að við erum í 50–60% verðbólgu og allir atvinnuvegir okkar hanga í raun og veru á horriminni meðan ekkert er gert til þess að búa í haginn fyrir framtíðina. Það kemur og fram í forsendum þeirra lánsfjárlaga, sem til umr. eru, að á yfirstandandi ári er ekki búist við neinni framleiðsluaukningu og dregið hefur úr aukningu þjóðarframleiðslu nú í tvö til þrjú s. l. ár. Sú lítilvæga aukning, sem hefur átt sér stað, á rætur sínar og skýringu að rekja til þess, að fiskafli hefur stórlega aukist. Þar er skýringu þó að finna á því, að ekki hefur farið verr, vegna þessi að það er munur hvort heildarþorskaflinn er innan við 250 þús. tonn eða eins og á síðasta ári 420–430 þús. tonn í okkar hlut. Það hefði átt að vera unnt að bæta lífskjör þjóðarinnar á þessu tímabili með svo mikla aukningu þorskaflans og raunar fiskaflans að bakhjarli. En ástæðan til þess, að þjóðarframleiðslan hefur aukist svo lítið og aukningin er nú að stöðvast, er auðvitað sú, að hin lamandi, staðnaða hönd ríkisforsjárflokkanna í ríkisstj. hefur lagst á vaxtarbrodd atvinnuveganna, lagst á einkaframtakið, hugvit og dugnað einstaklinganna með sívaxandi ríkisumsvifum — og ekkert er séð fyrir því að hafa fyrirhyggju um virkjun orkulinda okkar í þágu orkufreks iðnaðar og almenns iðnaðar.

Það er einhver mikilvægasta spáin fyrir þetta ár að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann verði svipaður og í fyrra þó að jafnframt sé spáð lækkandi þjóðaframleiðslu á mann um ca. 1% og rýrnun viðskiptakjara um 0.5%. Þjóðarframleiðsla miðað við hvern mann lækkar um 1% þar sem búast má við 1% mannfjölgun. Þjóðartekjurnar lækka því um það bil um 1.5% á mann á sama tíma og reiknað er með óbreyttum ráðstöfunartekjum á mann. Skýringin, sem gefin er á því að farið geti saman um 1.5% lækkun þjóðartekna á mann og óbreyttar ráðstöfunartekjur á mann, er lækkun skatta á almenning sem þessum mismun nemur. Ekki hefur raunar verið sýnt fram á að um raunverulega skattalækkun sé að ræða á yfirstandandi ári, en þessu er þó haldið fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Við skulum kanna betur hvaða aðrar breytingar mundu fylgja slíkri skattalækkun ef hún reyndist rétt.

Það segir sig sjálft að ríkissjóður verður að mæta skattalækkun annaðhvort með því að lækka útgjöld sín eða auka skuldasöfnun. Útgjöldin eru samt sem áður ekki lækkuð, heldur þvert á móti aukin: samneyslan um 2% og opinberar framkvæmdir um 2.8%. Þannig kemur fram að ríkissjóður þarf að auka lántökur sínar bæði til að mæta meintri skattalækkun og útgjaldaaukningu. Það er gert ráð fyrir að viðskiptahalli við útlönd verði svipaður á þessu ári og hann var í fyrra eða 2.3% af þjóðarframleiðslu. Þetta þýðir að enn á að auka erlendar skuldir jafnmikið og átti sér stað á s. l. ári. Ef skattalækkun og útgjaldaaukning hins opinbera kemur jafnvel ekki fram sem enn þá meiri aukning á skuldasöfnun erlendis, hvar eru þá fjármunir fengnir til þess að hækka bæði útgjöld og lækka skatta? Það er hugsanlegt að skýringuna sé að finna í meiri innlendum sparnaði, en það er ekki heldur gert ráð fyrir meiri innlendum sparnaði, heldur að hann minnki um rúmlega 1% af þjóðartekjum eða um 5%. Einhvers staðar hlýtur þessi samdráttur á innlendum sparnaði að koma niður ef rétt reynist, en það er ekki hjá hinu opinbera sem bæði lækkar skatt og eykur útgjöld. Þetta allt kemur að sjálfsögðu niður á atvinnuvegunum. Lánsfé til þeirra minnkar sem svarar bæði aukningu á skuldasöfnun hins opinbera og samdrætti innlends sparnaðar. Afleiðingin verður minni fjárfesting hjá atvinnuvegunum, sem áætlað er að dragist saman um 12.5%, auk samdráttar í íbúðarbyggingum um 3%.

Það, sem hér er að gerast, er að tekið er stórt skref í þá átt að auka raunverulegan halla hins opinbera eða þann hluta heildarútgjalda sem staðið er undir með lántökum.

Þetta gerist þannig fyrst og fremst, að fleiri og fleiri útgjaldaliðum er ýtt yfir á lánsfjáráætlun af fjárlögum. Þannig eru tekin lán til að standa undir útgjöldum í stað þess að skattleggja fyrir þeim eða skera niður ónauðsynlegri útgjöld á móti. Þetta kemur víða fram og gæti ég nefnt ýmis dæmi þess, að um lántökur er að ræða til að sinna þjónustu eða standa undir hallarekstri fyrirtækja sem ekki hefur verið venja að fjármagna með sérstökum lántökum. (Forseti: Á hv. ræðumaður langt eftir af máli sínu nú?) Herra forseti. Já, ég vildi gjarnan geta lokið máli mínu þannig að ekki væri í mikilli tímaþröng. (Forseti: Þá fer ég fram á að hv. þm. geri hlé á ræðu sinni, en ég geri ráð fyrir að fundur í Nd. hefjist á ný eða framhald þessa fundar fljótlega upp úr kl. 6, eftir því hvernig skipast um í Sþ.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var þar kominn í máli mínu að ég benti á þá óheillaþróun hér á landi, að öllum fjáröflunarvandamálum, sem erfitt er að glíma við, sé vísað til lánsfjáráætlunar í stað þess að horfast í augu við þau við fjárlagagerðina sjálfa. Með þessu móti er e. t. v. unnt að ganga frá fjárlögum hallalausum og fjmrh. þvær hendur sínar og segir að allt sé í lagi með fjármálin. Vandinn kemur svo fram í lánsfjáráætlun og er leystur með sívaxandi lántökum og þá ekki síst erlendum lántökum.

Ef við lítum t. d. á þarfir vegna ríkissjóðs, A-hluta fjárlaganna, eiga þær þarfir heima í fjárlögunum, en ekki í lánsfjáráætlun, enda verður ríkissjóður auðvitað að standa undir greiðslu vaxta og afborgana af slíkum lánum. Ég get nefnt sem dæmi þjóðarbókhlöðu, landshafnir, flugmálastjórn og sneiðmyndatæki Landspítalans. Ég get nefnt enn fremur að vegagerðin er að 113 fjármögnuð með lánsfé, 2/3 með mörkuðum tekjustofnum og smávægilegum beinum fjárveitingum. Þetta gerist á sama tíma og ríkissjóður tekur til almennra eyðsluþarfa mestan hluta af tekjum sem til falla af umferðinni í landinu í stað þess að leggja áherslu á að sem mestur hluti þeirra tekna fari í samgöngumál, í vegaframkvæmdir. Ég er ekki með þessu að andmæla því, að til mála komi að afla lánsfjár til vegaframkvæmda, þ. e. lagningar bundins slitlags, vegna þess að slík framkvæmd er mjög arðbær. Eðlilegt væri að Vegasjóður stæði sjálfur undir lánum til þessara þarfa, en ekki ríkissjóður, einmitt með tekjum sem hann hefur af umferðinni.

Í þessu sambandi má sömuleiðis nefna fyrirtæki eins og RARIK, Kröflu og Tryggingastofnun ríkisins. Hér er um að ræða fjármögnun hallarekstrar bæði hjá Kröflu og Tryggingastofnun og fjármögnun algjörlega óarðbærra, þ. e. svokallaðra félagslegra framkvæmda hjá RARIK. Það er ekki unnt að fjármagna slíkt með lántöku nema þá að gera um leið nægilega tryggilegar ráðstafanir til að breyta halla í tekjuafgang þannig að undir lánunum verði unnt að standa.

Það ætti að gegna öðru máli um B-hluta fyrirtæki og teldist ekki óeðlilegt að afla lánsfjár til framkvæmda þeirra svo framarlega sem fjárhagur þeirra og eiginfjárstaða sé eðlileg og reksturinn skili nægilegum afgangi til að standa undir lánunum. Þetta á t. d. alls ekki við Ríkisútvarpið og Póst og síma, eins og málum er nú háttað varðandi gjaldskrárákvarðanir þessara miklu fyrirtækja, eins og fram kom hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn.

Í þessu sambandi vil ég líka nefna það, að farið er fram á lánsheimildir fyrir Siglósíld, Skipaútgerð ríkisins, Jarðvarmaveitur ríkisins og grænfóðurverksmiðjur sem bersýnilega geta ekki staðið undir þessum lánum. Ég vek athygli á þeim miklu lántökuheimildum sem Skipaútgerðinni eru t. d. fengnar. Þarna er um að ræða stórkostlega fjárfestingu sem ég tel að Alþingi sjálft ætti í raun og veru að fjalla um og taka ákvörðun um í stað þess að fela það framkvæmdavaldinu — ráðherra í þessu tilviki eða ríkisstj. Hér er um stefnumörkun að ræða sem ætti að miðast við að úr þessum útgjöldum vegna Skipaútgerðarinnar, hallarekstri Skipaútgerðarinnar og fjármagnskostnaði Skipaútgerðarinnar, verði dregið með því að gera samninga við einkafyrirtæki um þessa þjónustu við landsbyggðina í stað þess, eins og nú háttar, að Skipaútgerðin er í samkeppni við annað opinbert fyrirtæki, eins og útgerð Herjólfs í sambandi við Vestmannaeyjasiglingar, að ég tali nú ekki um að ekkert heildaryfirlit er um hvaða útgjöld af opinberri hálfu þurfa til að koma í sambandi við landflutninga, sjóflutninga og loftflutninga, vöruflutninga með flugvélum. Það þyrfti að gera heildstæðan samanburð á þessu máli öllu áður en lagt er í slíkar fjárveitingar eða veittar heimildir fyrir lántökum, eins og hér er gert varðandi Skipaútgerð ríkisins.

Ég vil svo, herra forseti, vekja athygli á eftirfarandi:

1. Sé litið á fjáröflunina samkvæmt lánsfjáráætluninni hækkar hún um 80% miðað við lánsfjáráætlun 1980 og um 65% miðað við útkomu þeirrar áætlunar. Það er auðvitað eðlilegra að bera saman áætlun við áætlun en bera áætlun saman við útkomu. Hér er því greinilega um mjög mikla aukningu að ræða eða helmingi meiri aukningu, 80%, en nemur þeirri hækkun verðlags sem gengið er út frá, þ. e. 40%. Samanborið við þjóðarframleiðslu gildir það sama þar sem ekki er búist við neinni aukningu hennar að magni til.

2. Gert er ráð fyrir að innlend fjáröflun aukist um 46% eða litlu meira en nemur verðlagshækkun og aukningu þjóðarframleiðslu. Á hinn bóginn verða verulegar breytingar á innbyrðis samsetningu hennar. Þannig er ekki gert ráð fyrir að fjáröflun með útgáfu spariskírteina og innheimtu umfram innlausn þeirra aukist neitt að heita má. Þetta stafar sennilega af tilkomu verðtryggðra innlánsreikninga. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir mjög verulegri aukningu lánsfjáröflunar frá innlánsstofnunum og lífeyrissjóðum. Um slíka aukningu hefur hvorki verið samið við innlánsstofnanir né lífeyrissjóði og er því hér um verulega óvissu að ræða.

3. Aukning opinberrar erlendrar lánsfjáröflunar er mjög mikil, eða 103% samanborið við lánsfjáráætlun ársins 1980 og 81% samanborið við útkomu þess árs. Eðlilegt er að bera þetta saman við verðlagshækkunina sem lögð er til grundvallar, þ. e. um 40%, þar sem engar upplýsingar eru um hvaða gengisskráningu hafi verið miðað við í þessari áætlun.

Herra forseti. Ég skal nú fara að stytta mál mitt. Það væri ástæða til að drepa á fjölmarga aðra þætti, en almennt gefur þetta frv. til lánsfjárlaga svo og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin sjálf ástæðu til að vekja sérstaka athygli á því, að horfur um hagvöxt og viðskiptajöfnuð á næstu árum eru ískyggilegar og nauðsyn ber til að fylgja stefnu er örvi hagvöxt og útflutning. Núverandi ríkisstj. fylgir ekki slíkri stefnu. Stefna núv. ríkisstj. leiðir til stöðnunar eins og reynslan sýnir. Á einhverju hagsælasta ári, er við höfum búið við varðandi fiskafla, er aukning þjóðarframleiðslunnar að stöðvast. Við þurfum að flýta orkuframkvæmdum og skapa grundvöll fyrir orkufrekan iðnað og almennan iðnað hér í landi ef við eigum ekki að horfa fram á skerðingu lífskjaranna í framtíðinni.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að erlendar lántökur eru of miklar og vaxandi. Til erlendra lántaka hefur verið gripið í æ ríkara mæli til að leysa margs konar vanda þar sem heilbrigðara hefði verið að leita annarra leiða. Þessar lántökur hafa orðið peningaleg uppspretta verðbólgunnar síðustu árin ekki hvað síst. Lántökurnar hafa einnig leitt til þess, að skulda- og greiðslubyrði er orðin mjög mikil.

Hér erum við að reisa okkur hurðarás um öxl. Hér erum við að auka byrðarnar sem við þurfum að bera næstu árin með vaxandi hluta útflutningstekna okkar sem fer til afborgana af erlendum lánum og fjármagnskostnaði. Við erum á rangri braut og það er ástæða til að hverfa af þeirri braut — hverfa af þeirri braut sem núv. ríkisstj. hefur illu heilli markað með þessu frv. til lánsfjárlaga og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sinni í tengslum við fjárlög yfirstandandi árs.