13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3667 í B-deild Alþingistíðinda. (3744)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þess gerist ekki þörf af minni hálfu að fjalla mjög ítarlega um lánsfjárlög almennt. Það hef ég áður gert úr þessum ræðustól í Sþ. mjög ítarlega og það hafa samflokksmenn mínir hér í hv. Nd. og eins í Ed. gert tvisvar í ítarlegu máli, sem og er þingheimi kunnugt um þær brtt. sem við jafnaðarmenn flytjum. Það eina, sem nýtt hefur gerst í þessu máli, er að meiri hl. hefur myndast í fjh.- og viðskn. þessarar deildar um brtt. er gerir ráð fyrir að lágmarksupphæð verði veitt til þess að unnt verði að hefjast handa um framkvæmdir um flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli.

Afgreiðsla þessa máls í Ed. hefur óneitanlega vakið nokkra athygli þar sem það gerðist og verður að teljast til einsdæma í þingsögunni að hæstv. utanrrh. stóð þar að afgreiðslu málsins ásamt með stjórnarandstöðu og málið féll þar á jöfnum atkvæðum sem kunnugt er. Það mun vera einsdæmi í jafnmikilvægu máli að utanrrh. í ríkisstj. þurfi að standa að afgreiðslu slíks máls með þeim hætti sem þarna gerðist. Einkum og sér í lagi verður það að teljast til pólitískra tíðinda þegar hlut á að máli maður sem af flestum framsóknarmönnum og reyndar þjóðinni allri er viðurkenndur sem ókrýndur leiðtogi þess stjórnmálaflokks. Það verður einnig að teljast til tíðinda þegar guðfaðir hæstv. ríkisstj., hv. þm. Albert Guðmundsson, tekur af skarið og fylgir eftir ummælum sínum, sem hann viðhafði þegar þetta mál var lítillega á dagskrá utan dagskrár, þar sem hann komst að orði á þá leið, að það væri að sjálfsögðu óviðunandi fyrir þingheim að una því að lítill minnihlutahópur, 11 þm. af 60, ætti að hafa stöðvunar- eða neitunarvald í þessu máli. Hv. þm. lýsti yfir að hann óskaði eftir því, að meiri hl. þings léti í ljós vilja sinn afdráttarlaust, og að hann vildi stuðla að því að svo gæti orðið.

Nú hafa þau tíðindi orðið, að hér liggur fyrir til afgreiðslu brtt. við lánsfjárlög þar sem meiri hl. fjh.- og viðskn. mælir með því, að þetta mál nái fram að ganga. Nú skyldi maður ætla að það væri einfalt mál. Í raun og veru er vitað að fyrir þessu máli er þingmeirihluti, ef nokkuð má marka ummæli manna, yfirlýsingar og afstöðu stjórnmálaflokka. Sérstaklega hljóta menn að beina hér athyglinni að afstöðu Framsfl., þar sem heita má að allt frá því að þetta mál raunverulega komst á dagskrá árið 1971 hafi það verið mál framsóknarmanna fyrst og fremst. Það er rétt að rifja það upp, að utanríkismál hafa lengst af á liðnum áratug verið í höndum framsóknarmanna. Þannig fór Einar Ágústsson, þáv. hv. þm. og varaformaður Framsfl., með þessi mál í ríkisstj. árið 1971–1974 og einnig á stjórnartímabili ríkisstjórnar sem sat 1974–1978, og nú er enn svo komið, frá og með 8. febr. árið 1980, að það eru framsóknarmenn sem fara með þessi mál.

Nú er það fljótsagt að bygging nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli ætti út af fyrir sig ekki að vera pólitískt deilumál sem slík. Það er enginn ágreiningur uppi um að núverandi flugstöðvarbygging gegnir engan veginn því hlutverki sem af henni verður að krefjast. Um það þarf út af fyrir sig ekki að deila. Þetta er bygging reist árið 1948. Þá þegar, þegar hún er byggð, var ráð fyrir því gert, að hún entist kannske í 20 ár. Fyrir liggur að hún er yfir þeirri stærð timburhúsa sem leyfð er samkvæmt almennum reglum um brunavarnir. Enn fremur er vitað að landrými við hana er takmarkað og bifreiðastæði og flugvélastæði orðin of lítil. Þetta þýðir líka að vegna þess að ástand byggingarinnar er lélegt hefur orðið á undanförnum árum að verja mjög háum fjárhæðum til viðhalds og má búast við að þær upphæðir fari hækkandi á næstu árum. Allt veldur þetta því, að ný flugstöðvarbygging hefur lengi verið á dagskrá. Við þetta bætist að núverandi flugstöðvarbygging er á miðju athafnasvæði varnarliðsins, en það hefur verið stefnumark flestra stjórnmálaflokka og að því er menn best vita ágreiningslaust að til þess beri brýna nauðsyn að aðskilja hernaðarumsvif og almenna farþegaumferð á Keflavíkurflugvelli.

Upphaf þessa máls er að árið 1970 er skipuð nefnd af þáv. utanrrh. til að vinna að lausn á þessu máli. Án þess að fara ítarlega út í að rekja þá sögu skal þess aðeins getið, að árið 1972, í utanríkisráðherratíð framsóknarmanna, lauk frönsk arkitektastofa verki við hönnun á fyrstu gerð þeirrar flugstöðvarbyggingar sem um var að ræða. Þar var að vísu gert ráð fyrir spám um heildarflugumferð á Keflavíkurflugvelli sem sýnilegt er að endurskoðunar þyrftu við, enda hefur ekki á það skort að þær hafi verið endurskoðaðar. Árið 1974 gerist það, að danskri teiknistofu, sem talin var þá hafa mesta reynslu við byggingu flugvallarmannvirkja á Norðurlöndum, var falið þetta verkefni til umfjöllunar. Hún skilaði haustið 1974 mjög ítarlegu verki og miklu. Því næst var embætti Húsameistara ríkisins árið 1975 falið að láta utanrrn. í té umsögn um helstu atriði í þeirri áætlun og voru þá til kvaddir ýmsir sérfróðir menn aðrir hér innanlands. Árið 1975 skilaði húsameistaraembættið ítarlegri skýrslu með tillögum um skipan framkvæmda og var við það miðað í þeim tillögum að stöðin yrði tilbúin árið 1979.

Árið 1974 verða vissulega þáttaskil í þessu máli. Þá hófust, skömmu eftir stjórnarskipti, viðræður í Washington um endurskoðun varnarsamningsins. Þá beindist athyglin að aðskilnaði hernaðarumsvifa og almennra umsvifa á Keflavíkurflugvelli, sem þá var og er enn eitt helsta stefnumark framsóknarmanna. Í samkomulagi við Bandaríkin frá árinu 1974, þar sem þáttaskil urðu í þessu máli, segir svo í fskj., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Bandaríkjanna mun leitast við að finna leiðir til þess að vinna að því í samvinnu við íslensku ríkisstjórnina að skilja að svæði þau þar sem rekstur farþegaflugs og starfsemi varnarliðs fer fram. Ríkisstjórn Bandaríkjanna mun taka þátt í byggingu nýrrar farþega flugstöðvar eftir því sem fjárveitingar heimila og varnarliðsrekstur krefst.“

Í þessu sambandi var rætt um að Bandaríkin kostuðu lagningu aðkeyrslubrautar fyrir flugvélar, byggingu flugvélastæða, lagningu vega, þar með talinn nýr bílvegur, svo og endurnýjun á kerfi því sem flytur eldsneyti að flugvélum. Ég endurtek: Þetta samkomulag er gert árið 1974. Það er fyrsta samkomulagið þar sem málið er raunverulega leyst og þar sem spurningunni um þátttöku Bandaríkjamanna við byggingu flugstöðvarinnar er svarað. Þó skal það tekið fram, að í þessu samkomulagi var ekki raunverulega tekin ákvörðun um þátttöku Bandaríkjamanna í byggingu flugstöðvarinnar, þ. e. þeirrar byggingar sjálfrar. Það samkomulag eða tillögur um það komu síðar.

Það gerist árið 1977, að ríkisstj., þá undir forustu framsóknarmanna enn í utanríkismálum, fól þáv. utanrrh. og varaformanni Framsfl., Einari Ágústssyni, að leita eftir því, að Bandaríkjamenn greiddu að mestu kostnað vegna aðskilnaðarins. Fyrstu svör voru á þá leið, að undirtektir voru tregar, en hins vegar var niðurstaða málsins sú haustið 1977, að loknum viðræðum í Washington, að öðru máli gegndi ef byggingin yrði jafnframt til taks sem sjúkrahús og í almannavarnaskyni ef til þyrfti að taka á hættutímum á Keflavíkurflugvelli. Um þetta segir í skýrslu hæstv. fyrrv. utanrrh., Benedikts Gröndals, sem birt var Alþingi í okt. 1979: Þessa hugmynd bar þáv. utanrrh., Einar Ágústsson, undir þáv. ríkisstj., — ríkisstj. hæstv. þáv. forsrh. Geirs Hallgrímssonar, — en í henni áttu sæti m. a. hæstv. núv. utanrrh. og hæstv. núv. forsrh. og var á hana fallist. Eftir nánari umfjöllun tilkynnti sendiherra Bandaríkjamanna í Reykjavík utanrrh. að Bandaríkin væru reiðubúin að taka þátt í fjármögnun byggingarinnar á þessum forsendum.

Það eina, sem gerst hefur nýtt í þessu máli síðan, er það, að nefnd embættismanna hefur fjallað um þetta nánar og komist að sameiginlegri niðurstöðu um tillögugerð að því er varðar kostnaðarskiptinguna. Það gerðist sumarið 1979. Þetta er miðað við hönnun byggingar þar sem gert er ráð fyrir 30% minnkun flugstöðvarbyggingarinnar frá dönsku teikningunum frá 1974, en þó þannig að gert er ráð fyrir stækkunarmöguleikum. Bandarískt fyrirtæki var ráðið til að gera forhönnun á þessum forsendum og það lagði fram tillögur í maí 1979, þrjá kosti, og var einn þeirra valinn. Var þá miðað við að framkvæmdir gætu hafist árið 1981 og þeim yrði lokið árið 1983. Það er því ljóst, þegar stiklað er á stóru um aðdraganda þessa máls, að undirbúningi er lokið og það stendur ekki lengur á neinu öðru en samþykki ríkisstj. og þá samþykki meiri hl. Alþingis ef eftir því er leitað.

Það þarf ekki að rifja það upp í löngu máli fyrir hv. þm., að þegar brtt. var flutt við fjárlagaafgreiðslu af þm. Alþfl. og Sjálfstfl. voru gefin mjög ákveðin svör af hæstv. viðskrh., sem þá gegndi starfi utanrrh., um málið. Þau svör voru að eiginlega var farið fram á að stjórnarandstöðuþm. drægju þessar tillögur til baka á þeirri forsendu að þetta mál kæmi aftur til kasta þingsins við afgreiðslu lánsfjáráætlunar.

Þá erum við komin að því sem öllum er í fersku minni. Það hefur því næst gerst að hæstv. utanrrh. hefur staðið við þá yfirlýsingu sem hann þá gaf þess efnis, að á það yrði látið reyna við afgreiðslu lánsfjáráætlunar og þá í Ed., hvort Alþingi væri reiðubúið að reka endahnútinn á þetta mál með því að veita af sinni hálfu þessa heimild.

Þá gerist það undur að þingflokkur Framsfl., sem þá var reyndar nýkominn af miðstjórnarfundi flokksins, nýbúinn að gera stefnumarkandi ályktun rétt einu sinni í þessu máli, kemur á þingdeildarfund Ed. til þess eins að snúa baki við sínum ókrýnda leiðtoga, snúa baki við margyfirlýstri stefnu sinni, snúa baki við öllum undirbúningi þessa máls, sem alla tíð hefur verið undir málefnalegri forustu framsóknarmanna, á þeirri forsendu, að því er manni skilst, að málið sé ekki tímabært, að það sé ekki tímabært að taka ákvörðun um málið. Ályktun miðstjórnar Framsfl. er svo ótvíræð í þessu máli að það er ástæða til að kynna hana enn fyrir þingheimi jafnvel þótt það hafi verið gert áður. Hún hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðskilnaður hers og þjóðar, meðan erlendur her er í landinu, er grundvallaratriði í stefnu framsóknarmanna, og bygging nýrrar flugstöðvar er forsenda þeirrar stefnu. Ný flugstöð er auk þess skilyrði bættrar ferðamannaþjónustu, og núverandi aðstaða er ósamboðin þjóðlegum metnaði. Aðalfundur miðstjórnar árið 1981 lýsir því eindregnum stuðningi við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli.“

Þessi ályktun getur ekki ákveðnari verið. Hún er í fullkomnu samræmi við alla málsmeðferð framsóknarmanna í þessu máli fram að þeim tíma, og það hlýtur að þarfnast einhverrar sérstakrar skýringar, það er meira en lítið annarlegt, að til þess skuli síðan koma að fulltrúar framsóknarmanna í Ed. skuli, þegar þeir eru rétt nýbúnir að rétta upp höndina til samþykkis svo afdráttarlausri yfirlýsingu, snúa baki við henni og greiða atkv. gegn tillögu sem efnislega gengur út á það, að sú stefna, sem þarna er mörkuð, nái fram að ganga. Þeim mun merkilegra er að þegar framsóknarmenn greiddu þannig atkv. gegn nýsamþykktri stefnu sinni í málinu lögðu þeir fram bókun til skýringar sem var efnislega á þá leið, að undirbúningi flugstöðvarbyggingarinnar væri ekki svo langt komið að framkvæmdir gætu hafist á þessu ári og það sé því ekki tímabært að framfylgja stefnu Framsfl. Hér með er gefið í skyn að um leið og undirbúningi málsins yrði eitthvað betur á veg komið, kannske í haust, muni væntanlega ekki standa á hv. þm. Framsfl. að standa við stefnu sína með þm. annarra flokka sem hér eru raunverulega á einu máli að því er varðar afgreiðslu málsins. En nú verður að gera aths. og hún er sú, að það var upplýst áður en þessi málamyndafyrirvari var gefinn og hefur því næst komið fram í blöðum, t. d. í viðræðum við fulltrúa varnarmáladeildar utanrrn., Helga Ágústsson, í Vísi s. l. mánudag, að þessar forsendur fyrir því, að málið sé ekki tímabært, eru efnislega rangar. Það mál stendur ósköp einfaldlega þannig að innan fáeinna daga mætti auglýsa þetta verk til útboðs, og því næst liggur fyrir að það mundi taka 4–5 mánuði að vinna úr tilboðsgögnum og koma málinu raunverulega á framkvæmdastig. Ef fresta á þessu máli til hausts vegna þess að það teljist ekki tímabært eru menn í raun og veru að segja að undirbúningstímann, þ. e. sem fer í að auglýsa útboð og leita tilboða, vinna úr tilboðum og ganga frá verksamningi, vilji menn draga fram yfir áramót.

Nú vita menn að forsenda þess, að þetta mál standist, þar sem um er að ræða samvinnu tveggja þjóða, er einfaldlega sú, að á fjárhagsárinu 1982 þarf að liggja fyrir skuldbinding um þátttöku og fjárveitingu og framkvæmdir helst að vera hafnar, einfaldlega vegna þess að ella er málið úr sögunni, hin bandaríska fjárveiting hefur ekki gildi nema til októbermánaðar 1982. Málið er þess vegna raunverulega þannig, að hinn eðlilegi framgangsmáti væri sá, ef allt væri með felldu, að þetta verk yrði boðið út þannig að seint í haust lægju öll framkvæmdaatriði fyrir, þá lægi verksamningur fyrir, en það er alkunna, og þarf ekki að hafa um það mörg orð hér á þingi, að ef ætlunin væri að leita eftir fjárveitingu á lánsfjárlögum höfum við næga reynslu fyrir því, að hún var ekki lögð fram fyrr en í endaðan marsmánuð á þessu ári fyrir yfirstandandi ár og gæti svo hæglega farið enn. Maður hlýtur þess vegna að spyrja sjálfan sig: Hvers vegna er það, að framsóknarmenn kjósa að haga sér svona? Þeir hafa, eins og ég hef áður rakið með því að stikla á stórum aðdraganda þessa máls, haft alla forgöngu í málinu. Allt frá árinu 1972, í utanrrh.-tíð Einars Ágústssonar, hafa þeir raunverulega að þessu unnið. Í ársbyrjun 1974 gengu þeir frá samkomulaginu um þátttöku Bandaríkjamanna í lausn málsins og sitja nú enn í ríkisstj., þar sem þeir fara með utanríkismál. Það liggur einnig alveg ljóst fyrir, að sá maður úr þeirra hópi, sem valist hefur til þess að fylgja fram þeim málum, fyrrv. formaður flokksins, er fylgjandi málinu.

Nú þarf út af fyrir sig ekki að fara neitt í grafgötur með það, hvers vegna þetta er. Framsóknarmenn eru með þessum athöfnum sínum að lýsa því yfir, að þeir séu ekki sjálfum sér ráðandi í því pólitíska samstarfi sem þeir nú taka þátt. Það vantar ekki að við höfum heyrt yfirlýsingar þeirra framsóknarmanna um að þeir vilji gjarnan vera kjölfestan í íslenskri pólitík, að þeir telji sig stundum vera kjölfestuna í þessu stjórnarsamstarfi og jafnvel burðarásinn, forustuflokkinn. Það fer ekki milli mála hvernig framsóknarmenn hafa hagað málflutningi sínum, bæði fyrir síðustu kosningar og eins í núverandi stjórnarsamstarfi, að þeir séu flokkur sem láti málefnin ráða. Nú er svo komið fyrir þessum flokki að þrátt fyrir að fyrir liggur að flokkurinn hefur einróma samþykkt á miðstjórnarfundi sínum fylgi við mikilvægt stórmál á sviði utanríkismála, hvika þeir allir þegar til kastanna kemur á þingi, eru ýmist fjarverandi með dularfullum hætti eða leita allra bragða til þess að lenda ekki í þeirri aðstöðu að þurfa að standa við stóru orðin. M. ö. o.: það er svo komið fyrir framsóknarmönnum, eftir því sem best verður skilið, að þeir séu að vísu í grundvallaratriðum enn fastir á sinni sannfæringu, þeir vilji fylgja fram sinni stefnu þegar það er tímabært, — en sumir mundu kannske vilja segja sem svo: þegar Alþb., þessum 11 manna minni hluta á þingi, þóknast að segja þeim að það sé tímabært.

Hver er hin pólitíska afleiðing af þessu? Hún er þessi: Ef framsóknarmenn ætla sér á annað borð að standa við allar sínar fyrri yfirlýsingar í þessu máli og ef þeir ætla síðar, þegar það er tímabært, í haust, að standa við bakið á forustumanni sínum í þessu máli, hæstv. núv. utanrrh., þá hafa framsóknarmenn lýst því yfir, að ef þeir ætli að tryggja að þessi fjárveiting falli ekki niður og af byggingu flugstöðvarinnar verði séu seinustu forvöð hjá þeim að standa við stefnu sína í haust. Hinn stjórnarflokkurinn, 11 manna minnihlutahópur Alþb.-manna, hefur að sínu leyti haldið þannig á málinu að það er alveg ótvírætt að þeir munu ekki geta sætt sig við það og telja sig hafa á því algert neitunarvald í ríkisstj. að af þessari flugstöðvarbyggingu verði nokkuð með þeirra þátttöku í ríkisstj.

Mér sýnist m. ö. o. að hér sé verið að lýsa því yfir, að það sé verið að fresta hinu óhjákvæmilega, þ. e. stjórnarslitum út af þessu máli, vegna þess að það sannast í þessu máli eins og í mörgum öðrum, í efnahagsmálum, í atvinnumálum, í orkumálum, í utanríkismálum, að auðvitað geta þessir tveir flokkar ekki starfað saman. Spurningin er sú, hvor á að beygja hinn. Og spurningin er þessi: Hversu lengi ætla framsóknarmenn að beygja sig undir ofríki ellefumenninganna og selja sinn pólitíska frumburðarrétt í hendurnar á mönnum og aðilum sem þeir geta sýnilega samkv. langri og biturri reynslu ekki starfað með? Þegar sú stund rennur upp í haust skyldi maður ætla að það gerist sem á máli eðlisfræðinnar er kallað að hinn ómótstæðilegi kraftur Alþb. bitni endanlega á hinum óbifanlega massa Framsfl., en þá á að gerast það sem segir í eðlisfræðinni að sé eitt herjans mikið bomsaraboms. Mér skilst að afstaðar framsóknarmanna í málinu þýði það, að framsóknarmenn ætli að fresta bomsinu.