13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3673 í B-deild Alþingistíðinda. (3746)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðalástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, er að mæla hér fyrir brtt. sem ég flyt, en áður en ég geri það vil ég lýsa undrun minni á því, hversu margir hv. þm., sem hér hafa talað í dag, virðast furða sig á hversu fljótir hv. þm. Framsfl. eru að skipta um skoðun. Hv. þm. Framsfl. eru einhverjir mestu umskiptingar skoðanalega séð sem um getur. Það kemur a. m. k. ekki mér á óvart þó að þeir hagi sér með þeim hætti sem þeir hafa gert í þessu máli. Þeir hafa gert það áður og það oft. (Gripið fram í: Þú hefur reynsluna.) Ég hef reynsluna, já, og þess vegna tala ég svona. (Gripið fram í: Af að skipta um skoðun?) Nei, ég hef reynsluna af framsóknarþingmönnum. (Forseti: Samtal er bannað á fundinum.) Og það er bitur reynsla sem ég hef af þeim hv. þm. Framsfl. einmitt í þessum tilfellum. Mér kemur því ekki á óvart þó að þeir skipti um skoðun eins og þeir skipta um föt. Ég vil því segja í sambandi við þetta: Auðvitað er búið að beygja þá, eins og hv. síðasta ræðumann, auðvitað er búið að leggjast á þessa menn og beygja þá gersamlega í duftið til þess að greiða atkv. gegn eigin ályktun, gegn eigin sannfæringu, og það ætla þeir allir að gera. Eini hv. þm. Framsfl., sem nú situr á Alþ. og fylgir sinni sannfæringu, fylgir fram flokksstefnunni, er hæstv. utanrrh. og hafi hann lof fyrir. Ekki meira um það. Þetta er öllum landslýð ljóst, enda glotta sumir hv. þm. Alþb. yfir því að geta beygt framsóknarmennina svona í duftið. (Gripið fram í. — Forseti hringir.) Vill ekki hæstv. forseti leyfa þm. að tala? Hann má mín vegna tala eins og hann vill. (Forseti: Einn í einu.)

Á þskj. 653 hef ég leyft mér að flytja brtt. við það frv. til lánsfjárlaga sem hér er til umr. Forsaga þessarar till. er sú, að við afgreiðslu fjárlaga fyrir jól var fjvn. búin að ganga frá tillögu til fjárveitinga til styrktar skipaiðnaði og búin að leggja fram þskj. með 40 millj. gkr. hærri upphæð en endanlega var afgreidd í fjárlögum. Þetta þskj. var dregið til baka og breytt hugmynd fjvn. og samþykkt sem hún var búin að ganga frá, upphæðin lækkuð um 40 millj. gkr. og fleiri staðir teknir inn. Ég hafði loforð hæstv. samgrh., sem þessi mál heyra undir, að vísu munnlegt, en vil treysta því, fyrir því að þessar 40 millj. gkr., sem voru dregnar frá fjárveitingu til skipaiðnaðar eftir að fjvn. hafði ályktað, yrði teknar inn í lánsfjárlög við afgreiðslu þeirra. Ég lít því svo á að hér hljóti að hafa orðið mistök og menn hafi ekki ætlað að skilja þetta eftir. Ég vil í lengstu lög treysta því og trúa að hæstv. ráðh. standi við gefna yfirlýsingu, þó munnlega hafi verið. Ég vil minna á, dragi menn það í efa, að ég gerði þetta að umræðuefni við afgreiðslu fjárlaga 19. des. s. l. í þingræðu þar sem ég vísaði til loforðs hæstv. samgrh. um málið. Ég tel ófært annað en að við það loforð verði staðið og inn í lánsfjárlög verði tekin 400 þús. kr. heimild til handa ríkisstj. til að standa við það gefna loforð, og um það er tillagan. Hún hljóðar svo:

„Á eftir 27. gr. komi ný grein sem verði 28. gr. og orðist svo:

Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán að upphæð 400 þús. kr. sem verja skal til skipaiðnaðarverkefna. Fjárhæðin skiptist þannig:

Til Akraness

100 þús. kr.

Til Stykkishólms

20 þús. kr.

Til Ísafjarðar

80 þús. kr.

Til Vestmannaeyja

150 þús. kr.

Til Garðabæjar

50 þús. kr.

Samt. 400 þús. kr.

Samtals vantar 400 þús. á að staðið sé við samþykkt fjvn. við fjárlagaafgreiðslu.

Ég vænti þess, að um þetta þurfi ekki að hafa öllu fleiri orð, og treysti því og trúi, að þm. séu mér almennt sammála um að við loforð af þessu tagi beri að standa.