13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3675 í B-deild Alþingistíðinda. (3749)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er út af ummælum hv. 5. þm. Reykn. sem ég kveð mér hljóðs. Það kom mér á óvart að hann skuli halda að það sé um sýndarmennsku að ræða hjá okkur þó við viljum fylgja þessu máli eftir. Er í rauninni óverðugt að tala í þessum anda um flugstöðvarbygginguna, jafnmikla áherslu og utanrrh. ríkisstj., fyrrv. formaður Framsfl., Ólafur Jóhannesson, hefur lagt á þetta mál. Það hefur vakið mikla athygli víða, að í þessum efnum skuli Sjálfstfl. geta betur treyst fyrrv. formanni Framsfl. en varaformanni Sjálfstfl. Sýnir það raunar betur en mörg orð að það er rétt, sem hæstv. forsrh. hefur stundum sagt, að varaformannssæti Sjálfstfl. er autt og bíður eftir því að það verði fyllt.

Hér í þessari hv. deild eru tveir ráðh. sem buðu sig fram fyrir Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar, hæstv. landbrh. og hæstv. dómsmrh. Hæstv. dómsmrh. hefur í hópi sjálfstæðismanna einmitt fjallað sérstaklega um þau mál, er varða vestræna samvinnu, og skilur þess vegna kannske miklu betur en hæstv. forsrh. að á miklu ríður að þessi mál fari skaplega fram. Nú ætla ég ekki að biðja um neinar skýringar frá hæstv. landbrh. á því, hvað ráði hans atkvæði — hef satt að segja ekki áhuga á því — en vildi mega spyrja hæstv. dómsmrh. um hver afstaða hans sé í þessu máli með hliðsjón af þeim mörgu trúnaðarstörfum sem hann hefur gegnt varðandi þessi mál á vegum þingflokks Sjálfstfl. á umliðnum árum.