13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3677 í B-deild Alþingistíðinda. (3751)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður.

Ég vildi aðeins undirstrika og vekja athygli á því sem fram kom í ræðu frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., hv. 1. þm. Vestf., þar sem hann fór með upplýsingar sem fram komu á nefndarfundi í morgun. Þar var deildarstjóri varnarmáladeildar utanrrn. mættur og upplýsti að 6 mánuðir væru frá því að ákveðið væri útboð vegna flugstöðvarbyggingar þar til hægt væri að hefja framkvæmdir. Ef þetta er skoðað með tilliti til þeirrar reynslu, sem við höfum nú af þeim þm. sem segjast vilja standa að byggingu, með tilliti til þeirrar reynslu, sem við höfum af meiri hluta Alþingis við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjáráætlunar, þá skulum við gera okkur grein fyrir því, að það er ekki verið að fresta ákvörðun til næstu áramóta ef núv. ríkisstj. situr þá. Það er verið að fresta ákvörðun fram á næsta vor. Það hvarflar ekki að neinum þm. að lánsfjáráætlun verði þá til afgreiðslu fyrr en nú er og eins og verið hefur. Það er því mikil þversögn í því að koma hér upp og segjast vera samþykkir því, að flugstöðin verði byggð, og greiða atkvæði gegn þeirri till., sem flutt hefur verið, og þar með gera sitt til að fresta afgreiðslu þessa máls — hversu lengi veit enginn.