06.11.1980
Sameinað þing: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

1. mál, fjárlög 1981

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta misskilning. Það hefur aldrei komið til að talað hafi verið um að tengja sveitabæi með um 7 km meðalvegalengd milli bæja. Það hefur aldrei komið til greina. Það hefur alltaf verið talað um upp að 6 km og svo, eins og hæstv. ráðh. talaði um, yrði að gera sérstakar ráðstafanir með þá bæi sem væru með lengri meðalvegalengd en 6 km. Það er ekkert óljóst í þessu máli. Það er eins ljóst og það getur verið. Það þarf engra rannsókna við. Á fundi orkuráðs í fyrradag, sem ég sat, vorum við að ræða þetta. Þar var samþykkt að ítreka þetta og halda sér við þær áætlanir sem hafa verið hjá orkuráði síðan 1975. Hæstv. ráðh. fær áreiðanlega í hendur óskir frá orkuráði, sem samþykktar voru á þessum fundi, um það sama og ég var að ræða um, að lokið yrði tengingu þessara 27 bæja á næsta ári.