13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3685 í B-deild Alþingistíðinda. (3766)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Frsm. 1, minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði áðan að fulltrúar sjómanna hefðu látið þessa verðákvörðun í ljósi 7.5% olíugjaldsins kyrra liggja. Nauðsynlegt er þá að skjalfest verði í umræðum svar Sjómannasambands Íslands eða forseta þess við fyrirspurn minni. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vegna fyrirspurnar þinnar um afstöðu Sjómannasambands Íslands til laga um 71/2% olíugjald til fiskiskipa vill stjórn sambandsins taka fram eftirfarandi:

Á 12. þingi SSÍ var samþykkt af þingheimi að mótmæla harðlega þá fram komnu frv. til l. um 71/2% olíugjald til fiskiskipa.

Í samræmi við ofangreinda samþykkt Sjómannasambandsþings hafa fulltrúar SSÍ bæði í Verðlagsráði svo og á öðrum stöðum, þar sem olíugjaldið hefur verið til umræðu, ítrekað þessi mótmæli.

Þá viljum við taka fram, að þar sem nú liggur fyrir að löggjöf er væntanleg um endurnýjun á þessu gjaldi í tengslum við síðustu fiskverðsákvörðun, þá hefur það í engu breytt fyrri afstöðu okkar, og hefur henni verið komið á framfæri í Verðlagsráði.“

Þetta bréf er dagsett 23. mars s. l. Hér er því skýlaus yfirlýsing um það af hálfu sjómannasamtakanna, forseta Sjómannasambands Íslands, að þau hafi alfarið mótmælt þessu olíugjaldi í tengslum við núverandi fiskverðsákvörðun. Það er því rangt, sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði hér áðan, að fulltrúar sjómanna í Verðlagsráði hafi samþykkt að láta þetta kyrrt liggja. Það er lágmark, a. m. k. þegar menn hafa séð skriflegar yfirlýsingar og staðfestingar, að fara rétt með.

Hæstv. sjútvrh. ræddi um þau loforð sem hann hefði gefið í sambandi við lausn sjómannadeilunnar á Vestfjörðum á s. l. ári. Út af því vil ég víkja að því sem segir, með leyfi forseta, í yfirlýsingu frá stjórn Sjómannafélags Ísfirðinga, það er 3. mgr.:

„Vill stjórnin minna á að við seinustu kjarasamninga gaf núv. sjútvrh., Steingrímur Hermannsson, forsvarsmönnum sjómannasamtakanna á Vestfjörðum skýlausa yfirlýsingu þess efnis, að það væri skoðun hans og stefna að olíugjaldið yrði alfarið fellt úr gildi, og mundi hann vinna að því með öllum tiltækum ráðum að svo yrði sem allra fyrst. Reyndin er sú, að sá hinn sami ráðh. hefur nú þegar beitt sér fyrir hækkun olíugjalds úr 2.5% í 7.5%.“

Þessi skýlausa yfirlýsing hæstv. ráðh. um að beita sér fyrir því að afnema olíugjaldið snerist við á þá leið, að hann beitti sér fyrir hækkun á því úr 2.5% í 7.5%. Er það ekki rétt eða vefengir hæstv. sjútvrh. þau orð stjórnar Sjómannafélags Ísfirðinga sem ég hef nú lesið? Er þetta lygi af þeirra hálfu eða er þetta rétt?

Sé þetta rétt fer hæstv. sjútvrh. þveröfugt að, miðað við þá skýlausu yfirlýsingu sem hann gaf vestfirskum sjómönnum við lausn sjómannadeilunnar á s. l. ári. Menn geta ekki endalaust skotið sér undan því að vera ábyrgir orða sinna. Ég óska eftir því, að hæstv. ráðh. komi hér upp á eftir og segi til um hvort það er rangt hjá stjórn Sjómannafélags Ísfirðinga sem í þessari yfirlýsingu segir eða ekki. Það er ósköp einfalt fyrir hæstv. ráðh. að segja til um það.

Nokkur orð út af því sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði um olíugjaldið og raunar hæstv. sjútvrh. líka. Hæstv. sjútvrh. sagði að Kjartan Jóhannsson, núv. formaður Alþfl., hefði komið þessu á. Sat ekki hæstv. núv. sjútvrh. í ríkisstj. líka þá? Var hann andvígur því? (Sjútrh: Nei.) Einmitt. Það er nefnilega það sem hefur gerst. Hæstv. ráðh. hefur frá upphafi lagt blessun sína yfir þetta gjald. Þó að hann hafi alltaf talað gegn því hefur hann alltaf greitt atkvæði með því og alltaf lagt til að það væri samþykkt. Samt þykist hann í orði kveðnu í ræðum hér á Alþingi vera á móti því. Þetta er nú til að státa af!

Burt séð frá því, hvort núv. form. Alþfl., Kjartan Jóhannsson, gegndi embætti sjútvrh. þegar þetta gjald var sett á. breytir það í engu skoðun minni. Ég er á móti gjaldinu og ég hef aldrei staðið að því að samþykkja það og geri það ekki.