13.04.1981
Neðri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3691 í B-deild Alþingistíðinda. (3782)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta frv. til lánsfjárlaga, sem hér liggur fyrir til 3. umr., gerði ég grein fyrir því, að ég mundi beita mér fyrir að flutt yrði brtt. við frv. sem varðaði bætur vegna foktjóns á s. l. vetri. Ég gerði þetta að umræðuefni fyrir þá sök að ég hef ekki orðið þess var og enginn sem ég hef rætt við, að stjórnvöld hefðu neina tilburði til að útvega fjármagn til þess að bæta tjón þetta né hafi gefið yfirlýsingar um að það stæði til. Ég hef orðið vitni að því, að fjölmargir hafa spurst fyrir um með hverjum hætti þetta mál verði leyst. Ég hef ekki getað leyst úr þeim spurningum manna, sem eru fjölmargar, með öðrum hætti en þeim að benda á að fulltrúar Sjálfstfl. eða þm. Sjálfstfl. í Ed. fluttu á sínum tíma brtt. við þetta frv. sem gekk í þá átt að ríkisstj. yrði heimilað að taka lán til þess að veita Bjargráðasjóði möguleika á að bæta þessi foktjón.

Nú höfum við sameinast um það fjórir alþm., ásamt mér Matthías Bjarnason, Birgir Ísl. Gunnarsson og Jósef H. Þorgeirsson, að flytja brtt. sem er á þskj. 656 og er á þá leið, að ný grein komi inn í frv. sem verði 30. gr. og orðist eins og segir á þskj.:

„Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1981 að fjárhæð allt að 25 millj. kr. og veita Bjargráðasjóði það fjármagn til ráðstöfunar samkv. 8. gr. laga nr. 5111972, um Bjargráðasjóð.“

Ég gat þess við umr. fyrr í dag, að ég hefði ekki þá gert upp hug minn um það, hversu háa fjárhæð ætti að nefna, en gat þess, að ég hefði verið í sambandi við framkvæmdastjóra Bjargráðasjóðs og ráðgast við hann um þetta efni. Það eru að berast upplýsingar um mat á þessu tjóni til Bjargráðasjóðs þessa dagana, en ekki er að vænta að það liggi allt fyrir fyrr en nálægt miðjum þessum mánuði eða öllu heldur eftir páska, en hann hefur tjáð mér að hann teldi að eftir öllum þeim líkum, sem hann gæti dæmt, ætti þessi fjárhæð að vera fyllilega nóg, 25 millj. kr. Hér er gert ráð fyrir að heimildin nái allt að þeirri fjárhæð. Að sjálfsögðu verður ekki nýtt meira í þessu skyni en þörf er á. Þess vegna á að vera áhættulaust að samþykkja þessa till. með þessari fjárveitingu.

Ég sé ekki ástæðu til að skýra þetta mál frekar en ég hef nú gert og læt útrætt um það. En við 2. umr. varpaði ég einnig fram fsp. til hæstv. forsrh., sem að vísu var ekki við í salnum og ekki í húsinu, og ég óskaði eftir að þeir ráðh., sem hér voru þá staddir, flyttu honum þær spurningar sem ég lagði fyrir. Svör hafa ekki borist enn hingað.

Ég ætla samt að endurtaka spurningu mína í von um að úr geti ræst síðar við 3. umr., því að þetta snertir, eins og ég kom að í dag, gerð lánsfjáráætlunar.

Hér er um að ræða spurningu sem er borin fram vegna yfirlýsingar hæstv. forsrh. í „Beinni línu“ í útvarpi 22. okt. í haust, þar sem spurst var fyrir um það af Sigurjóni Bjarnasyni á Eyrarbakka, hvernig gengi með að vinna að því að brúin á Ölfusá við Óseyrarnes yrði byggð. Ég ætla ekki að fara yfir spurningarnar í þetta sinn eða þetta símasamtal allt, en ég vil nefna hér svör forsrh. eins og hann svaraði Sigurjóni. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Út af fsp. vil ég segja það, að ég er því eindregið fylgjandi að þetta brúarmál við Óseyrarnes verði kannað rækilega og ekki aðeins náttúrlega byggingarkostnaður eða smíðakostnaður, heldur allar hliðar þess máls. — Út af því, sem þú spurðir um þingmennina, vil ég taka það fram, að strax eftir stjórnarmyndunina í fyrra lagði Eggert Haukdal sérstaka áherslu á að hafist yrði nú verulega handa um að kanna og undirbúa þetta mál.“

Fyrirspyrjandinn, Sigurjón Bjarnason, svaraði þá: „Og hefur eitthvert nýtt líf komist í málið síðan?“

Þá svaraði hæstv. forsrh.: „Já, já. Málið er á dagskrá og kemur til meðferðar núna í sambandi við fjárlög og sérstaklega lánsfjáráætlun.“

Og Sigurjón Bjarnason segir: „Ég þakka þér kærlega fyrir, Gunnar.“

Ég mundi vilja taka undir með Sigurjóni Bjarnasyni ef ég sæi einhverjar efndir á þessum loforðum. En ég fæ ekki séð, hvorki af vegáætluninni né við skoðun lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga, að gert sé ráð fyrir framkvæmdafjárframlagi í náinni framtíð til byggingar Ölfusárbrúar. Þess vegna spyr ég og ég endurtek það efnislega eins og ég hygg að ég hafi varpað spurningunni fram í dag:

Með hverjum hætti hyggst hæstv. forsrh. eða hæstv. ríkisstj. — ef hann ekki vill svara get ég spurt ríkisstj. — tryggja að framkvæmdafé til byggingar Ölfusárbrúar verði ákveðið, eins og ummæli hans á „Beinni línu“ í útvarpinu 22. okt. s. l. bentu til að hann mundi sérstaklega stuðla að við gerð lánsfjáráætlunar? Með hverjum hætti hyggst hann afla þess fjár fyrst þess verður ekki vart í þeim lánsfjárlögum sem hér eru til afgreiðslu?