13.04.1981
Neðri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3699 í B-deild Alþingistíðinda. (3792)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það skyldi engan undra þó umræður um lánsfjárlög gætu tekið tíma. Satt best að segja er ég hissa á því hve lítill munur er á skoðunum stjórnarandstöðu og stjórnar í þeim efnum.

En það vekur undrun mína að hér er komin skrifleg brtt. frá Karvel Pálmasyni, Árna Gunnarssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Magnúsi H. Magnússyni þar sem ríkisstj. er heimilað að taka lán allt að 2 millj. kr. sem verja skal til kaupa á öryggistækjum á flugvelli samkv. nánari tillögum fjvn., flugmálastjóra og flugráðs. — Ég les þetta nú upp, með leyfi forseta, þar sem þskj. liggur ekki fyrir á borðum manna. — Það athyglisverða við þetta er að formaður þingflokks Alþfl. flutti hér till. þar sem talað var um 2.5 millj. og þetta gerðist nánast á sama tíma, ekki alveg þó. Spurningin er hvort ástandið hafi snarbatnað svo á þessari stuttu stund að menn hafi ákveðið að lækka þetta þess vegna um 0.5 millj. eða hvort hv. 3. þm. Vestf. hefur ekki boðið flokkssystkinum sínum að verða sér samstiga í þessu máli og flytja þetta með sér í deildinni. Góði dátinn Svejk hélt því fram, að agi þyrfti að vera í hernum, það var grundvallaratriði, menn yrðu að vera samstíga. Og eitthvað læddist illa að mér að á svona stuttum tíma skuli allt í einu vera orðinn hálfrar milljónar skekkja í sama málinu. Er þetta ekki grundað á góðum upplýsingum? Er hér um yfirlýsingar að ræða af svipuðu tagi og þegar átti að fækka um 30% opinberum starfsmönnum og því miður fengust engar skýringar á því nánar hjá hv. 6. landsk. þm. og ekki heldur hjá hv. 3. þm. Vestf.?

Því kem ég þessu hér á framfæri að ég veit að hv. 6. landsk. þm. sér ekki eftir því að þurfa að standa upp og koma hér upp í ræðustól. Hann hefur aldrei verið neitt spar á það og hefur vafalaust af því ánægju að gefa sér tíma til þess núna. En fróðlegt væri að fá það alveg á hreint, hvort þarna er um að ræða skoðanaágreining á milli hans og 3. þm. Vestf., og ef svo er, hvort það sé e. t. v. skoðanaágreiningur almennt um flugsamgöngur á milli þessara tveggja þm.