13.04.1981
Neðri deild: 80. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3702 í B-deild Alþingistíðinda. (3798)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umr., en ég vildi þó stíga hér í stólinn, áður en umr. lyki, í tilefni af þeim orðum sem hæstv. félmrh, lét falla áðan um þá brtt. sem við flytjum hér þrír varðandi Erfðafjársjóð og Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra.

Þegar frv. til fjárlaga var afgreitt fyrr í vetur kom fram í nál. frá 1. minni hl. fjvn., þ. e. þeim hv. þm. Lárusi Jónssyni, Friðrik Sophussyni og Guðmundi Karlssyni, hvað fjárlögin gerðu ráð fyrir mikilli skerðingu á þessum sjóðum miðað við gildandi lög. Mér finnst rétt að það komi hér fram í umr. Þar var gert ráð fyrir að erfðafjárskattur yrði skertur um 209 millj. kr. og það rynni beint til almennra nota í ríkissjóð. En varðandi Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra var gert ráð fyrir samkv. fjárlagafrv., samkv. þeim útreikningi sem minni hl. fjvn. gerði, að þessi skerðing næmi á þessu ári 300 millj. gkr. Það gefur að sjálfsögðu auga leið að það munar um minna þegar um er að ræða sjóð sem hefur jafnbrýn verkefni á sinni könnu og raun ber vitni.