10.11.1980
Efri deild: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur haldið marga fundi um það frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., og viðað að sér veigamiklum og ítarlegum upplýsingum um málið. Nefndin hefur fengið til viðræðna forráðamenn fyrirtækisins og forustumenn starfsmannasamtaka, aðallega þó starfsmanna flugliðafélaganna, og enn fremur rætt við eftirlitsmenn ríkisstj., þá Birgi Guðjónsson og Baldur Óskarsson, og Rúnar Jóhannsson, starfsmann ríkisendurskoðunar, sem hefur aðstoðað þá við athugun málsins.

Hæstv. samgrh. Steingrímur Hermannsson hefur einnig sótt fundi nefndarinnar og nm. hafa átt viðræður við hann og þriggja manna ráðherranefnd, sem skipuð var hæstv. samrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. dóms- og kirkjumrh., um þau skilyrði sem sett yrðu fyrir væntanlegri ríkisábyrgð.

Þetta mál hefur verið til ítarlegrar umr. hér í þinginu, bæði í þessari hv. d. og einnig í Sþ. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja aftur þau fjölmörgu atriði sem þar komu fram og eru hv. þm. kunn, heldur gera aðeins í örstuttu máli grein fyrir niðurstöðum meiri hl. nefndarinnar.

Eftir þær viðræður, sem ég hef hér greint frá, og athugun á hinum ítarlegu gögnum málsins er það niðurstaða nefndarinnar í heild, að rétt sé að setja sjö meginskilyrði fyrir ríkisábyrgðinni. Þessi skilyrði eru: Að aukning hlutafjár ríkisins í 20% verði komin til framkvæmda fyrir næsta aðalfund. Að starfsfólki eða samtökum þess verði á sama tíma gefinn kostur á að eignast hlutafé fyrir a.m.k. 200 millj. kr. og þannig stuðlað að því, að sameiginlegt atkvæðamagn starfsfólks nægi til kjörs eins fulltrúa í stjórn. Að aðalfundur Flugleiða verði haldinn fyrir lok febr. 1981 og kosin ný stjórn í samræmi við breytta hlutafjáreign, en framhaldsaðalfundur haldinn síðar ef þörf krefur. Að Starfsmannafélagi Arnarflugs verði gefinn kostur á að kaupa hlut Flugleiða í Arnarflugi. Að ársfjórðungslega verði ríkisstj. gefið yfirlit yfir þróun og horfur í rekstri Flugleiða. Að fram fari viðræður ríkisstj. og Flugleiða um nýjar reglur varðandi hlutafjáreign í fyrirtækinu, sem m.a. takmarki atkvæðisrétt einstaklinga og fyrirtækja sem hlut eiga í Flugleiðum. Að Norður-Atlantshafsfluginu verði haldið fjárhagslega aðskildu eins og frekast er unnt.

Þessi sjö skilyrði, sem hér eru tilgreind, voru niðurstaða af viðræðum sem nm. allir áttu við þá ráðherranefnd sem ég gat um áðan. Ég er þeirrar skoðunar, að slík sameiginleg mótun þessara skilyrða feli í sér samstöðu þingsins og ríkisstj. um efnisþætti þessara skilyrða. Enn fremur, eins og fram kemur í nál., gekk samgrh. Steingrímur Hermannson á fund stjórnar fyrirtækisins daginn áður en nefndin gekk frá áliti sínu og greindi henni frá efnisþáttum þessara skilyrða.

Á síðasta fundi nefndarinnar kom það fram sem eindregin skoðun hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, sem skilar séráliti og myndar þar af leiðandi minni hl. nefndarinnar, að hann taldi nauðsynlegt að lögfesta þessi skilyrði. Fyrir því má færa ýmis rök,eins og hv. þm. mun sjálfsagt gera hér á eftir, en ég er þeirrar skoðunar, að á grundvelli þeirrar aðferðar, sem höfð var 1975 þegar ríkisábyrgð var þá veitt, og á grundvelli þeirrar aðferðar, sem beitt var fyrr á þessu ári þegar nefnd þingflokkanna ásamt ráðherranefnd mótaði þau skilyrði sem sett voru fyrir því að gera 5 millj. dollara ríkisábyrgð virka, þá sé fullkomlega eðlilegt að fara aftur þá leið sem hér er lagt til, að frv. sé afgreitt á þeirri forsendu sem tilgreind er í nál. Sjálfsagt höfum við allir ýmsar skoðanir á þessum skilyrðum og þessari aðferð, en ég tel mikilvægt að alger samstaða hefur náðst um það, hver efnisatriði þessara skilyrða eru, og mjög breið samstaða hefur náðst um það, með hvaða hætti skilyrðin séu afgreidd, þótt einn nm. hafi kosið að fara aðra leið.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að þessi skilyrði voru mótuð á fundi sem hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. sátu ásamt þriðja ráðh. ríkisstj. Hæstv. samgrh. tilkynnti stjórn félagsins þessi skilyrði daginn áður en nefndin gekk frá áliti sínu, og hæstv. forsrh. undirritar þessi skilyrði með setu sinni í nefndinni, þar eð hann er einn af þeim nm. sem þetta nál. leggja fram. Ég tel þess vegna að það sé varla hægt að tryggja betur samstöðu og samvinnu ríkisstj. og þessarar hv. deildar um það, með hvaða hætti sé frá þessum skilyrðum gengið. Ég vil því leggja til við hv. deild fyrir hönd meiri hl. fjh.- og viðskn. að frv. verði samþ. óbreytt á þeim grundvelli sem fram kemur í nál., að 5. gr. frv. verði framkvæmd á þann hátt sem þar greinir.

Ég vil svo að lokum geta þess, að í nefndinni var rædd ítarlega ósk Flugleiða um annan hátt varðandi lendingargjöld á árinu 1979 en afgreiddur hefur verið til þessa. Þau mál eru nú til athugunar hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. og sú nefnd, sem um þetta mál fjallar í Nd., mun væntanlega kynna sér niðurstöður þeirra athugana.

Að lokum, herra forseti, vil ég geta þess, að prentvilla er í S. gr. frv. Þar á augljóslega að standa 1. og 3. gr., en ekki 1. og 2. gr., og óska ég þess, að það verði leiðrétt við meðferð málsins.