14.04.1981
Sameinað þing: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3735 í B-deild Alþingistíðinda. (3834)

278. mál, lifnaðarhættir æðarfugls

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Hvað líður framkvæmd þál. frá 1978 um vísindalega rannsókn á lifnaðarháttum æðarfugls? — Svo hljóðandi fsp. á þskj. 569 hef ég leyft mér að bera fram til hæstv. landbrh.

Í grg. þáltill., sem flutt var á sínum tíma af séra Þorleifi Kristmundssyni á Kolfreyjustað, er minnt á að frá upphafi Íslandsbyggðar hafi hlunnindi af æðarfugli verið nokkur þáttur í afkomu landsmanna og því ekki vansalaust að ekki hefur enn farið fram nein vísindaleg könnun á lifnaðarháttum æðarfuglsins og um leið á orsökum hinnar miklu fækkunar æðarfugls og rýrnandi dúntekju frá því að hún var mest, en það mun hafa verið á árunum 1915–1920, að dúntekja á Íslandi nam allt að 5 þús. kg. Nú mun æðardúnstekjan nema um helmingi þess magns.

Fólk hefur spurt: Hvers vegna þessi fækkun? Sem svar hefur verið nefnt ýmist olíumengun stríðsáranna, fjölgun vargfugls, netalagnir og grásleppuveiðar. Ég hygg að allt þetta muni samverka að þessari fækkun sem er staðreynd.

Nú eru menn hér á landi sem fullyrða að rækta megi upp æðarvarp þannig að af æðardúni geti orðið stórauknar tekjur og varphlunnindin orðið að dágóðri búgrein. Og ég hygg að einmitt nú, þegar unnið er að samdrætti á hinum hefðbundnu atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði, sé okkur skylt — eins og ég raunar veit að er á döfinni — að huga að öllum hugsanlegum möguleikum til þess að auka fjölbreytni í atvinnulífi okkar og nýta öll hlunnindi til hins ýtrasta.

Margir áhugamenn — ég vil nefna þar sérstaklega einn góðan Reykvíking, Kjartan Pétursson, sem er hugvitssamur áhugamaður um allt sem að æðarfugli lýtur — eru þeirrar skoðunar, að rækta megi upp æðarvarp á fimm árum og hafa af því stórkostlega auknar gjaldeyristekjur frá því sem nú er. Hafa verið gerðar tilraunir með þetta, m. a. af Kjartani sem hefur fengist við þetta undanfarin 30–40 ár. Einnig má nefna tilraun Árna Péturssonar hlunnindaráðunautar Búnaðarfélags Íslands, sem s. l. sumar gerði athyglisverða og skemmtilega vel heppnaða tilraun norður á Oddsstöðum á Melrakkasléttu.

En ýmsum spurningum er ósvarað í þessu sambandi sem nauðsynlegt er að fá svar við. Spurt er og það er auðvitað mergurinn málsins:

1. Er hægt að fjölga fuglinum með uppeldi? Til þess er auðvitað leikurinn gerður með þessum tilraunum í æðarræktinni.

2. Hvernig á fóðrið að vera samsett?

3. Hvað veldur því, að ungar sem hafa verið fóstraðir upp, blotna þegar á sjóinn kemur?

4. Hvernig á að fyrirbyggja sjúkdóma og bregðast við þeim þegar þeir koma upp?

5. Hvernig reiðir fósturbörnunum af þegar út í lífsbaráttuna kemur?

6. Velja ungarnir sér varpstöðvar þar sem þeir ólust upp þegar þeir sjálfir hefja varp?

7. Hvað kostar að ala upp æðarunga og koma þeim til þroska?

Ég býst við að þeir, sem þekkja til æðarvarps og vita og hafa horft upp á hvílík ofboðsleg vanhöld verða árlega vegna vargfugls, svartbaksins þá sérstaklega, telji mjög mikilvægt að fá kannað hvað sé til ráða til þess að forða ungunum, á meðan þeir eru mjög ungir, úr kjafti og klóm svartbaksins. Og það eru einmitt þessar uppeldistilraunir, sem beint er að, til þess að þeir verði of stór biti í kjaftinn á svartbaknum til þess að hann fái kyngt þeim. Ég vil benda á að það að koma upp æðarvarpi og koma upp nýjum varplöndum, sem eru auðvitað meginmarkmiðið, — að koma upp nýjum varplöndum og byggja upp æðarvarp, það er ekki fjárfrekt fyrirtæki. Æðarfuglinn þarf hvorki fjós né fjárhús eða rammgerð búr, hann þarf fyrst og fremst frið, — frið til þess að verpa og koma upp sínum ungum.

Ég vil benda á að markaðsverð á æðardún er feikihátt og fer hækkandi. 400 þús. kr. fást nú fyrir hvert kg á markaði í Vestur-Þýskalandi og þetta er dágóður peningur. Borinn hefur verið saman ágóði af útflutningi dúns og dilkakjöts og staðhæft að þrjú kolluhreiður gefi jafnmikinn gjaldeyri og einn útfluttur dilkskrokkur og í hverju æðarkolluhreiðri sé 70 kr. verðmæti, og þá á ég við nýkr. Hér er því stórt mál sem ég hygg að okkur beri skylda til að huga að, annars vegar með hlunnindi sem þegar hafa varp, bænda fyrir augum og ekkert síður hitt, að rækta upp ný varplönd til þess að drýgja útflutningstekjur okkar og til þess að vernda þennan gæfa og góða fugl sem hvergi veldur skaða, en verður fyrir stórum búsifjum af völdum vargs:

Ég vænti þess, að ég fái góð og jákvæð svör frá hæstv. landbrh.