14.04.1981
Sameinað þing: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3738 í B-deild Alþingistíðinda. (3836)

278. mál, lifnaðarhættir æðarfugls

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans og fyrir mjög svo jákvæðan hug til málsins sem kom fram í máli hans. Ég vil leggja áherslu á að þessar spurningar, sem ég varpaði fram, hljóta að krefjast vísindalegrar rannsóknar þannig að ég gerði auðvitað engan veginn ráð fyrir því að fá svör við þeim frá hæstv. ráðh. Þær rannsóknir verða vonandi gerðar með hagnýtan tilgang fyrir augum. Ég vil leggja áherslu á að þar verði nýtt reynsla áhugamanna, varpbænda og annarra sem þekkja málið, og vísindamanna okkar á þessu sviði. Ég býst við að þeir geti bætt störf hverjir annarra upp mjög verulega.

Ég vænti þess, að þeir, sem þessi mál bera fyrir brjósti, megi eiga von á vaxandi skilningi yfirvalda. Það er enginn vafi á því, eins og ég gat um áðan, að hér er ekki um miklar fjárkröfur á hendur hins opinbera að ræða. Þeir, sem vinna við varp, þurfa umfram allt að vinna af natni og þolinmæði og þurfa ekki að kosta til mjög miklu fé miðað við annan atvinnurekstur sem byggður er upp. Mig rekur minni til þess, að það er starfandi sérstakur sjóður, nýlegur sjóður til styrktar nýjum búgreinum. Ég sé að hv. þm. Egill Jónsson hristir höfuðið. Ég taldi mig fara hér með rétt mál, en bið hann að leiðrétta ef ekki er rétt, að á vegum búnaðarsamtakanna hafi einmitt verið stofnuð sérstök deild í stofnlánasjóði landbúnaðarins til þess að huga að nýjum búgreinum sérstaklega. Ég vil minna á enn að varpbændur greiða nú sérstakt sjóðagjald af hverju seldu dúnkílói, en hefur hingað til verið neitað um nokkra fyrirgreiðslu til þess að byggja upp æðarvarp.

Ég þarf ekki að orðlengja þetta frekar. Ég vona að málinu verði veitt vaxandi athygli og æðarbúskapur geti orðið vaxandi hlunnindi á komandi árum.