14.04.1981
Sameinað þing: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3739 í B-deild Alþingistíðinda. (3837)

278. mál, lifnaðarhættir æðarfugls

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það, sem kom mér nú til að kveðja mér hér hljóðs, voru þau ummæli hv. 5. landsk. þm., að það hefði gætt eitthvað sérstaklega jákvæðrar afstöðu hjá hæstv. landbrh. í sambandi við hlunnindamál og nýjar búgreinar. Mér finnst rétt að það komi hér fram, að við afgreiðslu fjárlaga bar hv. þm. Steinþór Gestsson fram till. um að Búnaðarfélag Íslands hefði nokkurn veginn eðlilegt starfsfé miðað við það sem var á s. l. ári. En þar var efst á blaði beiðni Búnaðarfélagsins um að unnt yrði að ráða hlunnindaráðunaut þess að fullu í störf. Þessi till. var felld hér við fjárlagaafgreiðslu. Ég geri því ekki ýkjamikið úr því, þótt ráðherrar séu eitthvað að spjalla hér úr þessum stól, þegar svona er tekið á málum á úrslitastundu.

Út af því, sem hér var talað um sérstakan sjóð í sambandi við sparnað á jarðræktarframlagafé, er þess að geta, að það fór ekki einn einasti eyrir í nýjar búgreinar af þeirri fjárveitingu á s. l. ári, eins og um hefur verið talað og frá hefur verið sagt. Það, sem var gert m. a. við það fé — og verður væntanlega hægt að skýra betur hér á Alþingi, var að verulegur hluti þess fór til Stofnlánadeildar landbúnaðarins á móti því sem fjármagn til hennar var skorið niður á fjárlögum. Það eru staðreyndir þessa máls, þannig að ég held að það sé alveg óhætt fyrir hv. 5. landsk. þm. að taka það með í reikninginn, að það hefur ekki verið unnið neitt að gagni í þessum málum upp á síðkastið.