10.11.1980
Efri deild: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það eru þrjú atriði sem ég vil leggja sérstaka áherslu á í sambandi við þetta mál og það sérálit sem ég skil í því. Það er í fyrsta lagi að allar tölulegar upplýsingar um rekstur, sem borist hafa til nefndarinnar, eru frá Flugleiðum sjálfum. Líka þær, sem bárust frá Landsbankanum, voru úr bréfi frá Flugleiðum sjálfum. Það verður ekki sagt að þessi gögn hafi verið prófuð af neinum óháðum aðila með sérþekkingu í flugrekstri, en það væri vitaskuld æskilegt.

Margs konar misskilningur hefur komið upp og samskiptabrestur er í rauninni milli stjórnvalda og fyrirtækisins. Við þessar aðstæður tel ég rétt að leita eftir óháðum aðila með sérþekkingu á sviði flugrekstrar og flugmarkaðsmála, sem ætti aðgang að rekstrarlegum gögnum fyrirtækisins og væri tengiliður fyrirtækis og stjórnvalda. Þessum aðila þyrftu báðir aðilar að geta treyst.

Í öðru lagi, þegar skilyrði eru sett eiga þau að vera einhlít, tæmandi og án allra eftirkaupa. Ef skilyrðin eru sett í alvöru á að setja þau í lög. Skilyrði í grg. hafa ekki lagagildi og binda engan. Það er fráleitt fordæmi að afgreiða skilyrðin í grg. Sérstaklega við það tortryggniástand sem nú ríkir er líka betra fyrir Flugleiðir, betra fyrir ráðh. að skilyrðin séu kvitt og klár í lögum og verði hvorki toguð né teygð, það verði hvorki aukið við né dregið úr, eins og lagagreinin í núverandi búningi heimilar þó. Alþingi á að sjá sóma sinn í að afgreiða skilyrðin með lögum.

Þriðja atriðið er það, að í rauninni stöndum við enn í sömu sporum og við upphaf málsins. Stefnumörkun í flugmálum hefur engin átt sér stað. Vegna framtíðarstefnumótunar er æskilegt að ríkisstj. eigi aðgang að ráðgjöf óháðs aðila með sérþekkingu á sviði flugrekstrar og flugmarkaðsmála, ráðgjöf sem gæti verið til aðstoðar við stefnumörkun í framtíðinni.

Það hefur ekki farið á milli mála, að umfjöllun nefndarinnar um þetta mál hefur verið nokkuð tímafrek. Það hefur heldur ekki farið fram hjá neinum, að ýmis misskilningur hefur komið upp við meðferð málsins. Samgrh. hefur a.m.k. einu sinni gefið í skyn, að hann hafi verið plataður, og öðru sinni, að hann skildi ekki forstjóra fyrirtækisins. Mín skoðun er sú, að yfirlýsingar hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar og ýmsar yfirlýsingar formanns fjh.- og viðskn., Ólafs Ragnars Grímssonar, um mikla ósamkvæmni í tölulegum gögnum frá Flugleiðum hafi orðið til að skaða málið, þær hafi ekki verið á rökum reistar, heldur misskilningi. Bréfaskriftir ráðh. og Flugleiða hafa á hinn bóginn ekki leitt til neinnar niðurstöðu um það, hvort Flugleiðir hafi í reynd óskað eftir að halda áfram svonefndu Atlantshafsflugi. Og enn er það svo, að margir hafa orðið til að draga í efa traustleika stjórnar Flugleiða.

Við þessar aðstæður virðist einsýnt að löggjafinn gangi frá málinu á skýran og einhlítan hátt þannig að ekkert fari á milli máta. Jafnframt verður að gera þá kröfu til Alþingis, að það velji sterkasta form sem völ er á varðandi frágang málsins. Það leikur ekki vafi á nauðsyn þess, að greitt verði úr fjárhagslegum örðugleikum Flugleiða til að tryggja samgöngur landsins við umheiminn. Á hinn bóginn hefur verið talið nauðsynlegt að þær ríkisábyrgðir sem hér um ræðir yrðu bundnar ákveðnum skilyrðum.

Ekki skal gerður ágreiningur um efni þessara skilyrða, enda hefur verið leitast við að sætta í þeim mismunandi sjónarmið, og boð hafa borist frá samgrh. til nefndarinnar að hann telji af samtölum sínum við forsvarsmenn Flugleiða hf. að fyrirtækið muni geta fallist á skilyrðin. Ég geri hins vegar till. um það, að 5. gr. frv. feli í sér áðurnefnd skilyrði, en við umr. um málið hér á Alþ. hafa einmitt komið fram óskir frá mörgum þm. um breytingar á 5. gr. í þessa veru.

Nál. um framkvæmd 5. gr., eins og meiri hl. nefndarinnar leggur til, hefur vitaskuld ekki lagagildi. Meiri hl. nefndarinnar leggur ekki heldur til neinar breytingar á 5. gr., þannig að ríkisstj. hefur í raun áfram heimild til að auka við eða draga úr skilyrðum. Í þessu formi afsalar löggjafinn sér valdi sínu á óviðunandi hátt. Valdaframsal löggjafans, sem gengur svo langt, er ekki unnt að una við. Álit meiri hl. nefndarinnar um framkvæmd skilyrðanna breytir hér engu um. Af slíkri yfirlýsingu þingnefndar er nefnilega enginn bundinn, enda hefur hún ekki lagagildi. Hið rúma framsal löggjafans, sem felst í 5. gr. óbreyttri, mundi enn auka á alla óvissu um framkvæmd og er þó samskiptavandinn ærinn fyrir. Það má reyndar líka minna á afleitt fordæmisgildi vinnubragða löggjafans af því tagi sem meiri hl. nefndarinnar leggur hér til.

Það verður ekki heldur séð hvaða ástæður geti legið til þess, að Alþ. víki sér undan því að binda í lög þau skilyrði sem það vill setja. Menn segja að hér sé einungis um formsatriði að ræða. Auðvitað er þetta sitt af hverju forminu. En þetta er ekki fyrst og fremst formsatriði. Þetta er spurningin um það, hvort Alþ. gengur frá málunum kvitt og klárt. Þetta er spurningin um það, hvort menn vilja hafa á hreinu hver skilyrðin eru. Þetta er spurningin um það, hvort menn eru að setja skilyrðin í alvöru, hvort það eigi að vera unnt að teygja þau og toga, hvort það eigi að vera unnt að draga úr eða bæta við. Mín skoðun er sú, áð sérstaklega með tilliti til þess, hvernig málið er vaxið nú, sé langtum betra fyrir Flugleiðir hf. að skilyrðin séu skýr og einhlít. Mín skoðun er sú, að það sé líka langtum betra fyrir ráðh., eins og málið er vaxið, að skilyrðin séu skýr og einhlít og verði hvorki teygð né toguð.

Í þriðja lagi er það auðvitað Alþingis að ganga frá hlutum af þessu tagi. Ég hef bent á að það eru afleit vinnubrögð sem vitnað hefur verið til hér sem fordæmis, frágangur málsins 1975, og var það þó heldur skárra en nú er gert því að þá lá þó fyrir yfirlýsing frá forráðamönnum fyrirtækisins um að þeir gengju að skilyrðunum.

Ég ætla ekki að ræða hér sérstaklega efni skilyrðanna, en ég vil ítreka að þetta er ekki fyrst og fremst formsatriði. Þetta er spurningin um það að ganga frá málunum á skýran og einhlítan hátt. Og sérstaklega eins og málið er vaxið, þá er það langtum betra fyrir alla aðila, auk þess sem Alþ. á að sjá sóma sinn í að afgreiða málið á þennan hátt þannig að valdaafsal að óþörfu eigi sér ekki stað.

Það leikur ekki vafi á því, að staða Flugleiða er slæm. Hins vegar verður ekki annað séð en fyrirtækið eigi vel fyrir skuldum og sé þannig á engan hátt gjaldþrota þótt það eigi í mjög miklum greiðsluerfiðleikum. Staðan er því sú núna, að menn standa í rauninni frammi fyrir því, hvort félagið lifir eða deyr. Án lánafyrirgreiðslu lendir fyrirtækið í greiðsluþroti og lognast þar með út af. Meðal skulda fyrirtækisins eru veruleg erlend lán sem félagið hefur fengið á þeim forsendum, að um væri að ræða þjóðarflugfélag og því litið svo á að íslenska ríkið stæði þar á bak við. Af þessum sökum og vegna þess að við sem þjóð viljum halda uppi heiðri okkar og skilvísi og að skilvísi okkar verði ekki dregin í efa, þá hljótum við sem þjóð að standa við þessar skuldbindingar, jafnvel þótt félagið gerði það ekki. Ef félagið lognaðist út af, þá verður mjög erfitt að byggja upp flug að nýju. Á þetta skal minnt vegna þess að það mál, sem hér liggur fyrir, varðar líf og dauða fyrirtækisins og meginatriði, hvað sem öðru líður, er að hafa góðar samgöngur við umheiminn. Hitt er önnur saga, að þetta mál er búið að flækja að óþörfu og spilla því með hringlanda og ótímabærum yfirlýsingum. Menn hafa meira að segja búið til deilu um hver hafi beðið hvern um hvað. Ég skrifa þá deilu jafnt á reikning ráðh. sem forsvarsmanna Flugleiða.

Ég held að málsmeðferðin hafi að ýmsu leyti skaðað félagið og þjóðarhag og að yfirlýsingagleði hafi orðið til að rugla málið og víkja því af réttri braut. Klaufaleg framkoma forsvarsmanna Flugleiða hefur líka átt verulegan þátt í þessu. En það, sem er hörmulegast við þessar yfirlýsingar allar, sérstaklega hjá hæstv. samgrh. og formanni fjh.- og viðskn., Ólafi Ragnari Grímssyni, er að þær virðast hafa verið byggðar á misskilningi. Í hvert skipti sem menn hafa hrópað upp yfir sig um nýjar upplýsingar sem sýni eitthvað allt annað en áður hafi komið fram, þá hefur það ekki reynst vera á rökum reist. Sannleikurinn er sá, að það verður ekki fundið óeðlilegt ósamræmi í þeim tölulegu upplýsingum sem komið hafa frá Flugleiðum. Áætlanirnar hafa verið settar upp með mismunandi hætti, en ef menn hafa gefið sér tíma til að lesa þær og skilja þær forsendur sem þær eru settar fram á, þá hafa menn komist að raun um að þar hefur ekki verið um verulega ósamkvæmni að ræða.

En vel að merkja, öll töluleg gögn um stöðu og afkomu Flugleiða, sem borist hafa til nefndarinnar, eru frá Flugleiðum sjálfum. Það gildir líka um þau gögn sem bárust frá Landsbanka Íslands, eins og ég gat um áðan. Það voru bréf frá Flugleiðum. Og þó að ég rengi ekki bókhaldslegar niðurstöður, þá voru allar áætlanir og öll matsatriði frá þessu fyrirtæki og þessi gögn hafa ekki fengið prófun óháðra aðila með sérþekkingu á þessu sviði.

Það er rétt að benda á að þetta er sú leið sem ríkisstj. valdi. Hún valdi að biðja um upplýsingar frá fyrirtækinu, og hún hefur haldið sig við þá starfsaðferð. Það voru að vísu tilnefndir svonefndir eftirlitsmenn, en þeir komu sér út úr húsi, og mín skoðun er sú, að hjá þeim í heild hafi ekki verið um mjög mikla sérþekkingu á flugrekstri að ræða. Það litla gagn, sem hafa mátti af þessu eftirliti, varð í rauninni að engu. Engu að síður er staðan þó sú, að framtíðin er jafnóviss og áður. Það hefur engin stefnumörkun átt sér stað. Flugmálin eru mjög mikilvæg. Ákvarðanir í þeim skipta okkur miklu og stefnumótun þarf að vera skýr. Raunverulegt mat á stöðu og stefnu, á flugrekstrinum sjálfum og markaðsaðstæðum hefur ekki átt sér stað. Það er einmitt þetta, sem skiptir líklega mestu. Þess vegna er meginatriði að ná yfirsýn yfir það. Þess vegna er ástæða til þess að leitast við að fá óháðan aðila með sérþekkingu á flugrekstrarsviði, ekki síst að því er markaðsmál varðar, til þess að fylgjast með rekstrinum, gera úttekt á rekstrarlegir og markaðslegri stöðu fyrirtækisins og vera ríkisstj. til ráðuneytis og ráðgjafar í þessum málum við stefnumótun á næstu misserum.

Ég vil sérstaklega benda á þetta, því að það er að mörgu leyti mikilvægt að finna óháðan aðila af þessu tagi. Sá trúnaðarbrestur, sem uppi er, bendir til þess, að það væri æskilegt að hafa þarna tengilið sem báðir gætu treyst, en mikilvægast er þó að marka stefnu til framtíðarinnar. Ég tel að ráðgjöf af þessu tagi gæti líka verið fyrirtækinu mjög til góðs.

Það verður ekki annað sagt en að stjórn fyrirtækisins sé veik. Stjórnendurnir standa veikt, og ég hef mínar efasemdir um stjórnunarhæfni stjórnar fyrirtækisins. Þetta markast líka af innanfélagsríg og hvernig haldið hefur verið á mátum. Ég held að eigendur Flugleiða ættu að íhuga að skipta á stjórnarmönnum af þessum ástæðum, fyrirtækisins sjálfs og eignar sinnar vegna.

Ég hef flutt sérstaka till. á þskj. 96 sem felur í sér að 5. gr. frv. breytist í samræmi við þau skilyrði sem talað hefur verið um að setja. Efnislega er hér ekki um nein frávik að ræða. Orðalagi er örlítið hnikað til, en efnislega verður ekki sagt að hér sé um frávik að ræða. Ég geri það að till. minni, að Alþingi afgreiði þessi skilyrði með því að breyta greininni eins og lagt er til í brtt. á þskj. 9,6. Ég geri það með sérstakri tilvísun til þess, að Alþingi á að setja á skýran og ótvíræðan hátt þau skilyrði sem um er að ræða. Alþingi á ekki að víkja sér undan því að vilja láta koma fram í lögunum sjálfum hver sé vilji þess í þessum efnum.

Ég vil svo að lokum segja það, að þau skilyrði, sem hér um ræðir, eru að mörgu leyti mjög óvenjuleg, og það rennir enn stoðum undir það, að eðlilegt, æskilegt og rétt er að þau komi fram í lagagreininni sjálfri. Ég tel líka, með tilliti til þess samskiptavanda, sem uppi hefur verið, og þess misskilnings, sem einkennt hefur þetta mál, að það sé sjálfsagt að skilyrðin séu sett í lagagreininni sjálfri. Það er ekkert sem hindrar að skilyrðin séu sett í lagagreininni.