14.04.1981
Sameinað þing: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3743 í B-deild Alþingistíðinda. (3842)

384. mál, hjöðnun verðbólgu 1981

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Seinni ræða hv. fyrirspyrjanda var næsta furðuleg og virðist eins og hv. þm. hafi verið annars hugar þegar ég svaraði fsp. hans. Hann heldur því fram, að ég hafi ekki svarað meginatriðunum í 2., 3. og 4. fsp. um kaupmátt bæði kaups og lífeyristekna á öðrum ársfjórðungi 1981, hafi vikist undan því og aðeins talað um fyrsta ársfjórðung. Allir, sem hlustuðu á mál mitt áðan, vita að ég einmitt svaraði þessu öllu saman. Og ég skal endurtaka það, að kaupmáttur kauptaxta verkamanna, miðað við 100 á fyrsta ársfjórðungi 1980, var á fyrsta ársfjórðungi í ár 100.9 og á öðrum ársfjórðungi 1981 verður hann samkv. áætlun 98.5. Varðandi elli- og örorkulífeyri, miðað við 100 á fyrsta ársfjórðungi 1980, eru tölurnar 97.7 fyrir fyrsta ársfjórðung í ár og 95 samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar fyrir annan ársfjórðung. Fyrir elli- og örorkulífeyri auk tekjutryggingar eru tölurnar, miðað við 100 fyrir fyrsta ársfjórðung 1980, 102.2 fyrir fyrsta ársfjórðung og 102 fyrir annan ársfjórðung. — Mér þykir leitt að hv. þm. skuli hafa fylgst svona illa með svörum við eigin fsp., en þeim var svarað á þennan hátt og ætti að vera ástæðulaust að endurtaka það.

En það er annað sem mér finnst ástæða til að minnast hér á líka, rangfærslur hv. þm. Hann segir að ég hafi í ræðu um lánsfjár- og fjárfestingaráætlun spáð því, að verðbólgan í ár yrði um 30% án þess að nokkuð væri að gert. Ég skil sannast sagna ekki hvernig hv. þm. les skjöl eða ræður eða hlustar því að ég held að það hafi komið alveg skýrt fram þar, að markmiðið er að koma verðbólgu niður í 40% fyrir þetta ár. Um leið skýrði ég frá því, hverjar horfur væru, eftir því sem nú lægi fyrir, varðandi fjóra fyrstu mánuði ársins. Það liggur fyrir að verðlagið hækkaði um 1.6% í janúarmánuði og að spá Hagstofunnar hefur verið fyrir næstu þrjá mánuðina, febr., mars og apríl, um 8.5%. Samkv. því yrði vísitalan - eða réttara sagt verðþenslan, verðbólgan fyrir fjóra fyrstu mánuði ársins um eða rúmlega 33%. Úr þessu býr hv. þm. það til, að ég hafi sagt að verðbólgan yrði um 30% yfir allt árið án þess að nokkuð yrði að gert.

Ég held að þessi ræðuhöld hv. þm. minni nokkuð á það sem hann skrifaði fyrir tæpu ári. Þá hafði það gerst, að sparifjármyndun hafði fyrstu mánuði ársins 1980 orðið í prósentum að hans mati eitthvað minni en á sama tíma árið 1979. Þessi hv. þm. skrifar þá — ég held að það hafi verið í maímánuði — forustugrein í blaðið Íslending á Akureyri þar sem hann með stórri fyrirsögn lýsti því, hversu alþjóð manna hefði lýst yfir algeru vantrausti á efnahagsstefnu ríkisstj. með þessu, að sparifjármyndun hefði minnkað. Þetta var ákaflega mikið mál hjá hv. þm. og undirstrikað í þessum leiðara með stórri fyrirsögn.

Reynslan varð svo sú eftir árið, að sparifjármyndun varð miklu meiri á árinu 1980 heldur en á árinu áður, um 67% aukning ef ég man rétt, í staðinn fyrir 57 eða 58 árið áður. Ef á að draga einhverjar rökréttar ályktanir af þessum ummælum hv. þm. ætti þessi aukning að vera bein traustsyfirlýsing á efnahagsstefnu ríkisstj., nema hitt hafi verið eintómt bull.

Ég vil nú mælast til þess við hv. þm., sem hefur bæði greind og menntun til þess að tala af viti um þessi mál, að hann gæti sín betur í sínum næstu ræðum.