14.04.1981
Sameinað þing: 75. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3744 í B-deild Alþingistíðinda. (3844)

384. mál, hjöðnun verðbólgu 1981

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ekki bætir hv. þm. málstað sinn með þessu. Hann tekur upp úr ræðu minni þar sem ég segi að á þessu tímabili, fyrstu mánuðum ársins, sé verðbólgan 10.2% og þá sé það á ársgrundvelli um 30%. (LJ: 33%). Já, 33%. Þá spinnur hann það upp hér, að þar með sé ég að spá því að verðbólgan yfir árið verði þetta án aðgerða. Ég hélt að hv. þm. ætti að skilja það, enda hefur hann reiknað það margsinnis út eða reynt að reikna hver verðbólga er miðað við ákveðið tímabil, einn mánuð, tvo mánuði, þrjá mánuði eða fjóra mánuði, og hvað það þýðir á ársgrundvelli, þegar því er breytt í 12 mánuði. Það er það sem þarna stendur. Það er alger útúrsnúningur og blekking að leyfa sér svona túlkun.

Varðandi hitt atriðið, þá er hann að reyna að draga úr því, að sparifjármyndun hafi nokkuð aukist á s. l. ári, það sé með því að telja vexti með. Hv. þm. ætti sem viðskiptafræðingur að vita að það er föst regla Seðlabankans — sem hann telur eina rétta samanburð á sparifjármyndun — að miða við aukið fé á innlánsreikningum að meðreiknuðum vöxtum, þetta sé sá eini rétti samanburður. Þetta kemur fram í öllum skýrslum frá Seðlabankanum og samanburði. Samkv. þessum útreikningi hafði aukning sparifjár eða innlána í heild orðið á s. l. ári 67% á móti 57–58% árið áður. Þessar tölur liggja alls staðar fyrir og þýðir ekkert fyrir hv. þm. að vera að reyna að breyta þessum niðurstöðum með einhverjum blekkingum.

Það, sem ég sagði, er ég vitnaði í leiðara hv. þm. sem hann auðvitað sér eftir að hafa skrifað, var að þá hafi hann haft spurnir af því, að fyrstu mánuði ársins 1980 hefði sparifjármyndun — og ég býst við að hann hafi þá reiknað án vaxta — orðið heldur minni en á sama tíma árið á undan. Þessi þróun allra fyrstu mánuði ársins í fyrra átti því að sanna algert vantraust þjóðarinnar á efnahagsstefnunni. Ef hv. þm. vildi vera samkvæmur sjálfum sér ætti hann auðvitað að viðurkenna það, að hin mikla aukning sparifjár á s. l. ári, þegar upp er staðið í árslok, verði traustsyfirlýsing. En hann er ekki maður til að viðurkenna það.

Hann segir að þetta stafi af hækkuðum vöxtum. Hvernig var vaxtaþróunin á síðasta ári? Samkv. kenningu hávaxta- og raunvaxtamanna átti að hækka vexti á þriggja mánaða fresti á s. l. ári. Ríkisstj. neitaði tillögum um að hækka vexti 1. mars í fyrra. Hún neitaði tillögum um að hækka vexti 1. sept., hún neitaði 1. des. og hún neitaði í lok ársins. Það var í eitt einasta skipti sem ríkisstj. féllst á tillögur um að hækka vexti. Það var 1. júní og þó minna en farið var fram á. Þetta eru staðreyndir sem fyrir liggja.