14.04.1981
Sameinað þing: 76. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3753 í B-deild Alþingistíðinda. (3850)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan geta þakkað hæstv. iðnrh. fyrir úrlausn í þessu máli, en hann vann það afrek að tala hér í hálftíma og komst þó algerlega hjá því að gera grein fyrir því sem ég spurði um. Auðvitað kom hæstv. ráðh. víða við og kom m. a. inn á ágreining sem er á milli okkar um skipulag raforkuvinnslunnar. Við höfum rætt það oft og ég held að við höfum rætt það á síðasta þingdegi fyrir páska í fyrra svo að ég ætla ekkert að koma inn á það.

Það, sem hæstv. ráðh. gerði sér einkum tíðrætt um, var starfsemi og tillögur starfshóps sem hann kallaði svo. Það mun vera einhver nefnd sem nú er tíðkað að kalla starfshóp. Það var góðra gjalda vert að segja frá þessu þó að við gætum lesið það í þeirri skýrslu sem hann vitnaði til. En ég vil í þessu sambandi vekja sérstaka athygli á því, að það var miklu meiri ágreiningur í þessum starfshópi en hæstv. ráðh. vildi vera láta. Það var ágreiningur um grundvallaratriði í þessu máli. Sá ágreiningur var gerður af þeim manni sem maður skyldi ætla fyrir fram að væri þýðingarmestur í þessu sambandi, kynni best til verka og hefði mesta reynslu í þessum efnum, því að þar átti hlut að máli sjálfur orkumálastjóri.

Það er rétt að vekja athygli á því, að svo veikur var málflutningur hæstv. ráðh. að hann virtist gera tilraun til að koma því hér inn hjá hv. þm., að það, sem hann hefði verið að gera með bréfunum góðu, hefði aðeins verið til bráðabirgða. Hann lagði áherslu á að þessir menn, sem voru skipaðir í stjórn, væru bara til eins árs. Hann lagði áherslu á það. Við áttum væntanlega að skilja það þannig að svo væri þessu ævintýri lokið. En í skipunarbréfi til þessara manna er vitnað í starfshópinn góða. En hvað segir starfshópurinn? Starfshópurinn talar um samkv. skýrslunni að tilnefna þrjá menn í stjórn til eins árs í senn. Hæstv. ráðh. fer alveg að tillögu starfshópsins, skipar þá fyrst til eins árs og vitnar í skipunarbréfinu til hugmyndar starfshópsins um framtíð þessarar stjórnar. Ég er ekki að segja þetta hæstv. ráðh. til ámælis í raun og veru, að hann vill gera lítið úr þessu. Hann sér að hann er á þunnum ís í þessu máli og það er kannske ekki nema eðlilegt að hann hagi orðum sínum á þennan veg.

En hvað er grundvallaratriðið, hver er grundvallarágreiningurinn? Það var það sem ég lagði áherslu á. Það var það sem ég vildi fá eitthvað um frá hæstv. ráðh. Það er spurningin um hvort stjórn Orkustofnunar eigi að lúta Alþingi að því leyti, að Alþingi velji stjórnina, eða hvort stjórnin eigi að vera ráðherraskipuð. Þetta er grundvallaratriði. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það verður ekki aukið áhrifavald Orkustofnunar og hún verður ekki gerð að þeirri stofnun sem nauðsynlegt er til þess að hún hafi eitthvað að segja um stefnumótun í orkumálum, nema skipulaginu verði breytt á þann veg að hún lúti þingkjörinni stjórn. Og það eru fleiri en ég á þessari skoðun. Skal ég nú stytta mál mitt um þetta efni. Mér þykir samt rétt að vitna í þá skýrslu sem ráðh. var nú að hampa hér. Í fskj. með skýrslunni eru aths. eða skoðanir orkumálastjóra um þetta efni. Með leyfi hæstv. forseta langar mig til þess að lesa hér upp nokkrar setningar:

„Nú er það svo, að Alþingi hefur um langan aldur kosið sérstakt ráð, orkuráð, til að hafa með höndum verk á sviði orkumála, að vísu býsna takmarkað, sem sé stjórn Orkusjóðs undir yfirstjórn ráðh. Meginverkefni þess var um langan aldur ráðstöfun á því fé sem Orkusjóði var ætlað til að kosta rafvæðingu sveitanna og til að lána til jarðhitaleitar, og er raunar svo enn, þótt nýlega hafi bæst við nokkrar lánveitingar sjóðsins til hitaveituframkvæmda. Nú sér fyrir endann á sveitarafvæðingunni og innan fárra ára munu þeir hafa fengið jarðhita til hitunar sem á annað borð hafa möguleika á því. Enda þótt þessi hefðbundnu verkefni orkuráðs hverfi ekki með öllu munu þau þó dragast verulega saman frá því sem áður var.

Þegar nú upp kemur þörf á varanlegu starfi að stefnumótun í orkumálum, starfi sem að mínu mati þarf að fara fram í nánu samstarfi við Alþingi, ráðh. og sérfræðinga, virðast mér gild rök hníga að því, að núverandi hlutverki orkuráðs verði breytt og því falið þetta verkefni nú þegar hefðbundin verkefni þess dragast saman.

Orkuráð hefur frá upphafi starfað í nánum tengslum við Orkustofnun og einnig haft mikil samskipti við Rafmagnsveitur ríkisins, og Orkubú Vestfjarða eftir að það var stofnað. Ráðið hefur og alla tíð haft náið samstarf við iðnrh. og rn. hans, m. a. situr ráðuneytisstjóri þess fundi ráðsins. Allt eru þetta að mínu mati rök fyrir því að fela fremur orkuráði verkefni en að setja á laggirnar nýtt ráð eða nefnd í þessu skyni. Ég tel að þessi till. um nýtt hlutverk orkuráðs og þau tengsl þess við Orkustofnun, sem hún gerir ráð fyrir og sýnd er á meðfylgjandi línuriti, eigi mætavel heima í áliti nefndar sem endurskoða skal stjórnsýslu Orkustofnunar.“

Það fylgir hér skipurit eins og orkumálastjóri hugsar sér þetta, þar sem orkuráð er sett yfir Orkustofnun. Og það er einmitt þetta sem við, sem stöndum að frv. um ný orkulög, leggjum til. Það er þetta sem deilt er um. Vill Alþingi koma þeirri skipan á, að yfirstjórn Orkustofnunar heyri undir stjórn sem það skipar, eða ekki? Þegar ég sagði hér í upphafi máls míns að hæstv. ráðh. hefði hér talað í hálftíma án þess að koma að kjarna málsins, þá átti ég ekki síst við þetta. Hæstv. ráðh. kom ekkert að þessu. Hann sagði eitthvað á þá leið, að það, sem hann hefði gert með bréfaskriftunum, útilokaði ekki að Alþingi setji Orkustofnun stjórn. Ja, þó að hæstv. ráðh. telji nú ekki að hann taki löggjafarvaldið af Alþingi í þessu efni. Ég þakka ekki fyrir slíkt. En þetta eru tómar vífilengjur. Og ég verð að segja það, að þessi vinnubrögð hæstv. ráðh. eru í hæsta máta ámælisverð. Það er í hæsta máta ámælisvert, að hæstv. ráðh. skuli ekki geta skýrt og gefið frekari skýringar á framferði sínu í þessum efnum heldur en hann hefur gert hér. Þetta segi ég með áherslu vegna þess mikilvægis sem Orkustofnun hlýtur að hafa í allri framkvæmd orkumálanna.