14.04.1981
Sameinað þing: 76. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3754 í B-deild Alþingistíðinda. (3851)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að kveðja mér hljóðs aftur út af þessu efni; enda farið að þynnast hér á bekkjum þingsins. En það var ekki neitt lítið sem hv. 4. þm. Vestf. tók sér hér í munn, að mér þótti, og það gæti verið að menn færi að renna grun í biturleikann og ástæðurnar fyrir þessu upphlaupi hér utan dagskrár á Alþingi í þessu sambandi. Það vill svo til að hv. 4. þm. Vestf., sem hefur mikinn áhuga á orkumálum,— og oft fara okkar sjónarmið saman í þeim efnum, ekki síst að þar þurfi að taka myndarlega á hann á sæti í orkuráði sem honum finnst að hafi heldur lítil verkefni. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En honum má vera það huggun, sem hann tók hér upp í sínu máli áðan, að enginn hefur útilokað að Alþingi setji Orkustofnun þingkjörna stjórn. Og verði það að ráði hefur hv. þm. væntanlega möguleika á að koma þar að málum. Ég er út af fyrir sig á því, að það væri hægt að velja lakari málsvara til þess að skipa slíka stjórn ef ákveðið yrði að setja hana á laggir.

En vegna tilvitnana hv. þm. í sérálit orkumálastjóra í umræddri áfangaskýrslu vil ég aðeins ítreka það, að hann var einn í minni hluta þar í sjö manna hópi að þessu leyti, og það hefur oft komið fram, að orkumálastjóri hefur ekki haft áhuga á því að fá stjórn yfir þessa stofnun, hvorki þingkjörna, að ég hef heyrt, né í öðru formi, og hefur talið að sú skipan, sem verið hefur á liðnum árum, væri æskileg. En ég tel að þessi mál hafi a. m. k. í bráð verið leyst með góðum friði við hann og sú stjórn, sem starfar á mína ábyrgð, geti unnið að því að styrkja stofnunina með góðri samvinnu við orkumálastjóra.