14.04.1981
Sameinað þing: 76. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3755 í B-deild Alþingistíðinda. (3852)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja eitt orð við hæstv. ráðh. út af því, að hann fór að gera því skóna að það gætti einhvers biturleika hjá mér í þessu efni. Hann vildi tengja það því, að ég sæti í orkuráði og orkuráð fengi ekki aukin verkefni. Þetta er mikill misskilningur. Það gætir einskis biturleika. Ég get fullvissað ráðh. um að hann getur notið páskahelgarinnar alveg áhyggjulaus út af þessu. Hann talaði svo um að það gæti kannske orðið breyting í þessu efni. Hver veit? Lengi skal manninn reyna. Það eru ekki nema nokkrir dagar frá því að hæstv. ráðh. hélt uppi töluverðri gagnrýni á frv. um ný orkuver, sem ég talaði fyrir í Ed., og sérstaklega á það atriði, að ekki væri raðað virkjunarframkvæmdum. Hann kom ekki sjálfur með neina röðun. En eftir því sem ég best veit núna er von á frv. frá hæstv. ráðh. um þessar virkjanir þar sem þeim verður ekki raðað. Ráðh. leiðréttir mig ef þetta er ekki rétt. Þannig er það að ég örvænti ekkert um að við getum einhvern tíma orðið sammála um þau mál sem við höfum verið að tala um núna, þegar hæstv. ráðh. hefur áttað sig frekar á þessu.