10.11.1980
Efri deild: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir orð hæstv. samgrh., að það er vissulega fagnaðarefni að víðtæk samstaða hefur náðst um mál þetta. Þó að einn nm. vilji hafa afgreiðsluna með nokkuð öðrum hætti en við hinir, þá er það ekki efnislega fyrst og fremst, heldur telur hann örugglegar um málin búið með því að lögbinda þau ákvæði sem um er fjallað í nál. okkar. Það er alveg rétt, sem hv. þm. gat um, að þessum sjónarmiðum hefur verið hreyft, m.a. úr þessum ræðustól, að huga að því að lögfesta þessi ákvæði, og ég hefði verið til viðræðu um að reyna að taka ýmisskonar fyrirvara upp í 5. gr. fremur en að hafa þetta í nál., ef þannig hefði verið að málinu unnið frá byrjun. En sannleikurinn er sá, að það er fyrst á fimmtudagskvöld sem nokkuð víðtækt samkomulag næst um efnisatriðin, sem auðvitað eru aðalmálið. Og það er ekki fyrr en á föstudagsmorgni, sem ég a.m.k. geri mér grein fyrir því, að hv. 2. þm. Reykn. hugðist gera það að skilyrði fyrir því, að sameiginlegt nál. yrði lagt fram, að þetta yrði fest í lögum. Ef hann hefur áður tekið það fram á nefndarfundum, þá er það mín sök að hafa ekki gert mér grein fyrir því.

Ef betri tími hefði verið til stefnu held ég að við hefðum kannske getað samræmt sjónarmiðin að fullu. En ég a.m.k. var þeirrar skoðunar, að eftir allt, sem á undan var gengið, væri algerlega ómögulegt að fara að taka málið upp enn einu sinni og láta það dragast kannske í nokkra daga til viðbótar, því að ég held að svo mikið hafi verið um þetta mál sagt, að sómi Alþingis verði ekkert meiri að halda áfram um það deilum á þann hátt sem aðeins bryddaði á áðan, en ég vona að verði ekki til þess að fresta þessu máli eða draga þennan fund á langinn. A.m.k. ætla ég algerlega að sneiða hjá þeim deilum sem uppi hafa verið síðustu vikur.

Mér er það ljóst að þetta er flókið mál að því leyti til, að reikningsskil svona stórs fyrirtækis koma manni ókunnuglega fyrir sjónir við fyrstu sýn. Ég skal játa það, að þegar ég kom að þessu máli algerlega ókunnugur sem nm. í hv. fjh.- og viðskn. og fékk öll þessi plögg í hendur, þá tók mig vissulega nokkra daga að átta mig á hvað væri á ferðinni. En sem betur fer hefur verið greitt úr öllum flækjum, og ég held að allir viti núna hvernig mál standa. Það er einmitt þess vegna sem við höfum náð samstöðunni, svo sem fagna ber. Og þá skiptir miklu minna máti hvert formið er, og eins skiptir líka minna máli — eða engu — hvað áður hefur verið sagt, hvort þar hefur verið um misskilning að ræða eða ekki. Þess vegna leggjum við í meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt á þeim grundvelli að 5. gr. frv. verði framkvæmd á þann hátt sem nánar er um fjallað í nál.

Við vitum öll að það eru miklir erfiðleikar hjá þessu fyrirtæki. Ég fyrir mína parta hélt, áður en ég fékk að sjá tölur og kynna mér málið, að hagur fyrirtækisins væri miklu verri en raun ber vitni, því að þrátt fyrir allt er eignarstaða þessa fyrirtækis mjög góð á íslenskan mælikvarða. Það er ríkt fyrirtæki sem betur fer, því fagna allir, þótt töpin hafi verið gífurleg. Og rekstraráætlanir eru líka að mínu mati heldur betri, heldur líklegri til árangurs en ég hafði gert ráð fyrir. Þess vegna er málið allt auðveldara í meðförum. Í raun og veru er engin áhætta tekin fyrir skattborgara landsins þó að þessi ríkisábyrgð sé samþykkt, því að það er alveg ljóst að eignirnar — ef allsherjarveð er í þeim tekið — eru miklu, miklu meiri en skuldbindingar þær sem Alþingi tekst á hendur með samþykkt þessa frv. Þegar þetta varð öllum ljóst var auðvitað miklu greiðari vegur að ná samkomulagi og það hefur blessunarlega tekist.

Það hafa verið miklir annmarkar á samstarfi innan stjórnar félagsins, ekki bara milli stjórnar og starfsmanna, heldur líka meðal starfsmanna sjálfra, milli ýmissa hópa þar. Við skulum ekkert vera að dylja okkur þess. En hvernig ætti líka öðruvísi að vera þegar svona gífurleg áföll dynja yfir og sagt er upp miklum fjölda manna? Menn, sem kannske hafa unnið áratugum saman, eru að missa sína atvinnu. Og hvað sem gert hefði verið hlutu einhverjir að missa atvinnuna. Auðvitað verða menn óánægðir og auðvitað verða átök í svona stórfyrirtæki, einu allra stærsta fyrirtæki landsins. Það gat ekki öðruvísi farið.

Mín von er sú, að þetta séu traustabrestir og þetta uppgjör nú verði öllum til góðs. Og við skulum hafa það í huga, að nú eru að koma að fullu í gildi nýju hlutafélagalögin og þá verða starfshættir í hlutafélögunum með allt öðrum hætti en hingað til hefur tíðkast. Á næsta aðalfundi þessa félags verður viðhöfð margfeldiskosning. Þá þýðir ekkert lengur fyrir einhverjar klíkur að ætla að hóa sig saman og deila atkvæðum sín á milli og ná meirihlutavaldi og ráða þannig öllu félaginu. Það er liðin tíð sem betur fer. Um það sameinaðist Alþingi.

Ég veit ekki hvort allir gera sér grein fyrir hversu víðtæk breyting hefur verið gerð á íslensku hlutafélagalögunum. Ég held að íslensku hlutafélagalögin séu kannske þau frjálslegustu og bestu í víðri veröld. Ég tala þar af svolítilli reynstu af því að ég hef kynnt mér hlutafélagalöggjöf bæði í Bandaríkjunum og í Evrópulöndum. Við skulum þess vegna ekki ímynda okkur að það verði átakalaus fundur hjá Flugleiðum. Þar verða stórátök. En ég segi aftur: Ég á von á því, að það verði traustabrestir, þá fá allir hluthafar að sjá að þeir eru ekki bara peð, þeir eru ekki valdalausir. Hver einasti maður hefur þar sitt atkvæðamagn.

Svo er það spurningin um takmörkun á atkvæðamagni hvers einstaks hluthafa. Ég hef um langt árabil reynt að berjast fyrir því að takmarka mjög atkvæðisrétt stórra hluthafa í félögum eins og þessu. Það komst því miður ekki fram við endurskoðun hlutafélagalöggjafarinnar. Hins vegar er algert bann við því að setja hömlur á meðferð hlutabréfa í félögum, þar sem fleiri hluthafar eru en 300, samkv. nýju lögunum. Það er algert bann við því að nota atkvæðisrétt fyrir hluti sem félögin eiga sjálf o.s.frv.

Við þetta frv., sem hér var geysimikið unnið að, voru gerðar hvorki meira né minna en 70 brtt. sem samþykktar voru, en frv. var að mestu byggt á félagarétti Norðurlanda. Þess vegna er nýr tími fram undan. Það er tími þar sem hver og einn einasti hluthafi — og vonandi verða allir starfsmenn hluthafar — hefur sitt atkvæðamagn. Hann þarf ekki endilega að mæta sjálfur á fundi í félaginu, hann hefur leyfi til að veita öðrum umboð. En það geta engir tiltölulega stórir hópar, skutum við segja, hóað sig saman og náð 50% af því atkvæðamagni, sem þeir búast við að verði á hluthafafundi, og ráðið svo öllu, vegna þess að lítill minni hl. getur alltaf komið einum manni í stjórn hvernig sem hinir greiða atkv.

Það er aðeins eitt atriði efnislega sem ég vil sérstaklega benda á, og að því vék formaður nefndarinnar og frsm. meiri hl. Það eru þessar upphaflegu 196 millj. í lendingargjöldum sem mér skilst að samið hafi verið um í marsmánuði á þessu ári milli íslenskra yfirvalda og yfirvalda í Lúxemborg að felldar yrðu niður. Mér finnst varla stætt á því gagnvart erlendum aðila, þegar hann er búinn að fella slík gjöld niður og jafnvel endurgreiða fé, að segja að íslensk stjórnvöld standi ekki við það sem þau hafa sagt þar. Á það er bent, að annað komi í staðinn. Það er ekki fullnægjandi að mínum dómi, jafnvel þótt svo væri. Ég mundi miklu frekar segja: Það á að standa við þetta fyrirheit og taka þá fjármagnið af þessu fyrirtæki á næstu árum með einhverjum öðrum hætti.

Það hefur verið aðalsmerki Íslendinga þrátt fyrir allt að standa við fjárskuldbindingar gagnvart erlendum aðilum, og ég hygg að segja megi um gjaldeyrisbankana íslensku, að þeir hafi alltaf séð um það — ef um erlendar skuldbindingar var að ræða hver sem í hlut átti og bankarnir voru í ábyrgð — að staðið hafi verið við greiðslu á réttum gjalddögum, jafnvel þótt skuldarinn gæti ekki staðið í skilum. Ég held að við getum ekki látið þetta mál frá Alþingi fara öðruvísi en við vitum — hvort sem það er nú sett í frv. og því breytt eða ekki — að við þetta verði staðið, ekki endilega svo, að það megi ekki eiga bakkröfu á Flugleiðir síðar meir ef félagið verður fært um að greiða féð, það er mér hjartanlega sama um, en að gagnvart stjórnvöldum í Lúxemborg sé það sýnt og sannað, að Íslendingar hafi staðið við allt sem þeir hafi sagt.

Að lokum vil ég taka undir það sem hér hefur komið fram, að líf eða dauði þessa félags veltur auðvitað á því, að sæmilegur samstarfsandi verði og að sneitt verði hjá verkföllum og hörkuátökum. Ég er búinn að ræða undanfarna daga við svo marga menn sem starfa hjá Flugleiðum eða eru þeim tengdir — af því að ég þekki suma þeirra frá gamalli tíð þó að ég hafi lítil eða engin tengsl haft við þá núna mörg, mörg ár — að ég er sannfærður um að allt þetta fólk hugsar nú sitt ráð og það vill að fullur friður skapist og að félagið eflist sem mest. Það viðurkennir auðvitað að það er sumpart af hagsmunaástæðum, en líka vegna þess að þrátt fyrir allt og allt þykir þessu fólki auðvitað vænt um þetta félag sitt — eins og okkur þykir öllum innst inni vænt um þessi félög og það stórvirki sem unnið hefur verið í íslenskum flugmálum af mörgum hópum — og áður af fleiri en einu félagi. Kannske var sameiningin gerð illu heilli. En það er búið og gert. Þess vegna vona ég að allir geti tekið undir orð Jóhannesar Snorrasonar, þess ágæta flugmanns sem nú var að hætta, þegar hann skoraði á samstarfsfólk sitt fyrrverandi og núverandi að sameinast nú um að gera hag þessa félags sem allra bestan.