27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3765 í B-deild Alþingistíðinda. (3861)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara þeim spurningum sem komu fram hjá hv. 1. þm. Vestf. sem talaði um þetta mál og reyndar fleiri allvítt og breitt af þekkingu, eins og hans er von og vísa.

Hv. þm. gerði mikið úr því, að með þessu frv. væri verið að eyðileggja Verðjöfnunarsjóðinn. Ég hygg að það sé allt of djúpt í árinni tekið. Ég er honum sammála um mikilvægi Verðjöfnunarsjóðsins og get tekið undir ýmislegt sem hann sagði um greiðslur í sjóðinn. Til dæmis er ég þeirrar skoðunar, að af saltfiski hefði átt að greiða í sjóðinn nú. Stjórn sjóðsins tók sína ákvörðun áður en það endanlega verð lá fyrir sem síðan fékkst, sem varð nokkru hærra en menn höfðu gert ráð fyrir. Ég sá ekki ástæðu til þess, enda kom engin ósk fram um slíkt, að sú ákvörðun yrði tekin til endurskoðunar á miðju verðlagstímabilinu. Vel má vera að það hefði átt að gera, ég get út af fyrir sig tekið undir það. Og mér sýnist að af saltfiski ætti að greiða nú í verðjöfnunarsjóðsdeild hans.

Ég vil hins vegar fullvissa hv. þm. um það, að ekki stendur til — og ég hef marglýst því yfir — að færa fjármagn á milli deilda í Verðjöfnunarsjóði. Það er rétt sem hv. þm. sagði, að vegna þess viðmiðunarverðs, sem ákveðið var fyrir frystan fisk, mun vanta nokkuð á í þeirri deild í lok þessa verðlagstímabils. Áætlunin, sem hann nefndi, upp á rétt rúma þrjá milljarða, er rétt. Hins vegar liggur ekki fyrir endanleg tala, sem stafar m. a. af því að ekki liggur ljóst fyrir hve mikið hefur verið fryst. Nokkuð hefur dregið úr frystingu og því er mat manna að þessi tala kunni að verða nokkru lægri. Í athugun er á vegum stjórnvalda hvernig þessa fjármagns verði aflað og hefur verið rætt við aðila um það. Þau mál eru ekki komin nægilega langt til að ræða þau nú, en að sjálfsögðu verður að losa deildina undan þessum bagga í lok verðlagstímabilsins.

Hv. frsm. minni hl. spurði hér áðan hvort ég væri með í huga breytingar á Verðjöfnunarsjóðnum, og fram kom hugmynd hjá honum um slíka breytingu, þ. e. að leggja nokkuð í sameiginlega deild. Þessu hefur aðeins verið hreyft einu sinni eða tvisvar áður í mín eyru, en ég hef ekki undirbúið neina slíka breytingu og hún verður ekki gerð nema samstaða náist um það með þeim hagsmunaaðilum sem þarna eiga hlut að máli.

Aðalatriðið hér er að sjálfsögðu það frv., sem fyrir liggur, og sú millifærsla, sem í hækkun útflutningsgjaldsins felst. Ég get út af fyrir sig einnig tekið undir það, að varast beri slíka millifærslu. Þó má færa rök fyrir því, að slík greiðsla eigi ekki að vera jafnhá á allar afurðir. Ég er ekki einn um að segja það. Þetta hafa satt að segja ýmsir nefnt, m. a. hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, þó menn séu sammála um þá skipan, sem nú er á útflutningsgjaldi, út af fyrir sig. En ég vek athygli á því, að vinnuliður er allmiklu hærri í frystingu sjávarafurða en í skreiðarverkun. Hins vegar rennur útflutningsgjaldið að öllu leyti til þarfa sjávarútvegsins, til útgerðarinnar og sjómanna, á einn máta eða annan, eins og því er skipt samkvæmt lögum. Þess vegna hafa vinnslumenn minnst á það, að raunar væri kannske eðlilegra að leggja þetta eingöngu á aflaverðmæti. Ég hef ekki slíka breytingu í huga, en tel þó þetta geta verið rökstuðning fyrir því að gera tímabundið nokkra millifærslu, m. a. með tilliti til þess, hve frystingin er gífurlega þýðingarmikil og langþýðingarmest af greinum sjávarútvegsins fyrir atvinnu um land allt.

Mönnum er að sjálfsögðu ljóst að staðan að þessu leyti var óvenjuerfið við fiskverðsákvörðun nú. Það var meiri munur á afkomu frystingar annars vegar og hins vegar skreiðar fyrst og fremst og reyndar saltfisks einnig, sérstaklega eftir að meiri verðhækkun fékkst en menn höfðu gert ráð fyrir og verið hefur áður. Hérna er um það að ræða að lagfæra nokkuð fyrir frystinguna að öðrum leiðum en að fella gengið. Ég held að menn verði hreinlega að horfast í augu við það. Ríkisstj. taldi sér ekki fært að fella gengið eins og nauðsynlegt hefði verið til þess að veita frystingunni lágmarksafkomugrundvöll. Því var horfið að því að færa á milli, vissulega jafnframt í þeirri von — að vísu umdeilt — að vera kunni fram undan nokkur hækkun á frystum afurðum.

Nokkuð skiptar skoðanir eru um þetta, en staðreyndin er þó sú, að bilið á milli verðs á íslenskum frystum afurðum á Bandaríkjamarkaði og kanadískum hefur verulega minnkað og þótt ekki sé það nægilegt til þess að menn geti treyst á verðhækkun á frystum afurðum okkar Íslendinga, þá gefur það og fleira þó undir fótinn með þá von, ef ég má orða það svo, að nokkur hækkun geti orðið á frystum afurðum þar sem í dollurum hefur nánast engin verið í hartnær tvö ár. Það ástand, sem þar hefur verið á markaði, veldur okkur að sjálfsögðu mjög miklum erfiðleikum sem við verðum að vona að á einn eða annan máta ráðist fram úr, — ég segi: einn eða annan máta, fyrst og fremst vitanlega með verðhækkun eða með því að koma meiru af frystum afurðum inn á aðra markaði sem greiða meira fyrir fiskinn. Það er þó því miður ekki líklegt þótt ötullega sé unnið að því að skapa markaði fyrir frystar afurðir í Evrópu.

Þessi millifærsla lá fyrir aðilum í verðlagsnefnd þegar málið var þar til meðferðar og var ekki mótmælt og var tekið með í þá mynd sem þar var dregin upp af afkomu hinna ýmsu greina. Að sjálfsögðu er ljóst að skreiðarframleiðendur leggjast gegn þessari millifærslu. Það er út af fyrir sig skiljanlegt. En af þeim aðilum, sem þar sátu, m. a. fulltrúum framleiðenda, var þessu út af fyrir sig ekki mótmælt sem tímabundinni millifærslu vegna þess ástands sem nú er og ég hef lýst og er, vona ég, óvenjulegt á mörkuðum okkar.

Ég vil því taka undir það sem kom fram hjá hv. frsm. minni hl., að hér er um tímabundna millifærslu að ræða sem eingöngu nær til framleiðslu þessa árs og fellur svo úr gildi. Ég vona sannarlega að ekki þurfi að koma til þess að henni verði áfram haldið.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að ýmislegt hefur verið og er óljóst í sambandi við skreiðarsölu. Sá markaður hefur verið ótryggur. En það er nú skoðun þeirra manna, sem gerst þekkja, að þar hafi orðið mjög mikil breyting til batnaðar. Það er hins vegar einnig rétt, að fram hafa komið hugmyndir í Nígeríu um hámark á verð á skreið, sem kann að kosta okkur nokkuð. Þetta getur vitanlega leitt til þess, að endurskoða verði t. d. ákvarðanir Verðjöfnunarsjóðs og jafnvel þessar ef svo fer að veruleg verðlækkun verður á skreið. Staðreyndin er sú, að þegar um er að ræða framleiðslu eins og skreið, þar sem sveiflur geta orðið töluverðar, verða stjórnvöld og þeir aðilar, sem fjalla um greiðslu t. d. í Verðjöfnunarsjóð, að vera reiðubúnir að endurskoða sína afstöðu og sínar niðurstöður. Það verður að vera viss sveigja. Ég vil því halda því fram, að alls ekki sé um þá hættu fyrir Verðjöfnunarsjóð að ræða sem hv. þm. gerir mikið úr í sínum ræðum.

Hv. þm. spurði einnig um atriði sem er að verulegu leyti óskylt þessu, þ. e. hugmyndir mínar um aldurslagatryggingu og Úreldingarsjóð. Ég hef reyndar rætt þetta við hv. þm. og farið fram á það, að hann taki þátt í að endurskoða tekjuöflun og reglur sem gilda um þessa sjóði. Hann lýsti áðan hugmyndum sem ég get tekið undir með honum að ber að athuga. Ég vil hins vegar alls ekki, áður en slík athugun fer fram, lýsa því, hvaða breytingar ég tel að eigi að gera á þessum sjóðum. Ég hef beðið fleiri aðila að taka þátt í þessu og er einmitt þessa dagana að fá svör þeirra við því. Það er allt jákvætt, menn vilja skoða þetta, og ég geri ráð fyrir að skipa menn alveg næstu daga til að hefja þessa athugun. Hv. þm. er starfandi í þessum sjóðum báðum og gjörþekkir þeirra starfsemi. Ég tel mikils virði að hann hefur samþykkt að taka þátt í að athuga það starf sem þarna fer fram.

Um þær breytingar, sem kunna að verða gerðar, vil ég aðeins segja það, að ég tel að það eigi að efla þessa sjóði og a. m. k. auka samstarf þeirra. Ef til vill mega þeir renna saman. Ég tel nauðsynlegt að efla þessa sjóði, m. a. til þess að endurnýjun bátaflotans geti orðið meiri en annars yrði, þ. e. án þess að flotinn stækki. Ég tel að endurnýjun bátaflotans sé svo gífurlega mikilvægt verkefni að verja beri töluverðu fjármagni til þess að taka úrelta báta úr notkun. Við höfum dregist þar aftur úr og við höfum ekki efni á því.