27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3769 í B-deild Alþingistíðinda. (3863)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Mér er það alveg ljóst, að þessi breyting á útflutningsgjaldinu á aðeins að gilda fyrir árið 1981 samkv. þessu frv. En ég sagði að því, sem einu sinni væri komið, einu sinni hefði verið gert, því yrði haldið áfram. Og það er ekkert sem bendir til þess nú, því miður, að afkoma sérstaklega frystideildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins verði betri um næstu áramót en hún var í upphafi þessa árs, nema síður sé. Allir sjá að þó þróun mála verði lík og hún hefur verið frá áramótum kemur frystideildina til með að vanta stórfé til þess að standa við sitt viðmiðunarverð. Hæstv. sjútvrh. og hv. 4. þm. Suðurl., formaður sjútvn., hafa í reynd báðir lýst því yfir, að þeir telji þessa aðferð vera hina mestu vandræðaaðferð, og telja að þetta eigi aðeins að gilda þann tíma sem frv. sjálft segir til um. Þeir láta alveg tvímælalaust að því liggja, að sagan muni ekki endurtaka sig. Við skulum vona að það standist. Ég er þó ákaflega hræddur um hið gagnstæða nema aðrar og betri ytri aðstæður skapist í þjóðfélaginu á þessu ári. En miðað við það, sem nú er, er ég hræddur um að orð mín verði staðfesting á því, að þetta verði endurtekið.

Ég vildi líka aðeins láta það koma fram, að nú á þetta nýja útflutningsgjald að gilda frá áramótum eða á framleiðslu ársins 1981. Nú hlýtur eitthvað af framleiðslu frá áramótum að vera farið úr landi. Þá tel ég fyrir mitt leyti eðlilegt að ekki sé hægt að láta hið nýja útflutningsgjald verka aftur fyrir sig á þær afurðir sem farnar eru úr landi og greitt hefur verið útflutningsgjald af samkv. gildandi lögum. Ég vil aðeins spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann sé ekki sama sinnis og ég hvað þetta varðar, hins vegar muni, ef frv. þetta verður að lögum, verða tekið gjald af þeim afurðum sem ekki eru þegar farnar úr landi og framleiddar hafa verið á þessu ári.