27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3770 í B-deild Alþingistíðinda. (3866)

232. mál, eiturefni og hættuleg efni

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá heilbr.- og trn. um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 85 frá 1968, um eiturefni og hættuleg efni. Nefndin fjallaði um frv. á einum fundi og varð sammála um að mæla með samþykkt þess eins og það kom frá Ed.

Fjarverandi afgreiðslu málsins voru hv. þm. Pálmi Jónsson, Matthías Bjarnason og Pétur Sigurðsson. Hér er um að ræða frv. sem er samið að tillögum eiturefnanefndar og að fengnu áliti Lyfjaeftirlits ríkisins og lyfjanefndar sem telja brtt. þessa mjög til bóta. Lög frá 1968, nr. 85, um eiturefni og hættuleg efni, taka til skráningar á „eiturefnum og hættulegum efnum“, eins og þar segir, en innihald þessa frv. er að við bætast efni sem síðan hafa komið til sögunnar, svonefnd aflífunarefni, er dýralæknar og aðrir, t. d. loðdýraræktendur, þurfa á að halda við aflífun dýra.

Einnig er skráningarskylda tekin upp á hluta lífvera eða örvera sem notaðar eru sem plöntulyf, svokölluð örgresisefni, stýriefni eða útrýmingarefni. Jafnframt er talað hér um skráningarskyldu ýmissa efna sem tekin hafa verið upp við hvers kyns iðnað, svo sem lökk og annað fleira.

Nefndin taldi að ekki væri ástæða til annars en mæla eindregið með að þetta frv. næði fram að ganga eins og hv. heilbr.- og trn. Ed. hafði lagt til og deildin samþykkt.