27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3771 í B-deild Alþingistíðinda. (3868)

234. mál, fjáröflun til vegagerðar

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 466 ásamt hv. 1. landsk. þm., Pétri Sigurðssyni, frv. sem efnislega felur það í sér að þungaskattur af strætisvögnum verði felldur niður. En eins og kunnugt er eru í gildi ákvæði þess efnis, að af bifreiðum, sem nota annan orkugjafa en bensín, skuli greiða ákveðinn þungaskatt, eins og nánar er tilgreint í lögum um fjáröflun til vegagerðar.

Þetta mál hefur verið mjög lengi í umræðum og talið sanngjarnt af mjög mörgum að strætisvagnar, sem nær eingöngu keyra í þéttbýli og á gatnakerfi sem sveitarfélögin sjálf standa undir bæði að byggja upp og viðhalda, verði ekki látnir greiða þungaskatt sem notaður er til vegagerðar úti um land. Strætisvögnum er ætlað að veita almenningi sjálfsagða þjónustu og það er reynt að láta þessa þjónustu í té á sanngjörnu verði. Ríkisvaldið hefur einnig um langan tíma haldið niðri með verðlagsákvörðunum fargjöldum slíkra vagna. Á sama tíma tekur ríkissjóður talsverðan skatt af þessari starfsemi í formi þungaskatts, tolla af bifreiðum og í formi söluskatts.

Hér er fyrst og fremst um að ræða fjögur fyrirtæki, eins og nánar segir í grg.: Í fyrsta lagi Strætisvagna Reykjavíkur, en gert er ráð fyrir að þeir muni á þessu ári greiða um 100 millj. gkr. í þungaskatt. Í öðru lagi Landleiðir sem aka innan Hafnarfjarðar og milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur með viðkomu í Kópavogi og Garðabæ. Þær munu væntanlega greiða um 24 millj. gkr. á þessu ári. Í þriðja lagi Strætisvagna Kópavogs sem keyra innan Kópavogs og milli Kópavogs og Reykjavíkur og greiða væntanlega um 20 millj. gkr. Og í fjórða lagi Strætisvagna Akureyrar sem greiða um 5 millj. gkr.

Ég sagði áðan að þetta mál hefði lengi verið í umræðum manna á milli. Reyndar leit svo út um tíma að þetta mál væri komið í höfn, því að núv. hæstv. iðnrh. — sem þá átti reyndar sæti í annarri ríkisstj., vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar — lét þetta mál mjög myndarlega til sín taka á sínum tíma. Ég vil rifja það upp, að sú ríkisstj. lét gera nokkuð víðtæka áætlun um aðgerðir til orkusparnaðar sem var kynnt mjög myndarlega í júní 1979, gott ef hæstv. iðnrh. hélt ekki sérstakan blaðamannafund til þess að kynna aðgerðir sem fyrirhugaðar voru á þessu sviði. Í þeirri áætlun, sem samþykkt var af ríkisstj. segir í tölul. 4.2 orðrétt, með leyfi forseta:

„Frá og með 1. jan. 1980 verður þungaskattur felldur niður af bifreiðum sem stunda reglulegan áætlunarakstur í þéttbýli.“

Það var ekki skorið utan af þessari yfirlýsingu hæstv. iðnrh. Það var sagt: „verður þungaskattur felldur niður af bifreiðum.“ Nú er liðið ár og vel það frá því að þetta átti að koma til framkvæmda samkv. skýlausu og ákveðnu loforði hæstv. iðnrh., en ekkert hefur enn bólað á framkvæmdum. Ég vil því sérstaklega spyrja hæstv. iðnrh. hvernig standi á því, að ekki hafi verið gengið til þess að framkvæma svo ákveðna yfirlýsingu eins og hann gaf á sínum tíma. Ég geri mér að vísu grein fyrir því, að það er önnur ríkisstj. sem situr nú, en hann gegnir nú sama ráðherraembætti og hann gegndi í þeirri ríkisstj. Ég óska eftir því, að hann upplýsi hér hvernig á því stendur, hvort hér sé um að ræða stefnubreytingu af hans hálfu eða ríkisstjórnarinnar í heild að þessu leyti.

Ég vil geta þess, að stjórn Strætisvagna Reykjavíkur skrifaði öllum þm. Reykv. bréf í des. s. l. þar sem vakin er athygli á þessu máli og minnt á að stjórnin hefði samþykkt einróma áskorun til stjórnvalda um að téður skattur yrði felldur niður við samþykkt fjárlaga fyrir næsta ár. Þetta var gert í des., en fjárlög hafa verið samþykkt án þess að tekið væri tillit til þessa.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég ítreka fsp. mína til hæstv. ráðh., en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. þessarar deildar.