27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3773 í B-deild Alþingistíðinda. (3871)

234. mál, fjáröflun til vegagerðar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef áður, fyrir nokkrum árum, flutt sams konar till. og hér um ræðir á þskj. 466. Ég gerði það þá samkv. einróma samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur. Ástæðan fyrir því, að ég kem upp nú, er sú, að mér fannst gæta sams konar misskilnings hjá hæstv. fjmrh. og fram kom við andmæli þá, en hann talaði um að ekki væri óeðlilegt að strætisvagnar greiði eins og aðrar þungavörubifreiðar sem nota þjóðvegakerfið. Ég vil undirstrika það sem kemur hér fram í grg. hjá hv. flm., en þar stendur, með leyfi forseta:

„Flestir strætisvagnar fara aldrei út fyrir gatnakerfi þéttbýlis og aka svo til eingöngu eftir götum, sem viðkomandi borgar- eða bæjarsjóður kostar að öllu leyti, bæði lagningu og viðhald.“

Af þessum mannvirkjum sveitarstjórna á ríkið ekki að hafa neinar sérstakar tekjur. Ég vil undirstrika þetta. Annað er ósanngjarnt. Ég legg eindregið til að þetta frv. til l. á þskj. 466 verði samþykkt. Það er sanngirnismál.