28.04.1981
Efri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3777 í B-deild Alþingistíðinda. (3879)

301. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breytingu á umferðarlögum, er samið af umferðarlaganefnd. Frv. er flutt sem stjfrv., en hins vegar hafa einstakir ráðh. gert fyrirvara um afstöðu sína til einstakra atriða frv. og skal þess þegar getið.

Frv. þetta er eins og áður segir samið af umferðarlaganefnd, en þá nefnd skipaði ég 15. sept. s. l. til að vinna að heildarendurskoðun umferðarlaganna svo og reglugerðar samkv. þeim eftir því sem ástæða þykir til. Voru skipaðir í nefndina fimm menn undir forsæti Sigurjóns Sigurðssonar lögreglustjóra í Reykjavík.

Gildandi umferðarlög eru að stofni til frá árinu 1958 og undirbúin á árunum 1955–1956, en einstakar breytingar hafa þó verið gerðar á þeim og þó helstar vegna umferðarbreytingarinnar 1968. Tímabært var því að hefja undirbúning að heildarendurskoðun umferðarlaganna, hvort heldur er á grundvelli eigin reynslu okkar, en þó ekki síður á grundvelli alþjóðlegra reglna á þessu sviði, en árið 1968 var gerð í Vínarborg alþjóðasamþykkt um umferð er felur í sér ýmsar breytingar á umferðarreglunum. Hafa ýmsar nágrannaþjóðir okkar unnið að og lokið endurskoðun umferðarlaga sinna undanfarin ár, Finnar nú síðast í vetur. Umferðarlaganefndin á þannig fyrir höndum mikið starf sem hún hefur þegar hafið. Hefur nefndin m. a. skrifað fjölmörgum aðilum, sem um umferðar- og umferðaröryggismál fjalla með einum eða öðrum hætti, og óskað tillagna þeirra og ábendinga um nauðsyn endurbóta á umferðarlögum svo og álits þeirra á gildandi ákvæðum og reynslu af þeim. Er mér kunnugt um að nefndin hefur þegar fengið í hendur ýmsar ábendingar og tillögur sem hún mun að sjálfsögðu taka til meðferðar í starfi sínu.

Umferðarlaganefndin taldi rétt að taka þegar til meðferðar þau atriði sem koma fram í frv. því sem hér liggur fyrir. Þessi atriði varða í fyrsta lagi skyldu ökumanns og farþega í framsæti bifreiðar til að nota öryggisbelti, í öðru lagi heimild til að aka reiðhjóli á gangstéttum og gangstígum og loks aðild heilbrigðisyfirvalda að Umferðarráði. Leyfi ég mér að fara nokkrum orðum um þessi atriði, en vísa að öðru leyti til grg. með frv.

Þýðingarmest atriðanna eru þau ákvæði er fela í sér skyldu ökumanns og farþega í framsæti bifreiðar, sem búin er öryggisbelti til að nota beltið. Bifreiðar hafa um alllangt skeið verið búnar öryggisbeltum og lagafyrirmæli hafa verið í gildi hér á landi um það efni frá ársbyrjun 1969. Ekki mun um það deilt, að notkun belta getur dregið úr afleiðingum umferðarslysa. Hald manna var löngum að notkun belta yrði almenn með viðurkenningu á gildi beltanna samfara kynningar- og áróðursstarfi. Reyndin hefur hins vegar orðið önnur. Því hefur í mörgum löndum verið farin sú leið að lögákveða skyldu til að nota beltin. Svo hafa t. d. nágrannar okkar á Norðurlöndum gert. Lögfestu þjóðþing þeirra ákvæði um skyldunotkun öryggisbelta er tóku gildi á tímabilinu frá 1. jan. 1975 til 1. jan. 1976. Eru þau ákvæði, í meginatriðum samhljóða og byggð á ítarlegum greinargerðum og tillögum frá norræna umferðaröryggisráðinu.

Hér á landi hefur nokkur umræða orðið um það á undanförnum árum, hvort lögfesta eigi skyldunotkun öryggisbelta. Hefur þar eins og svo oft annars farið svo, að skoðanir hafa reynst skiptar. Notkun öryggisbelta hér á landi er hins vegar ekki veruleg. Ekki hafa verið gerðar miklar athuganir á því, hversu almenn notkunin er, en í febrúarmánuði stóð Umferðarráð að slíkri athugun. Náði athugunin til 1556 bifreiða sem búnar voru beltum, og reyndust 9.4% ökumanna hafa notað belti, en 10.9`% farþega í framsæti. Hlutfallstalan var lítillega hærri utan þéttbýlis en í þéttbýli.

Reynsla annarra þjóða hefur hvarvetna verið sú, að notkun öryggisbelta verður ekki veruleg án lagaskyldu. Frv. þetta er því byggt á þeirri reynslu svo og því að aukin notkun belta dregur úr fjölda látinna og slasaðra í umferðinni. Rétt er hér að geta þess, að Umferðarráð hefur að sjálfsögðu fjallað um þetta efni og á fundi í nóv. s. l. gerði það svofellda ályktun einróma:

„Umferðarráð samþykkir að mæla með því að notkun öryggisbelta í framsætum bifreiða verði hið fyrsta lögboðin. Umferðarráð vísar til þess:

1. Að brýna nauðsyn ber til að vinna gegn hörmulegum afleiðingum umferðarslysa.

2. Að sannað er, m. a. með læknisfræðilegum rannsóknum, að með notkun öryggisbelta má draga verulega úr fjölda látinna og slasaðra ökumanna og farþega í framsætum bifreiða.

3. Að ekki er fyrirsjáanlegt að fram komi annar búnaður til öryggis er komið geti í stað öryggisbelta.

4. Að öryggisbelti eru í öllum fólksbifreiðum og sendi bifreiðum sem skráðar hafa verið eftir 1. jan. 1969 eða í a. m. k. 80% slíkra bifreiða.

5. Að ekki er unnt með kynningu eða áróðri eða endurbótum á gerð öryggisbelta að auka svo að fullunandi verði talið notkun þeirra umfram þá notkun sem nú er.

6. Að Norðurlandaráð hefur mælt með því að komið verði á lögboðinni notkun öryggisbelta.

7. Að annars staðar á Norðurlöndum og í mörgum ríkjum öðrum hafa verið í gildi ákvæði er mæla fyrir um notkun öryggisbelta í framsætum bifreiða.

8. Að reynsla þessara þjóða af lögboðinni notkun öryggisbelta er góð.

Af framangreindum ástæðum hvetur Umferðarráð til þess að notkun öryggisbelta í framsætum bifreiða verði hið fyrsta lögboðin og að við mótun lagareglna um þetta efni verði fylgt tillögum norræna umferðaröryggisráðsins og þær lagaðar að séríslenskum aðstæðum. Ákvæði frv. um þetta efni eru, eins og áður segir, í samræmi við hliðstæð ákvæði er þegar hafa verið lögtekin annars staðar á Norðurlöndum. Notkunarskyldu er þannig ætlað að taka til þeirra er sitja í framsæti bifreiða sem búnar eru öryggisbelti. Skyldan tekur einungis til bifreiða í akstri, þ. e. bifreiða á hreyfingu, þó ekki við akstur aftur á bak. Ákvæðinu er einungís ætlað að gilda um akstur á vegum, svo sem það hugtak er skilgreint í umferðarlögum, þannig að við það er miðað að vegurinn eða umhverfið sé ætlað til almennrar umferðar. Hins vegar er gert ráð fyrir að akstur á bifreiðastæðum og við bensínstöðvar eða viðgerðarverkstæði sé undanþeginn notkunarskyldu.

Frv. gerir ráð fyrir að þeir, sem yngri eru en 15 ára eða lægri en 150 sm, verði undanþegnir notkunarskyldu. Kemur þar bæði til hliðsjón af sakhæfisreglu og svo það, að belti hafa til þessa einungis að takmörkuðu leyti verið sniðin fyrir lágvaxið fólk þótt nýrri gerðir belta henti því betur. Til álita hefur komið að gera óheimila setu þessa fólks í framsæti án beltis þannig að það verði að sitja í aftursæti ef það vill ekki nota belti, en á þessu stigi þótti rétt að miða við sömu reglur og víða tíðkast um þetta efni. Frv. undanþiggur akstur í leigubifreiðum til mannflutninga og er það einnig í samræmi við það sem víðast tíðkast. Er þessi undanþága þó umdeild, en bent er einkum á þá hættu sem leigubifreiðastjórum er búin vegna líkamsárásar farþega.

Loks er gert ráð fyrir að ráðh. geti sett reglur er heimila undanþágur fyrir ákveðna einstaklinga, og eru þá hafðar í huga einstaklingsbundnar undanþágur byggðar á læknisfræðilegu mati. Rétt er að taka fram að hér er gert ráð fyrir að ráðh. setji um þetta ákveðnar reglur, en hann á hins vegar ekki að fjalla um einstakar undanþágur. Loks er gert ráð fyrir að ráðh. geti sett reglur um undanþágur við sérstakan akstur eða við erfið og hættuleg skilyrði. Er þar m. a. tilnefndur akstur lögreglumanna við tiltekin skilyrði, svo sem við flutning fanga eða handtekinna manna eða sérstaka öryggisgæslu, en hins vegar ekki almennan akstur í lögreglubifreiðum. Þá er og tilnefndur akstur þar sem hætta þykir á snjóflóði, grjóthruni eða skriðuföllum eða við mjög erfið veðurskilyrði og má þar nefna kunnar íslenskar aðstæður, svo sem í snjóbyl og ófærð.

Að því er varðar áhrif vanrækslu á notkun öryggisbelta er gert ráð fyrir því í frv., að hún leiði ekki til lækkunar eða niðurfellingar fébóta. Er það enn í samræmi við það sem víðast er gert, t. d. á Norðurlöndum, en í sumum löndum leiðir vanrækslan hins vegar til lækkunar fébóta. Frv. gerir loks ráð fyrir því, að ekki verði refsað fyrir vanrækslu á notkun belta fyrstu mánuðina eftir gildistöku og verði þeir notaðir til kynningar á hinum nýju ákvæðum. Er frá liður verði hins vegar refsað fyrir þessa vanrækslu. Þykir reynsla annarra þjóða, m. a. Norðmanna, sýna að eigi næst árangur af slíku lagaboði ef því er eigi fylgt eftir með viðurlögum.

Annað atriði frv. fjallar um það, að hjólreiðar skuli heimilar á gangstéttum og gangstígum. Ákvæði þetta er upp tekið eftir norskri fyrirmynd og að tillögu umferðarnefndar í Reykjavík og Umferðarráðs. Hjólreiðar verða þó því aðeins heimilar að þær hafi ekki í för með sér hættu eða óþægindi fyrir aðra vegfarendur. Með því að skortur er á hjólreiðastígum blandast hjólreiðar bifreiðaumferðinni. Með því að heimila hjólreiðar á gangstéttum og gangstígum með skilmálum hinna gangandi vegfarenda, ef svo má að orði komast, má auka öryggi hjólreiðamanna án þess að öryggi hinna gangandi skerðist. Ákvæði þetta er, eins og áður segir, í samræmi við ákvæði í norskum umferðarreglum og hefur það ekki leitt til erfiðleika í framkvæmd.

Þriðja atriði frv. er að heimila heilbr.- og trmrn. að tilnefna fulltrúa í Umferðatráð. Þykir rétt að heilbrigðisyfirvöld hafi fulltrúa í ráðinu, en starfslið heilbrigðismála býr yfir mikilli reynslu og þekkingu er að gagni getur orðið í baráttu fyrir auknu umferðaröryggi.

Hér hafa aðeins verið nefnd og rædd þessi þrjú atriði, en vitanlega heldur umferðarlaganefndin áfram störfum og það eru fjölmörg önnur atriði í umferðarlöggjöfinni sem hún tekur til meðferðar.

Eitt er það, sem nefnt hefur verið við mig í sambandi við þetta frv., og það er hvernig auðvelda megi blindum mönnum að komast áfram í umferðinni. Það hefur verið nefnt, að ástæða hefði verið til þess að taka upp í þetta frv. t. d. löggildingu á hvíta stafnum svokallaða. g vil vekja athygli á því, að 24. nóv. 1970 voru gefnar út reglur um auðkenni blindra á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Samkv. þeim er blindum mönnum heimilt að auðkenna sig með því að bera göngu- eða þreifistaf með hvítu endurskini og síðan sett ákvæði sem skylda vegfarendur til þess að virða þessi merki. En vitanlega má endurskoða þessar reglur eins og aðrar sem settar eru samkv. umferðarlögum og er það m. a. hlutverk umferðarlaganefndar.

Herra forseti. Ég hef hér rakið efni frv. þess sem hér liggur fyrir. Ég hef ekki farið með tölur um fjölda umferðarslysa eða slasaðra eða fjártjón af völdum umferðarslysa. Þær tölur eru allar of háar og mætti flytja um það langt mál. Ég tel hér vera um athyglisvert mál að ræða sem nauðsynlegt er að þm. taki afstöðu til og kynni sér vel og vandlega. Vænti ég þess, að þingnefnd sú, sem fær mál þetta til meðferðar, kynni sér það af gaumgæfni.

Að svo mæltu legg ég til að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.