28.04.1981
Neðri deild: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3810 í B-deild Alþingistíðinda. (3889)

306. mál, verðlagsaðhald

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég skal með ánægju svara þeim fsp. sem til mín hefur verið beint af þeim tveim hv. þm. sem hér hafa nú talað. Sumar spurningarnar eru sameiginlegar frá þeim báðum.

Það er spurt um það og vitnað í blaðaviðtöl í morgun, hvort ákvarðað hafi verið að framfærsluvísitalan yrði 8% að þessu sinni. Nú er auðvitað öllum ljóst að það er ekki ríkisstj., heldur kauplagsnefnd sem lætur reikna út framfærsluvísitöluna, og enginn veit um það í dag hver hún verður. Hins vegar liggja fyrir spár um það efni. Eins og kunnugt er er síðasta spá Hagstofunnar sem undirbýr þessi mál fyrir kauplagsnefnd, sú að líklegt sé að framfærsluvísitalan hækki um 8.7% eða rétt þar um bil. Í þeirri tölu eru hins vegar ekki taldar með hækkanir á gjaldskrám opinberra stofnana sem ég skal víkja að síðar.

Þrátt fyrir þessa spá er vitað að stundum og jafnvel oft koma aðrar tölur út úr þeirri verðkönnun sem fram fer í byrjun þess mánaðar sem vísitalan miðast við, þannig að ekkert er hægt um þetta að fullyrða. Hins vegar eru verulegar líkur til að vísitalan verði nálægt því sem Hagstofan af sinni miklu reynslu og kunnugleika hefur nú spáð um. Það er hins vegar ætlun ríkisstj., eins og fram kemur í þessu frv., í fyrsta lagi að lækka vörugjald af gosdrykkjum og öll sem hefur nokkur áhrif, þótt smávægileg séu, til lækkunar á vísitöluna. Enn fremur er ætlunin að greiða nokkuð niður búvöruverð, hversu mikið get ég ekki fullyrt um nú, en til þessara ráðstafana er fyrst og fremst ætlað fé sem greinir frá í frv., allt að 31 millj. kr.

Það hefur auðvitað verið um það rætt í ríkisstj. að undanförnu hvað hugsanlegt væri að fá vísitöluna langt niður með ráðstöfunum eins og niðurgreiðslum, og menn hafa staldrað mjög við að æskilegt væri að þetta mark yrði í kringum 8%. Ég tel að líklegt sé eftir þeim spám, sem fyrir liggja, og horfum og þeim fyrirætlunum sem ríkisstj. hefur, að framfærsluvísitalan verði nær 8% en 9. Ég get ekki og treysti mér ekki til að fullyrða nánar um þetta mál og vænti þess, að hv. þm. skilji það, m. a. vegna þess að verðkönnunin, sem fram fer væntanlega í byrjun maí, liggur ekki enn þá fyrir.

Þá var um það spurt, hvort búið væri að setja þessi meginmarkmið sem frv. gerir ráð fyrir að sett verði á ársfjórðungsfresti, og annar hv. þm. minntist á það, að í einhverju blaðaviðtali í morgun nefndi einn ráðh. tölurnar 8 og 10 síðar á árinu. Það, sem liggur fyrir í þessu efni, er auðvitað meginmarkmiðið, það að stjórnin vill vinna að því og stefnir ákveðið að því, eins og kemur fram í efnahagsáætluninni frá áramótum, að verðbólgan eða framfærsluvísitalan hækki ekki meira en 40% á þessu ári. Það er það meginmarkmið yfir árið sem auðvitað verður að miða þessar ársfjórðungslegu tölur við.

Spurt er um það, hvort ákveðið sé hver þessi næsta viðmiðun verði. Hún hefur af þeim ástæðum, sem ég gat um áðan í sambandi við framfærsluvísitöluna, ekki verið ákveðin, en ég held að mér sé óhætt að segja að þetta markmið, sem sett verði nú á næstunni, þ. e. væntanlega í byrjun maímánaðar, verði mjög nálægt framfærsluvísitölunni eins og hún verður. Ég geri ráð fyrir að það verði þar mjög nærri. Þar með er ekki sagt að markmiðin síðar á árinu eigi alltaf að vera mjög svipuð framfærsluvísitölu eða verðbótavísitölu í hvert sinn, vegna þess að hér geta auðvitað margvísleg sjónarmið komið til greina.

Þá var spurst fyrir um tollalækkanir, hvort tollalækkanir hefðu verið ákvarðaðar. Það var mjög rætt um það við undirbúning þessa máls, hvort unnt væri að lækka þessa tolla eða aðflutningsgjöld, það þyrfti nánari athugunar við. Eins og fram hefur komið eru tollamálin í heild í endurskoðun. Ríkisstj. stefnir vissulega að því að lækka ýmis aðflutningsgjöld, en það er ekkert að fullyrða um það nánar nú vegna þess að þau mál eru öll í nánari skoðun.

Þá var spurt um það, hvort ákveðnar hefðu verið sérstakar aðgerðir vegna búvöruverðs. Það er ekki. Ég vil sérstaklega taka fram að ummæli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, þar sem hann vitnaði í viðtöl hæstv. sjútvrh. við Tímann og Morgunblaðið í morgun, voru ekki alls kostar nákvæmar tilvitnanir. Varðandi búvöruverðið mun hæstv. sjútvrh. hafa minnst á það, að til athugunar séu aðgerðir í sambandi við búvöruverðið. Það er auðvitað öllum mönnum ljóst, að fyrst og fremst hin gífurlega hækkun á áburði hlýtur að verða til þess að kannaðar verða allar hugsanlegar leiðir til þess að mæta því sem af þeirri hækkun leiðir. Slík vandamál hafa komið upp nokkrum sinnum áður, á nokkurra ára fresti. Stundum hefur ríkissjóður beinlínis gripið til þess ráðs að borga verulega niður áburðarverð, sérstaklega ef svo hefur horft að þetta áburðarverð eða þessi hækkun væri ekki varanleg. Stundum hefur verið gripið til annarra ráðstafana. Nú hefur þetta mál að sjálfsögðu verið rætt og er sérstaklega til meðferðar og athugunar hjá hæstv. landbrh., en ákvarðanir hafa engar verið teknar um það, hvað lagt verður til að gert sé til þess að ráðast gegn þessu mikla vandamáli.

Þá var spurst fyrir um það, hvort eitthvað hafi verið ákveðið um vaxtalækkun. Vaxtamálin hafa að sjálfsögðu verið rædd ítarlega í ríkisstj., en mál snúa þannig í þeim efnum að það er 1. júní sem taka skal ákvörðun næst um vextina. Það er óhætt að segja hér að það er skoðun ríkisstj. allrar að vextir verði lækkaðir 1. júní. Í efnahagsáætluninni var ákveðið að vextir skyldu lækkaðir 1. mars. Lengra fram í tímann var ekki ákvarðað þá, en okkur virðist, eftir þeirri þróun sem orðið hefur í efnahagsmálum nú að undanförnu, að rök séu fyrir því að lækka vexti næst, þ. e. 1. júní. Hins vegar liggur ekkert fyrir um hversu mikið né hvaða tegundir inn- eða útlána þar kæmu til greina. Um það mun Seðlabankinn að sjálfsögðu gera tillögur.

Þá var spurst fyrir um hvort ríkisstj. mundi afgreiða hækkunarbeiðnir um gjaldskrár opinberra stofnana nú fyrir mánaðamót, þ. e. áður en hin nýja vísitala yrði upp tekin, eða hvort hún mundi fresta því fram yfir þann tíma. Þessu er til að svara að ríkisstj. mun afgreiða þau mál áður en kemur til verðkönnunar vegna vísitölunnar og ég geri ráð fyrir að það verði afgreitt nú fyrir mánaðamót eða í síðasta lagi um mánaðamótin. Gjaldskrárnefndin, sem hefur þessi mál til umfjöllunar, hefur undanfarna daga setið að störfum til þess að gera tillögur um þau efni til ríkisstj. Að þessu leyti verður nú fylgt sömu reglu og gert hefur verið síðan 1977. Það er kannske rétt að það komi hér fram, að þau mál bar ekki sérstaklega á góma í kjarasamningum á s. l. hausti. Það komu fram þær raddir, þar sem yfirlýsingin frá því í maí 1977 var gefin í beinu sambandi við kjarasamningana þá, hvort hún væri bindandi langt fram í tímann. Þetta mál var kannað og eftir athugun á því lá ljóst fyrir að verkalýðssamtökin höfðu gengið út frá því, að þessi regla gilti áfram, og töldu ekki sérstaka þörf á eða ástæðu til að hreyfa því, og að sjálfsögðu mun ríkisstj. fara eftir því og ekki ganga þannig gegn því sem verkalýðshreyfingin hefur í góðri trú talið vera. Verðbreytingar á gjaldskrám opinberra fyrirtækja verða því afgreiddar nú um mánaðamótin.

Þá var spurst fyrir um hvort ákvæðin um lögbann eða heimild til lögbanns gegn ólöglegum verðhækkunum í 2. gr. mundu notuð til þess að falsa vísitöluna, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson virtist gefa í skyn — eða a. m. k. spurðist fyrir um — og þá væntanlega á þá lund, að óskað yrði eftir lögbanni gegn hækkunum, sem þegar verða komnar til framkvæmda, og Hagstofunni af hálfu ríkisstj. gefin fyrirmæli um að inn í vísitöluna yrði tekið hið lægra verð, en ekki hið hærra sem búið væri að banna. Hv. þm. ætti að vita að það er ekki ríkisstj. sem reiknar út vísitöluna, heldur er það kauplagsnefndin sem hefur þar úrskurðarvald. Hún ákveður það. Hagstofan starfar sem ráðgjafi hennar og ráðunautur og safnar upplýsingum, en það er kauplagsnefndin, sem skipuð er þremur mönnum eins og kunnugt er, sem tekur þessar ákvarðanir. Ég held að kauplagsnefnd hafi alltaf verið óháður og sjálfstæður aðili í því, og ég veit ekki til að ríkisstj. hafi krafist þess, að kauplagsnefnd beitti einni eða annarri aðferð. Kauplagsnefndin hefur samkv. sögu og venju notið ákaflega mikils sjálfsforræðis. Ég held því að þessar tilgátur séu gersamlega út í hött.

Hitt kemur mér nokkuð spánskt fyrir, þegar fundið er að því að reynt sé að finna leiðir til þess af hálfu Verðlagsstofnunar að stöðva ólöglegt verð. Hv. 1. þm. Reykv. gengur svo langt að hann segir að þessi heimild Verðlagsstofnunar til þess að snúa sér til fógeta og óska eftir lögbanni gegn óleyfilegu verði sé mjög vítaverð og hættuleg og leiði okkur inn á braut lögregluríkis. Það er í fyrsta lagi nokkuð undarlegt að þm. skuli rísa hér upp á Alþingi og mæla beint og óbeint bót framferði þeirra aðila, sem taka sér ólöglegt verð og neita að hlýða ákvörðunum viðkomandi verðlagsyfirvalda og landslögum, og halda því fram að verið sé að fara inn á braut lögregluríkis ef reynt er að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir slík lögbrot. Þessi till, um heimild til lögbanns eða til að snúa sér til fógeta er till. sem kemur frá Verðlagsstofnuninni og er undirbúin að ég ætla, af lögfræðingi þeim sem hefur starfað að undanförnu fyrir þá stofnun. Þetta er sem sagt hennar tillaga. Ríkisstj. taldi að það væri óviðunandi ástand sem verið hefur hér um alllangt skeið, að þegar einhver aðili brýtur þannig landslög, auglýsir og framfylgir óleyfilegri hækkun á verðlagi, þá er engin leið önnur til eða hefur ekki verið í framkvæmda af hálfu Verðlagsstofnunar heldur en að kæra. Málið er rannsakað, fer til ríkissaksóknara. Ef ákveðið er að láta það ganga lengra fer það til dómstóla. Þetta tekur oft ekki aðeins mánuði, heldur misseri, eitt eða fleiri. Á meðan er hið ólöglega verð í verslunum. Verðlagsstofnunin er að þessu leyti máttlaus gagnvart þessum lögbrotum.

Nú hefur Verðlagsstofnunin bent á að hér megi nota það réttarfarsráð, sem mjög lengi hefur verið í íslenskum lögum, að biðja fógeta, sem er dómari, að beita lögbanni gegn slíku. Mér hafði sannast sagna ekki dottið í hug að nokkur hv. þm. leyfði sér að nota þau orð um slíka endurbót, að með þessu séum við komin inn á braut lögregluríkis. Þetta finnst mér nokkuð langt gengið.

Það var ekki beint hægt að heyra á hv. þm. Sighvati Björgvinssyni hvort hann var fylgjandi þessu eða ekki, en undarlegt þætti mér — eins og Alþfl. hefur oft verið hvetjandi þess, að verðlagseftirlit væri framkvæmt og það allstrangt — ef hann telur sjálfsagt að halda áfram því fyrirkomulagi sem verið hefur, að verðlagsyfirvöldin hafi í rauninni engin ráð til þess að framfylgja sínum ákvörðunum. Ég hefði síst búist við því, að á þessum stað kæmu fram andmæli gegn því að reyna að fylgja fram lögum landsins í þessu efni.

Þá ræddi hv. þm. Sighvatur Björgvinsson nokkuð um heimildirnar til niðurskurðar eða sparnaðar. Vegna fsp. hans vil ég taka fram að heimild til niðurfærslu ríkisútgjalda í 4. gr. frv. um allt að 31 millj. kr. er til viðbótar og er óháð heimild í fjárlögum, eins og kemur skýrt fram í grg. með frv. þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 4. gr. er ríkisstj. veitt heimild til að lækka ríkisútgjöld um allt að 31 millj. kr. og er hér um nýja heimild að ræða sem er óháð heimildum fjárlaga.“

Hv. þm. taldi að með þessari heimild væru komnar hvorki meira né minna en þrjár heimildir. Það er rétt að í brbl. frá gamlársdag, sem staðfest voru hér á Alþingi sem lög um viðnám gegn verðbólgu, er heimild til þess að fresta verklegum framkvæmdum. Sú heimild, sem hér er, er rýmri. Hún nær til ríkisútgjalda, bæði rekstrarútgjalda fjárlaga, verklegra framkvæmda og til framlaga til sjóða. Heimildin er það rúm. Um það hvort búið sé að ákvarða hvernig hún verði notuð, þá er það ekki. Það er ekki einsdæmi því að þess eru mörg dæmi, að ríkisstj. hafi óskað eftir heimildum til þess að draga úr ríkisútgjöldum. Það hefur mjög oft komið fyrir á undanförnum árum og áratugum án þess að þá þegar lægi fyrir sundurliðun á því úr hverju ætti að draga. En að sjálfsögðu er þessi niðurskurðarheimild hér í beinu sambandi við kostnað þann sem gert er ráð fyrir að hafa nú á næstunni í sambandi við verðbólgumálin, og vil ég þar nefna sérstaklega tvennt: annars vegar nokkuð aukna niðurgreiðslu á búvöruverði og hins vegar þann tekjumissi sem ríkið verður fyrir við lækkun á gosdrykkjagjaldinu.

Varðandi 5. gr. frv., hvort hún verði notuð, þá vil ég taka það fram, eins og ég raunar gat um í framsöguræðu og kemur fram í grg., að þessi viðbótarheimild til að hækka bindiskyldu upp að 28% er hugsuð sem stjórntæki í peningamálum. Nú horfa mál þannig að það ánægjulega hefur gerst að innlánsfé hefur aukist verulega á fyrstu mánuðum ársins, eins og það gerði raunar á síðustu mánuðum s. l. árs, og vissulega standa vonir til að þessi þróun í innlánsmálum haldi áfram. Þetta er auðvitað ákaflega ánægjulegt batamerki í okkar efnahagsmálum. En vitanlega felur það í sér þá hættu, að ef innlánsstofnanir, sem fá þannig vaxandi innlán, nota þetta fé að fullu til aukinna útlána, þá má vel vera að þau hin auknu útlán valdi ofþenslu í þjóðfélaginu og vinni þar með gegn okkar efnahagsmarkmiðum.

Það er fyrst og fremst með þetta í huga sem þetta aukna stjórntæki er hér sett því að náttúrlega er æskilegt þegar svo stendur á að innlánsstofnanir geymi þá nokkurn hluta eða kannske verulegan hluta af sínu innlánsfé í Seðlabanka í stað þess að lána það út, að því leyti sem það er umfram eðlileg mörk og eðlilegt jafnvægi í peningamálum. Sem sagt, hin aukna bindiskylda er ein leiðin, en um leið þarf auðvitað að taka það fram, að vitanlega verður Seðlabankinn að bjóða innlánsstofnunum þau ávöxtunarkjör að þær telji sig eins vel settar með því að geyma fé sitt í Seðlabanka og að verja því til útlána.

Varðandi það atriði sem kom fram sérstaklega hjá hv. 1. þm. Reykv., að hann treysti ekki ríkisstj. til þess að hafa slíkt vald í höndum, þá er ljóst, ef hann les greinina vandlega, að það er Seðlabankinn sem hefur frumkvæði og ákvörðun um þetta, en ekki ríkisstj. Ef hins vegar Seðlabankinn ákveður að notfæra sér þessa viðbótarheimild þarf hann að leita samþykkis ríkisstj. Það er ekki þannig að ríkisstj. geti ákveðið að hækka bindiskylduna ein út af fyrir sig. Það er skýrt í greininni að það er Seðlabankinn sem hefur þessa heimild. Og hann þarf að taka þessa ákvörðun, en leita svo samþykkis á þeirri ákvörðun sinni hjá ríkisstj. Ef hv. þm. vantreystir svo í þessum efnum sem kom fram í ræðu hans, þá er það í rauninni fyrst og fremst vantraust á Seðlabankann, en ekki á ríkisstj., eins og um þessi mál er búið.

Þá minntust báðir hv. þm. á það ákvæði, að heimilt væri að hækka þessa hlutfallstölu fyrir allar eða einstakar innlánsstofnanir, og þeim þóttu það hin mestu undur að nú ætti að fara að mismuna bönkum. Það er rétt, að þetta er nýmæli í lögum. En oftlega hefur um þetta vérið rætt á undanförnum árum — mjög oft. Hugsunin, sem þar liggur á bak við, er m. a. þessi varðandi þær innlánsstofnanir eða viðskiptabanka sem hafa mestar skyldur við t. d. sjávarútveg — og það eru tiltölulegar fáar stofnanir sem hafa yfirgnæfandi þunga af þeim skyldum gagnvart sjávarútveginum — að það væri ekki ósanngjarnt, og ég veit að það hefur verið sjónarmið margra bankamanna og sérfræðinga, að þeir bankar, sem hafa þessa þungu byrði á sér, þyrftu ekki að hafa eins hátt hlutfall bindiskyldu og aðrir sem minni skyldur við atvinnuvegina hvíldu á.

Þetta er í rauninni það meginsjónarmið sem fram hefur verið fært fyrir því, að þarna væri möguleiki að ákveða mismunandi hlutfall. En auðvitað þarf að fara mjög varlega í það. Það veltur auðvitað fyrst og fremst á mati Seðlabankans hvað í þessu yrði gert, en ekki að ríkisstj. færi að taka upp hjá sér að mismuna bönkum þannig um hlutfall. Til þess hefur hún ekki vald eftir þessu ákvæði laganna.

Hins vegar er að sjálfsögðu af ríkisstj. hálfu ekki búið að ákvarða neitt um það, hvort hún muni samþykkja eða óska eftir því við Seðlabankann að hann geri slíkar ályktanir. Eins og ég tók fram er þetta stjórntæki sem þykir réttara að hafa við höndina til þess að tryggja jafnvægi í peningamálum, sem er eitt undirstöðuatriðið í öllu viðnámi gegn verðbólgu.

Þá er loks eitt atriði sem spurt hefur verið um hér eða minnst á, og það er verðlagseftirlitið, það herta eða stranga verðlagseftirlit sem hér hefur verið undanfarna fjóra mánuði. Ég er mönnum alveg sammála um það, að orðið verðstöðvun er nú eins og oft áður ákaflega óheppilegt orð að því leyti, að í öllum þessum svokölluðu verðstöðvunum er alltaf gert ráð fyrir að undanþágur þurfi að veita ef óhjákvæmilegt reynist, eins og var sérstaklega tekið fram í brbl. frá því á gamlársdag. Ljóst er að þó menn vilji hafa strangt verðlagseftirlit geta margvíslegar ástæður legið til þess, bæði af erlendum toga og öðrum, að óhjákvæmilegt sé að leyfa hækkanir. Að því leyti má segja að verðstöðvunarheitið sé ekki heppilegt. Með þessu frv. er ætlast til að í stað þess stranga verðlagseftirlits, sem verið hefur, komi það sem við köllum hér verðlagsaðhald. Og allir, sem lesa þessar greinar, sjá að hér er um sveigjanlegra fyrirkomulag að ræða en það sem gilt hefur undanfarna fjóra mánuði. Það er sveigjanlegra m. a. með því að nú er gert ráð fyrir að setja ársfjórðungsleg mörk, sem yrðu meginsjónarmið, og meðan haldið sé sér innan þeirra marka þurfi mál ekki að koma til ríkisstj. í heild, en hins vegar gert ráð fyrir því þó, að í sumum tilvikum þurfi að fara yfir þessi almennu mörk af sérstökum ástæðum, en þá áskilið samþykki ríkisstj.

Hins vegar verðum við í sambandi við verðlagseftirlitið náttúrlega að hafa það í huga, að við sæmilegt jafnvægi í efnahagsmálum er enginn vafi á því að frjáls samkeppni tryggir best hag neytendanna og er besta tryggingin fyrir hagkvæmu og lágu vöruverði. Að vísu verður að hafa það í huga, að af opinberri hálfu þarf að hafa visst eftirlit — eins og allar þær þjóðir, sem búa við slíkt frelsi, hafa jafnan viðurkennt — til þess að koma í veg fyrir að samkeppnin, hin frjálsa samkeppni, fari sér að voða þannig að myndist einokun eða hringar. En í meginatriðum er þetta vafalaust æskilegasta fyrirkomulagið.

Hitt er svo annað mál, að þegar þjóðfélag býr við mikla verðbólgu og er að berjast við að ná henni niður, þá er ekki leiðin sú að gefa allt frjálst. Þá verður a. m. k. um stundarsakir að halda vissu verðlagseftirliti eins og nú.

Í sambandi við umkvartanir nú frá ýmsum aðilum um að illa hafi verið að þeim búið, þá vil ég í fyrsta lagi nefna eitt opinbert fyrirtæki sem mjög hefur verið talað um hvað illa hafi verið farið með, og það er Sementsverksmiðjan. Það mun rétt vera, að Sementsverksmiðjan á nú við mikla fjárhagsörðugleika að etja. En þeir fjárhagsörðugleikar stafa ekki af því, að núv. ríkisstj. hafi þjarmað svo að þessu fyrirtæki, því að á því röska ári, sem ríkisstj. hefur starfað, hefur Sementsverksmiðjan fengið yfir 80% hækkun á sementsverði. Það er meira en verðbólgunni nemur. Þeir erfiðleikar, sem Sementsverksmiðjan á við að etja, eiga rætur að rekja lengra aftur í tímann. Mér skilst að á árunum 1978 og 1979 hafi hún fengið miklu minni hækkanir en hún taldi sér þá nauðsynlegar og þá hafi byggst upp þeir erfiðleikar sem nú er verið að glíma við. Það hefur ekki gerst á tíma núv. ríkisstj.

Í sambandi við umkvartanir atvinnurekstrarins um það, að með þessu stranga verðlagseftirliti hafi verið þrengt mjög að atvinnurekstrinum, þá verða menn að hafa í huga að með efnahagsaðgerðum ríkisstj. hefur atvinnureksturinn m. a. losnað við 7% af launum sem ella hefðu komið ef þessar aðgerðir hefðu ekki verið gerðar. Enn fremur má minna á það, að allur sá atvinnurekstur, sem þarf á erlendu hráefni, efnivöru, að halda, hefur notið góðs af því að nú um fjögurra mánaða skeið hefur gengið verið stöðugt. Vissulega verða atvinnurekendur líka að hafa þau atriði í huga, sem vegna þessa viðnáms gegn verðbólgu hafa komið þeim að gagni, þó að vitað sé að verðlagsákvæðin hafi verið ströng í ýmsum efnum. En þessi atriði verðum við þó í huga að hafa.

Ég vænti þess, að ég hafi svarað þeim fsp. sem til mín var beint. — [Fundarhlé.]