28.04.1981
Neðri deild: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3822 í B-deild Alþingistíðinda. (3891)

306. mál, verðlagsaðhald

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að gera nokkrar aths, við það frv., sem hér liggur fyrir, og reyndar það sem þegar hefur komið fram í máli manna um þetta frv. hér í dag. Ég tek það fram, að ég mun ekki tala langt mál því að ég tel eðlilegt, að þetta mál nái til nefndar áður en þessum fundi lýkur, og hef ekki hugsað mér að halda uppi neinu málþófi hér í þessu máli og vonast til að þessum fundi geti lokið fyrir kvöldið.

Ég held að engum blandist hugur um það, að einn sá mesti vandi, sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir og hefur lengi staðið frammi fyrir, er sú mikla verðbólga sem hér geisar og hefur geisað með vaxandi hraða undanfarin ár og aldrei með meiri hraða heldur en eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Það er alveg ljóst að sú ríkisstj., sem nú situr, hefur ekki fengið við neitt ráðið þrátt fyrir ýmsa tilburði í þá átt, bæði með því frv., sem samþykkt var sem lög frá Alþingi fyrr í vetur, þ. e. brbl. frá því á gamlársdag, og reyndar ýmsum aðgerðum á síðasta ári, og þrátt fyrir það frv. sem hér liggur nú fyrir. Ekkert af þessu hefur náð þeim árangri sem að hefur verið stefnt í upphafi miðað við yfirlýsingar ríkisstj.

Sannleikurinn er sá, að engar yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. eða einstakra hæstv. ráðherra um verðbólguþróun, sem gefnar hafa verið á ýmsum tímum frá því að stjórnin tók við, hafa staðist þegar á hólminn hefur komið. Þær hafa alltaf reynst óraunhæfar eða rangar. Maður getur spurt sjálfan sig að því, hvernig á þessu standi. Skortir ríkisstj. vilja til að berjast við þann vanda sem við er að etja? Við höfum heyrt að vilji sé allt sem þarf, og ég vil leyfa mér að halda því fram, að einstaka ráðh. skorti út af fyrir sig ekki vilja í þessu efni. Skortir þessa ríkisstj. raunsæi til að glíma við þann vanda, sem við er að etja, og til að grípa til þeirra ráða sem nauðsynleg eru svo að árangur náist? Eða er óeiningin innan hæstv. ríkisstj. svo mikil að aldrei náist samstaða um það sem gera þarf? Ég hallast að þessari seinustu skýringu. Það er margt sem styður hana.

T. d. hafa vakið athygli stöðugar yfirlýsingar ráðh. Framsfl., en a. m. k. formaður þess flokks, hæstv. sjútvrh., hefur verið mjög málglaður og yfirlýsingaglaður. Í munni hans er niðurtalningin alltaf að hefjast, stundum er hún jafnvel hafin, en samt gerist ekkert í baráttunni gegn verðbólgunni. Stöðugt gefa framsóknarmenn út yfirlýsingar um það, að nú sé nauðsynlegt að grípa til aðgerða sem dugi, og tala jafnvel stundum sjálfir um róttækar aðgerðir í því efni. Samt gerist ekkert. Allt það, sem birtist okkur þm. eða landsmönnum í formi ákvarðana ríkisstj., virðist ekkert vera nema máttlaust kák sem engan árangur ber.

Hæstv. ráðherrar úr Sjálfstfl. fara sér varlegar í yfirlýsingum fyrir fram. Reyndar virðist oft sem þá skorti nokkuð sjálfstæðan vilja og sjálfstæða stefnu í þessum málum, þeir hafi kosið sér það hlutverk að reyna að sigla milli skers og báru, vera eins konar málamiðlarar á milli þeirra höfuðafla sem að þessari ríkisstj. standa, þ. e. Framsfl. og Alþb. Ég held að engum blandist hugur um það, sem skoðar þessi mál, skoðar til hlítar þau frumvörp sem um þetta hafa verið flutt, að á meðferð þessa máls, á meðferð baráttunnar gegn verðbólgunni hjá hæstv. ríkisstj. eru fingraför Alþb. Sannleikurinn er sá, að ávallt hefur einkennt efnahagsstefnu Alþb. algert óraunsæi, neitun á staðreyndum efnahagslífsins, oftrú á ýmsum óraunhæfum aðgerðum sem aldrei hafa skilað neinum árangri sem dugar, eins og verðlagseftirliti eða svokallaðri verðstöðvun. Alþb. hefur aldrei verið reiðubúið til þess að ráðast gegn orsökum verðbólgunnar, heldur hafa allar þess aðgerðir miðað að því að reyna að draga úr afleiðingum hennar — og þá til skamms tíma — með ýmsum kákaðgerðum.

Allt, sem gert hefur verið t. d. varðandi fjárlagagerð, miðar, að þenslu í opinberum rekstri, aukinni skattheimtu, auknum rekstri ríkisins, auknum opinberum framkvæmdum sem óneitanlega eru mjög verðbólguhvetjandi. Það á einmitt að vera ein höfuðmarkmið ríkisvaldsins, þegar verðbólga geisar eins og nú, að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi, dragi úr, þenji sig ekki út eins og gert hefur verið undir þessari hæstv. ríkisstj. Erlendar lántökur eru og gegndarlausar. Auðvitað er það blekking þegar talað er um að ríkissjóður sé greiðsluhallalaus, eins og hæstv. fjmrh. reynir gjarnan að stæra sig af og reyndar aðrir ráðherrar, þegar vitað er að stór hluti þess, sem eðlilegt væri að tilheyrði fjárlögum ríkisins, er sett inn í lánsfjáráætlun og tekin lán erlendis frá til að standa undir því. Hinar hóflausu erlendu lántökur, sem iðkaðar eru af hæstv. ríkisstj., eru að sjálfsögðu mjög verðbólguhvetjandi. Ég held að rótin að verðbólgunni liggi fyrst og fremst í þessari stefnu, þar liggi ástæða þess að ekki hafi tekist betur en reynslan hefur sýnt í baráttunni gegn þessari verðbólgu.

Að mati okkar sjálfstæðismanna, sem í stjórnarandstöðu erum, er það hvað alvarlegast í stefnu og störfum núv. hæstv. ríkisstj. hvað hægt og sígandi er sorfið að einkaframtakinu í landinu. Það er gert á ýmsan hátt. Í dag er það með þessu frv., í gær var það með frv. sem lagt var fram um skattamál, þar áður með lánsfjáráætlun þar sem stefnt er að því að draga stórlega úr fjárfestingu atvinnurekstrar, en því meira fjármagni stefnt í opinberar framkvæmdir. Auðvitað er þetta í samræmi við þá grundvallarstefnu Alþb. að reyna að herða svo að öllu einkaframtaki í landinu, að einkarekstrinum, að hann eigi sér ekki lífs von hér á landi, að hægt sé að setja atvinnureksturinn meira og minna í opinberar hendur eins og stefna Alþb. er bæði leynt og ljóst.

Í þessu frv. er enn einu sinni vikið að verðstöðvun. Og þó að verðstöðvun hafi verið í gangi lengi og á ýmsu gengið um framkvæmdir, þá virðist nú allt benda til þess, að hér eigi enn að herða tökin frá því sem verið hefur. Verðstöðvun hefur að vísu verið eins konar friðþægingartæki, sem sett hefur verið í lóg til þess að friða ákveðin öfl, t. d. innan Alþb., en yfirlýsingar ráðh. þess nú virðast benda til þess, að enn eigi nú að herða þessi tök.

Það vekur t. d. sérstaka athygli, að hvergi er látið að því liggja að afkoma fyrirtækja eigi nokkru að ráða um það, hvaða ákvarðanir verði teknar í verðlagsmálum. Aðalviðmiðunin er ársfjórðungsleg meginmarkmið ríkisstj., eins og það heitir í lögunum, en á engan hátt vikið að því, hvað atvinnulífið raunverulega þurfi til þess að geta gengið. Frá þessu eru að vísu heimiluð ákveðin frávik, en það vekur athygli hvernig þetta er túlkað í grg. frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðað er við að verðhækkanir umfram brýnustu nauðsyn verði ekki leyfðar, en í óhjákvæmilegum tilfellum verði unnt að leyfa meiri hækkanir, enda verði heildarútkoman innan við hin settu mörk.“

Við skulum sérstaklega taka eftir þessu orðalagi: „enda verði heildarútkoman innan við hin settu mörk.“ Þetta þýðir m. ö. o. að ef einn fær meira en annar, þá eigi að skerða hjá þeim síðarnefnda. Ef t. d. opinber fyrirtæki fá meiri hækkun en ársfjórðungsleg meginmarkmið ríkisstj. segja fyrir um, þá eiga einkafyrirtækin að fá minna. Í rauninni er hér um að ræða að fela ríkisstj. vald til óhæfilegra geðþóttaákvarðana. Og ég held að með þessu frv., eins og það liggur hér fyrir nú skoðað í ljósi þeirra yfirlýsinga sem ýmsir hæstv. ráðherrar hafa gefið, sé ríkisstj. gefið allt of mikið vald til ýmissa geðþóttaákvarðana.

Eitt atriði hefur sérstaklega komið hér til umr. Það er sú nýjung, sem felst í þessu frv. umfram það sem áður hefur gilt, að heimila að fógeti leggi lögbann við byrjuðu eða yfirvofandi broti á fyrirmælum verðlagsyfirvalda. Hér er farið inn á mjög varhugaverða leið. Ég vil mjög eindregið lýsa andstöðu minni við þessa leið og vara við henni. Hæstv. forsrh. býsnaðist yfir því áðan í ræðu sem hann hélt, að honum fyndist undarlegt eða það kæmi honum spánskt fyrir sjónir, að fram kæmu raddir hér á Alþingi sem andmæltu því að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að halda uppi lögum landsins. Ég held að hæstv. forsrh. þurfi ekki að gera því skóna, að neinn okkar, sem andmælum þessu ákvæði um lögbann, sé að láta að því liggja að ekki eigi að halda uppi lögum í landinu. En það er ekki sama á hvern hátt það er gert. Og ég held að hér sé farið inn á braut sem sé allt of harkaleg. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, hvernig aðalmálgagn ríkisstj. túlkar þetta í leiðara í morgun. Í Þjóðviljanum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í gær kom Alþingi saman á ný eftir páskahlé. Á þessum fyrsta degi þingsins að hléi loknu lagði ríkisstj. fram frv. um strangt aðhald í verðlagsmálum út allt þetta ár, en þann 1. maí n. k. falla úr gildi ákvæði áramótalaganna um herta verðstöðvun. Eitt merkasta ákvæði í hinu nýja frv. ríkisstj. varðar heimild til verðlagsstjóra til að beita þá aðila eða samtök aðila lögbanni, sem brjóta reglur Verðlagsstofnunar eða hækka verð á vörum eða þjónustu umfram það sem leyft er á hverjum tíma. Slíku lögbanni er ætlað að taka gildi tafarlaust í stað þess að hingað til hefur verðlagsstjóri ekki ráðið yfir nægilega virkum úrræðum til að hindra strax ólögmætar verðhækkanir, því að hin almenna dómstólaleið er seinfær. Ákvæði hins nýja lagafrv. er ætlað að bæta úr þessu og ætti að geta komið að góðu gagni í baráttu við þann braskaralýð sem stærsta sök ber á okkar verðbólgumálum.“

Ég held að það fari ekkert á milli mála hver túlkun Þjóðviljans er á þessu ákvæði. En hverjir eru nú þessir braskarar, hverjir tilheyra þessum braskaralýð sem Þjóðviljinn sérstaklega gerir að umtalsefni í þessum leiðara sínum í dag? Sannleikurinn er sá, að ég held að yfirleitt hafi íslenskir viðskiptamenn, hvort sem þeir eru iðnrekendur, kaupmenn eða tilheyra öðrum þáttum atvinnulífsins, farið mjög eftir þeim ákvæðum sem á hverjum tíma hafa verið sett af verðlagsyfirvöldum. Það eru örfá mál sem hafa orðið verulegt ágreiningsefni. Og hverjir eru það þá sem þar hafa helst átt í höggi við verðlagsyfirvöld? Hverjir hafa verið þessi svokallaði braskaralýður sem Þjóðviljinn talar um? Síðast var það Sementsverksmiðjan. Síðasti aðilinn, sem verðlagsyfirvöld kvörtuðu yfir að fylgdi ekki ákvörðunum verðlagsyfirvalda, var Sementsverksmiðjan þar sem m. a. hæstv. dómsmrh. situr í stjórn. Er það hann eða stjórn Sementsverksmiðjunnar sem átt er við þegar Þjóðviljinn talar um braskaralýð í þessu sambandi?

Við munum eftir öðru dæmi í vetur þar sem sló í brýnu milli verðlagsyfirvalda og ákveðinna aðila í viðskiptalífinu og auglýst var verð sem var í ósamræmi við ákvarðanir verðlagsyfirvalda. Þar voru bakarar á ferð. Við munum enn fremur eftir öðru dæmi. Það var stuttu eftir áramótin. Þá lentu fisksalar í erfiðleikum og í ágreiningi við verðlagsyfirvöld vegna þess að þeir fengu ekki að hækka fisverð, voru skyldaðir til þess að selja á gömlu verði þó að vitað væri að fiskur, sem þeir voru að kaupa, mundi hækka í verði og þeir fengju bakreikninga fyrir.

Frægustu aðilarnir í baráttunni við veðlagsyfirvöld og þeir sem hafa verið hvað óhlýðnastir verðlagsyfirvöldum og viljað fara sínu fram og gert það á stundum, eru þó dagblöðin. Ég held að meira að segja hæstv. félmrh. hafi verið ritstjóri Þjóðviljans þegar dagblöðin tóku sig saman um að hlíta ekki ákvörðunum verðlagsyfirvalda. (Félmrh.: Nei.) Ef þetta er rangt með farið bið ég hæstv. félmrh. afsökunar, en alla vega voru það flokksbræður hans og skoðanabræður sem þar voru á ferðinni, þeir hinir sömu sem nú í dag tala um braskaralýð sem sérstaklega standi í baráttu við verðlagsyfirvöld.

Sannleikurinn er sá og ég ítreka það, að íslenskir viðskiptamenn hafa verið löghlýðnir í þessum efnum. Það eru örfá dæmi, sem telja má jafnvel á fingrum annarrar handar, um það að íslenskir viðskiptamenn hafi ekki hlítt ákvörðunum verðlagsyfirvalda. Og þá er þar um að ræða dæmi eins og þau sem ég hef hér talið upp. Þess vegna tel ég að þetta séu kaldar kveðjur sem hæstv. ríkisstj. sendir íslenskum viðskiptaaðilum með því að setja svo hörð ákvæði eins og hér eru á ferð. Undantekningarnar, sem hér er um að ræða og verðlagsyfirvöld geta bent á, eru bæði fáar og smáar og skipta engu máli í baráttu við verðbólguna.

Þess vegna ítreka ég það, að ég lýsi andstöðu minni við þetta ákvæði. Ég tel að það sé ekki efni til þess að gera því skóna, eins og hæstv. forsrh. gerði, að íslenskir viðskiptamenn, kaupmenn, iðnrekendur og aðrir þeir sem viðskipti stunda á Íslandi, séu ekki löghlýðnir borgarar.

Eitt atriði enn í þessu frv. vildi ég gera að umtalsefni þó að um það þurfi reyndar ekki að fara mörgum orðum. Það er ákvæði um vörugjald á sælgæti og gosdrykki — aðallega á gosdrykki — sem nú er lagt til að sé lækkað. Í raun og veru þarf ekki að rifja upp, mönnum hljóta að vera svo í fersku minni þær umræður sem urðu um þetta mál hér á Alþingi skömmu fyrir jólaleyfi, en þar var þetta mikið deiluefni. Okkur stjórnarandstæðingum fannst það einkennilegt, að nokkrum mánuðum eftir að sett voru sérstök brbl. til að bæta erfiða aðstöðu sælgætisiðnaðarins skyldi ríkisstj. leggja fram lagafrv. til að íþyngja þessum iðnaði sérstaklega með nýjum sköttum, nýju vörugjaldi sem átti að vera 10% samkvæmt lagafrv., en fór niður í 7% í meðferð Alþingis.

Á gosdrykki var hins vegar lagt 30% vörugjald og nú er lagt til að það sé lækkað niður í 17%.

Við stjórnarandstæðingar vöruðum eindregið við þessu gjaldi. Og við vorum ekki einir um það. Allir þeir, sem að þessum iðngreinum starfa, vöruðu sérstaklega við því, bæði iðnrekendur og launþegar. Ég man sérstaklega eftir því þegar þeir komu hér sameinaðir, bæði atvinnurekendur og launþegar í þessum atvinnugreinum, til þess að afhenda mótmæli hér niðri í anddyri Alþingis m. a. formönnum fjh.- og viðsknefnda, að í framhaldi af því fór helsti málsvari Alþb. í þessu efni, reyndar í Ed., háðulegum orðum um þessi viðvörunarorð starfsfólksins. En reynslan hefur sýnt að aðvörunarorð okkar voru á rökum reist. Og ég held að hæstv. ríkisstj. ætti oftar að taka nokkurt mið af því sem stjórnarandstaðan segir, ætti að hafa meira samráð og samstarf við stjórnarandstöðuna, því að reynslan hefur sýnt að það er æðioft sem okkar aðvörunarorð koma fram. Ég held að hæstv. ríkisstj. gerði betur í því að láta stjórnarandstöðuna fylgjast með þeim aðgerðum sem hún undirbýr hverju sinni, en ekki að kasta frv. inn á Alþingi óviðbúið án þess að menn hafi fengið nokkuð að kynna sér efni mála, eins og gerst hefur í þessu máli.

En okkar aðvörunarorð komu fram. Fljótlega eftir að þetta gjald komst á var 50–60 mönnum sagt upp í verksmiðjunni Vífilfelli og vitað er að aðrar gosdrykkjaverksmiðjur eiga einnig í miklum erfiðleikum, enda tekur ríkið nú tæplega 53% af hverri gosdrykkjaflösku til sín í sköttum.

En batnandi mönnum er best að lifa í þessu efni. Nú flytur þessi sama hæstv. ríkisstj. rúmlega þremur mánuðum síðar frv. um lækkun þessa gjalds úr 30% í 17%. Og auðvitað er þetta eitt dæmi af mörgum sem sýnir það ráðleysi sem einkennir störf hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið. Þetta frv., svo rýrt sem það er að efni, ber vott um að það er enn sem fyrr Alþb. sem ræður ferðinni í stefnumótun hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Það er einnig mikill galli á því, að Alþingi skuli ekki gerð grein fyrir þeirri heildarmynd sem við blasir í efnahagsvandanum og hver þau heildarúrræði eru sem hæstv. ríkisstj. hyggst grípa til. En við höfum það þó ríkisstj. til afsökunar, ef afsökun skyldi kalla, að það kom glögglega fram hjá hæstv. forsrh. áðan að ríkisstj. hefur ekki fótað sig enn á öðrum þeim aðgerðum sem hún hyggst gera, hvort sem um er að ræða hvert eigi að vera ársfjórðungsmeginmarkmiðið, hverjar eigi að vera þær væntanlegu tollalækkanir sem talað er um, hvernig fara eigi með búvöruverðið, hver eigi að verða vaxtalækkun og þar fram eftir götunum. Öll þessi atriði, sem að sjálfsögðu skipta miklu máli þegar menn reyna að gera sér heildarmynd af þróun efnahagsmála, eru enn óákveðin hjá hæstv. ríkisstj. Hún sjálf hefur ekki enn komið sér saman um eða mótað sér ákveðna stefnu í þeim málum.