29.04.1981
Efri deild: 86. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3828 í B-deild Alþingistíðinda. (3896)

307. mál, fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um aðild Íslands að samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi.

Með þessu frv. er leitað heimildar fyrir ríkisstj. til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning frá 18. nóv. 1980 um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi. Samningi þessum er ætlað að koma í stað samnings frá 24. jan. 1959 um fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi. Sá samningur var fullgiltur fyrir Íslands hönd 12. apríl 1960 og um hann gilda nú lög nr. 14 30. mars 1960.

Eftir að mörg ríki höfðu fært út fiskveiðilögsögu sína gerbreyttist viðhorf manna til þessara mála. Það varð til þess að ríki, sem voru aðilar að þessari samvinnu, sögðu upp samningnum frá 1959, svo sem Noregur og Efnahagsbandalagsríkin. Þá var hafist handa um að reyna að ná samkomulagi um nýjan samning. Eru þær tilraunir raktar í athugasemdum sem fylgja frv. svo og hvaða ágreiningsefni þar var einkum um að ræða.

Það tókst loks á fundi í Portúgal, sem haldinn var í febrúar 1980, að ná samkomulagi um þau efni sem ágreiningur hafði verið um, svo sem um það, hvort aðildarríki Efnahagsbandalagsins skyldu koma fram hvert fyrir sig eða hvort það skyldi koma fram sem sjálfstæður aðili, svo og um greiðsluskyldu til þessarar samvinnustofnunar. En Íslendingar höfðu þar haft sínar athugasemdir og fékkst sérstakt ákvæði um að land, sem hefur minna en 300 þús. íbúa, skyldi þó aldrei greiða meira en 5% af heildarkostnaðinum. Um þetta er nú ákvæði í 17. gr. samningsins sem hér fylgir með, en meginreglan um greiðsluskiptinguna er þar sú, að aðildarríkin skuli greiða 1/3 kostnaðar að jöfnu, en síðan skuli 2/3 skipt á þau eftir því aflamagni sem þau veiða á svæðinu. Svo er gerð þessi undantekning um ríki sem hafa færri íbúa en 300 þús., og það er í raun og veru aðeins Ísland sem hún á við um, að þau skuli þó aldrei greiða meira en 5% af heildarkostnaðinum næstu 5 árin.

Þessi samningur var lagður fram í London 18. nóv. 1980 og var þá undirritaður, en gildi fær hann fyrst þegar sjö aðilar hafa fullgilt hann og þ. á m. þrír aðilar sem fiskveiðilögsögu hafa á samningssvæðinu. Ef hann hefur ekki öðlast gildi fyrir 18. nóv. 1981 geta fimm aðilar fullgilt hann, þar af þrír sem hafa fiskveiðilögsögu á svæðinu, þó með þeirri takmörkun að þá gildir samningurinn aðeins á milli þeirra.

Það er eins og í fyrri samningi gert ráð fyrir að sett sé á fót sérstök fiskveiðinefnd sem á að hafa með þessi mál að gera. Hún á að hafa skrifstofu í London. Um þetta er nánar ákvæði í 3. gr. samningsins. Í samningnum er að sjálfsögðu líka að finna ákvæði um hvernig ákvarðanir skuli teknar í nefndinni. Þær ályktanir, sem hún gefur, eiga að fjalla um hafsvæði utan fiskveiðilögsögu aðildarríkjanna, en hún getur ekki gert ályktanir varðandi svæði, sem eru innan fiskveiðilögsögunnar, nema hlutaðeigandi ríki óski eftir því.

Það er aðalreglan að hvert ríki hefur eitt atkvæði í þessari nefnd. Það eru reyndar ákvæði um það í samningnum hvernig ákvarðanir skuli teknar, sumar með einföldum meiri hluta, aðrar með vegnum meiri hluta, og eru um það nokkuð ítarleg ákvæði sett, sérstaklega í 8. gr.

Ég geri ráð fyrir að flestir telji eðlilegt að við tökum eins og áður þátt í þessari samvinnu. Við tökum þegar þátt í samvinnu varðandi Norðvestur-Atlantshafið og það er svipuð skipan þar: sérstök nefnd sem fjallar um þau svæði.

Einu andmælin, sem ég geri ráð fyrir að menn geti haft á móti þessu, eru þau að það kostar eðlilega mikið fyrir Ísland að taka þátt í þessu samstarfi. Þó að það hafi fengist tilslökun varðandi fimm fyrstu árin er líklegt, miðað við þær hugmyndir sem menn hafa um það hvernig starfsemin verður, en um það verður aldrei hægt að fullyrða, það er hægt að auka, en sér ekki að kostnaðarlausu, — þá er líklegt að framlag Íslands samkv. þessari 5%-reglu mundi verða um 2500 sterlingspund. Til þeirrar nefndar, sem hefur starfað samkv. þessum samningi frá 1960, hefur framlag Íslands verið 1500 sterlingspund.

Þetta frv. er hér seint á ferð og verður að sjálfsögðu að raðast hvort þingið treystist til að afgreiða það eða ekki. Ég geri ráð fyrir að sú nefnd, sem fær frv. til meðferðar, fari ítarlega yfir samninginn. Það er eins og gengur þegar er um að ræða milliríkjasamninga, að sjálfsagt þykir sumum orðafarið eitthvað öðruvísi en æskilegt er, en þetta er reynt að þýða þannig að bókstafurinn komi í ljós.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, herra forseti, heldur vísa til samningsins og leyfi mér að óska eftir því, að frv, verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.