29.04.1981
Neðri deild: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3832 í B-deild Alþingistíðinda. (3912)

305. mál, grunnskólar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er aðeins tvær greinar og þar stendur í fyrri greininni að stefnt skuli að því, að ákvæði laganna um síðasta ár skólaskyldu komi til framkvæmda samtímis á landinu öllu átta árum eftir gildistöku laganna.

Ég vil nú fylgja þessu máli eftir hér í stuttu máli. Það var vorið 1974 að samþykkt voru lög á Alþingi um grunnskóla, eins og þau hafa verið kölluð, en með þeim lögum voru settar ýmsar nýjar reglur um skyldunám barna og unglinga. Meðal annars voru hinir fyrri barnaskólar og gagnfræðaskólar sameinaðir í einn samfelldan skóla sem kallaður var grunnskóli. Þessi nýju lög voru þó tæpast eins mikil breyting frá eldri skyldunámslögum, þ. e. fræðslulöggjöfinni frá 1946, sem oft er látið í veðri vaka. Í fræðslulöggjöfinni frá 1946 voru þegar ýmsar þær heimildir til skólahalds og kennsluhátta sem teknar voru upp í grunnskólalögin frá 1974 beint eða óbeint. Þar á meðal var skólaskylda ákveðin 7–15 ára, þ. e. átta ára skólaskylda, en opnað fyrir þann möguleika að unglingar bættu við sig einu ári í frjálsu framhaldsnámi og lykju þá svokölluðu miðskólaprófi, þ. á m. landsprófi miðskóla, eftir níu vetra skólavist, þá 16 ára gömul. Þetta var strax komið í lög 1946.

Í 1. gr. laga um grunnskóla, nr. 63 frá 1974, segir hins vegar:

„Skylt er ríki og sveitarfélögum að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 7–16 ára . . . Skóli þessi nefnist grunnskóli og er öllum börnum og unglingum á nefndum aldri skylt að sækja skóla.“

Sé þessi grein lesin ein og sér verður ekki annað skilið en að skólaskylda sé undantekningarlaust níu ár, en séu grunnskólalög lesin í heild kemur annað í ljós. Einkum ber þar að vísa á 88. gr. laganna, en þar stendur að stefnt skuli að því að ákvæði laganna um síðasta ár skólaskyldu komi til framkvæmda sex árum eftir gildistöku laganna, þ. e. sex árum eftir 1974. Full skólaskylda samkvæmt 1. gr. grunnskólalaga kom því ekki til framkvæmda strax við gildistöku laganna, og enn geta ekki talist full skilyrði fyrir því að láta þessa framkvæmd taka gildi. Svo var reyndar einnig á s. l. ári, þegar sex ára tímabilið var liðið, og var lögunum þá breytt og heimild veitt til að fresta gildistöku níu ára skólaskyldu um eitt ár. Og enn er þá lagt til í frv., sem hér liggur fyrir, að framkvæmd skólaskyldu í níu ár verði frestað um eitt ár.

Nokkrar ástæður má færa sem rök fyrir þessari frestun. Ein rökin eru þau, að enn gætir talsverðs ágreinings meðal skólastjóra og kennara og ýmissa annarra ráðamanna svo og hins almenna borgara um hvort rétt sé að lögleiða beinlínis níu ára skólaskyldu eða láta hana taka gildi. Sú skoðun er býsna útbreidd að átta ára skólaskylda sé nægileg, en að unglingar eigi hins vegar þess kost eftir frjálsu vali að sækja 9. bekk. Í því sambandi má geta þess, að sérstök ráðherraskipuð nefnd frá 1979 hefur starfað að heildarendurskoðun laga um grunnskóla. Nefndin hefur nú skilað áliti og af því er ljóst að nm. eru ekki sammála um skólaskylduna. Þetta nál. er tiltölulega nýtilkomið og ætlunin er að senda það til kynningar skólamönnum og þingflokkum og e. t. v. fleiri aðilum, enda er ákveðið að innan skamms verði á vegum menntmrn. efnt til ráðstefnu um grunnskólamál á grundvelli þessa nál.

Í grg. fyrir þessu frv. er einnig minnst á þá röksemd, hversu mikilvægt sé að lok skyldunáms og nám á framhaldsskólastigi tengdust með eðlilegum hætti. Þótt mikið hafi verið unnið að því á undanförnum fimm til sex árum að fá samþykkta heildarlöggjöf um framhaldsskólastigið og þótt enn sé unnið að því að gera framhaldsskólafrv. þannig úr garði að um það geti ríkt sæmileg eining, þá er engin vissa fyrir því, að ný framhaldsskólalög taki gildi á þessu ári, a. m. k. ekki á þessu þingi. Mér finnst eðlilegt að tengja saman ákvörðun um níu ára skólaskyldu og samþykkt framhaldsskólalaga. Einnig vil ég geta þess, að ef níu ára skólaskylda er látin koma til framkvæmda mun það þýða aukið álag á Námsgagnastofnun sem hún er ekki fjárhagslega fær um að rísa undir eins og sakir standa.

Annars legg ég mesta áherslu á í þessu sambandi að það er verulegur ágreiningur um skólaskylduna og auk þess eru grunnskólalög í heild í endurskoðun og fram undan er að taka afstöðu til ýmissa hugmynda um breytingar á þeim. Þessar hugmyndir er fyrst og fremst að finna í áliti endurskoðunarnefndarinnar sem ég nefndi áðan, og ég endurtek að álit nefndarinnar verður sent ýmsum aðilum til kynningar og síðar, líklega í sumar eða í haust, verður efnt til ráðstefnu um grunnskólamál á grundvelli þessarar álitsgerðar.

Ég vona, herra forseti, að hv. alþm. geti greitt fyrir því, að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi, sem ég tel ákaflega brýnt að verði, og ég vænti þess, að hv. menntmn., sem ég geri uú ráð fyrir að fái málið til meðferðar, taki það til vinsamlegrar athugunar og afgreiðslu.

Ég legg til í lokin að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.