30.04.1981
Neðri deild: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3866 í B-deild Alþingistíðinda. (3920)

306. mál, verðlagsaðhald

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í deildinni í fyrradag gerði hæstv. forsrh. tilraun til að svara fsp. sem til hans hafði verið beint. Ég tel ástæðu til að rifja upp nokkrar þessara fsp. til að gefa hugmynd um hvaða svör voru gefin.

Það var í fyrsta lagi spurt um hver væri ákvörðun ríkisstj. varðandi þau ársfjórðungslegu meginmarkmið í verðlagsmálum sem ríkisstj. á að ákveða á hverjum tíma samkvæmt 1. gr. frv. Svarið var að engin ákvörðun hefði verið um það tekin.

Í öðru lagi var hæstv. ráðh. spurður um fyrirhugaðar tollalækkanir eða lækkanir óbeinna skatta, sem í ráði væri að gera samkvæmt yfirlýsingum ýmissa ráðh. Svar hæstv. forsrh. var: Ekkert er um þetta hægt að segja á þessu stigi.

Í þriðja lagi var hæstv. ráðh. spurður um hvaða ráðagerðir væru um búvöruverð með tilvísun til væntanlegrar 20% hækkunar útsöluverðs landbúnaðarvara 1. júní n. k. Svar ráðh. var: Engar ákvarðanir hafa verið um það teknar.

Í fjórða lagi var hæstv. ráðh. spurður um hvaða ráðagerðir væru um hækkun vaxta með tilvísun til ummæla ráðh. um að það væri fyrirhuguð vaxtalækkun. Svarið var: Ekki unnt að segja hver niðurstaðan verður.

Í fimmta lagi var hæstv. ráðh. spurður um hvaða efnislegar afgreiðslur yrðu á hækkunarbeiðnum opinberra stofnana. Svar ráðh. var: Ákvörðun hefur ekki verið tekin, en mun tekin fyrir eða um mánaðamót. — Nú heyri ég sagt að hæstv. ráðh. hafi sagt úr sæti sínu að þessar ákvarðanir hefðu verið teknar, en þingheimi hefur ekki verið tilkynnt neitt um það enn sem komið er úr þessum ræðustól.

Í sjötta lagi var hæstv. ráðh. spurður um hvað fælist í fyrirætlunum um niðurskurð ríkisútgjalda og hvernig nýta ætti þær heimildir sem fyrir væru í þeim efnum: Það er í fyrsta lagi heimild í fjárlögum um 30 milljóna nýkr. niðurskurð, í öðru lagi heimild í brbl. um lækkun fjárveitinga til verklegra framkvæmda samkv. fjárlögum og lánsfjáráætlun og í þriðja lagi heimild samkv. þessu frv. að upphæð 31 millj. nýkr. Þegar spurt var um hvað ríkisstj. hefði í huga, í hvaða efnum ætti að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, var svar hæstv. ráðh.: Engin ákvörðun hefur verið tekin um það.

Í sjöunda lagi var hæstv. ráðh. spurður hvort og þá með hvaða hætti heimild til aukinnar bindiskyldu sparifjár yrði notuð, og svar ráðh. var enn: Engin ákvörðun hefur verið tekin.

Ég hef hér gert grein fyrir sjö fsp. til hæstv. ráðh. og í öllum tilvikum voru svörin engin vegna þess að engin ákvörðun hafði verið tekin. Þetta frv., sem við erum hér að ræða um, ber því vitni, að engin ákvörðun hefur verið tekin efnislega í þeim veigamiklu málum sem nauðsynlegt er að stjórnvöld láti til sín taka.

Þetta er að vissu leyti málamiðlunarfrv., útþynnt vegna þess að vandamálum og úrskurðarefnum er skotið á frest, en á hinn bóginn er reynt með þessu frv. að skapa ríkisstj. heimild og vald til þess að ráðskast með þessi mál án þess að bera efnisniðurstöðu undir löggjafarsamkomuna. Hér er þess vegna farið fram á afsal löggjafarvaldsins til handa framkvæmdavaldinu á veigamiklum málaþáttum sem eiga heima innan verksviðs og valdsviðs Alþingis. Hér er um að ræða hættulega tilhneigingu og þróun til að styrkja framkvæmdavaldið á kostnað löggjafarvaldsins, og einstök efnisatriði þessa frv. bera því vitni að framkvæmdavaldinu er meira að segja afhent vald til geðþóttaákvarðana sem hingað til hafa ekki þótt vera sæmandi lýðræðisskipulagi, en aftur á móti einkenni einræðisstjórnarfars.

Það er ljóst af því, sem upplýst hefur verið í þessum umr. og í fjh.- og viðskn. deildarinnar og með tilvísun til grg, frv., að meira en lítið hættuleg er sú framkvæmd sem fyrirhuguð er varðandi 1. gr. frv., þar sem rætt er um ársfjórðungsleg meginmarkmið í verðlagsmálum sem ríkisstj. á að ákveða, vegna þess að það er ekki nóg með að ríkisstj. eigi að ákveða þessi ársfjórðungslegu meginmarkmið í verðlagsmálum, heldur er henni gefinn möguleiki á að fara upp fyrir þessi meginmarkmið í einstökum tilvikum varðandi verðlagsákvarðanir þegar málum er skotið til hennar. Af því á aftur á móti að leiða að bæði verðlagsráð og að því er virðist ríkisstj. sjálf eru á eftir bundin því, að svo miklu leyti sem hún fer yfir þessi ársfjórðungslegu meginmarkmið, að taka tillit til þess við afgreiðslu annarra verðákvarðana þannig að þær ákvarðanir séu að sama skapi undir þessum ársfjórðungslegu meginmarkmiðum, sbr. orðalagið í athugasemdum við lagafrv. þetta, „enda verði heildarútkoman innan við hin settu mörk“. Það er þess vegna ljóst að verðlagsákvarðanir samkvæmt 1. gr. þessa frv. verða algerar geðþóttaákvarðanir. Einstaklingar og fyrirtæki eru ofurseld geðþóttaákvörðunum ríkisvaldsins. Hér er um slíkt stjórnlyndi og miðstýringu að ræða að fáheyrt er hér á Íslandi og algerlega andstætt stefnu Sjálfstfl. og lýðræðishugsjónum. Við þetta bætist svo að í 2. gr. er verið að styrkja verðlagsyfirvöld, sem taka þannig geðþóttaákvarðanir, til þess að framfylgja þeim með því að stytta sér réttarfarslega leið. Þetta gerir það að verkum að einstaklingar og fyrirtæki eiga á hættu að hlíta eignarnámi án bóta gagnstætt ákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég hlýt að ítreka og endurtaka að því verður ekki trúað, fyrr en á reynir að lokum í atkvgr. hér á Alþingi, að nokkrir sjálfstæðismenn muni greiða slíkum lagaákvæðum atkvæði sitt.

Hæstv. ráðh. sakaði mig um það í ræðu sinni í fyrradag að mæla því bót, að menn brjóti lög, og átti þá við andmæli mín við lögbannsleiðinni sem hann játaði raunar að væri til þess í lögum að fljótvirkari afgreiðslu mála yrði á komið og fyrr yrði komið refsingu við gagnvart þeim sem verðlagsyfirvöld teldu hafa brotið verðlagsákvæði. Nú er það svo, að enginn er sekur, en allir eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð, og ég hefði ekki álitið að hæstv. ráðh., sem er fyrrverandi lagakennari, væri þeirrar skoðunar, að einstaklingurinn ætti ekki rétt á réttarvernd og ætti ekki rétt á því að verja sig gagnvart hinu opinbera, og þar á meðal væri það ekki í samræmi við réttarfarsreglur ef hagsmunum hans væri stefnt í slíkan voða að hann gæti ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Ég tel grundvallarskilyrði að einstaklingurinn hafi slíka réttarvernd, og ég tel hættu á því, að með því að beita lögbannsleiðinni sem aðalreglu í verðlagsmálum eða meintum verðlagsbrotum sé þessi réttarvernd skert svo mjög að þegar saman fari geðþóttaákvarðanir samkv. 1. gr. sé einstaklingsfrelsi stefnt í hættu og inn á braut lögregluríkis farið. En það er markmið út af fyrir sig að flýta meðferð mála fyrir dómstólum landsins má telja það af hinu góða, en spurningin er hvers vegna lausnin sé þá ekki að gera öll mál að fógetamálum. Ég held að þótt vissar skorður séu settar, sem vernda einstaklinginn og gerðarþola í lögbannsmálum, sé hætta á að réttarverndin sé þar rýrari en í almennum málum og m. a. í opinberum málum. Það er og ástæða til þess, að það sé ekki Verðlagsstofnunin eða verðlagsyfirvöldin sem slík sem kveði á um það, hvort mál sé höfðað á hendur ákærða í slíkum málum. Það er ástæða til þess, að hinn ákærði hafi sama rétt og sömu vernd og ákærði í opinberum málum, þ. á m. í sakamálum, sem felst í því að það er ríkissaksóknari sem ákveður hvort opinbert mál skuli höfðað.

Það er fyllilega ástæða til þess að spyrjast fyrir um það hvað felst í orðalagi í 2. gr.: „Fari aðili eða samtök aðila ekki að fyrirmælum réttra verðlagsyfirvalda er verðlagsstofnun heimilt að krefjast þess, að fógeti leggi lögbann við byrjuðu eða yfirvofandi broti á fyrirmælunum.“

Það er fyllilega ástæða til þess að spyrja hvað felst í orðalaginu verðlagsstofnun. Er það verðlagsráð sem hefur þennan rétt að gera kröfu um lögbann, er það verðlagsstjóri einn sem hefur þetta vald, eða þarf atbeina viðskrh., og hvaða heimild hafa verðlagsstjóri, verðlagsráð eða viðskrh. í slíkum tilfellum til að setja þá tryggingu sem fógeti mögulega krefst að sett verði þar sem um mikla fjárhagslega hagsmuni er að ræða?

Ég tel og ítreka að efnisinnihald 1. og 2. gr. þessa frv. eigi sér tæplega fordæmi, jafnvel á þeim haftatímum sem við höfum gengið í gegnum Íslendingar, og það er sorglegt til þess að vita, að aðstandendur þessa frv. skuli fara svo á svig við hugsjónir og yfirlýsta stefnu sína áður. Í því sambandi er rétt að koma að því, að hæstv. viðskrh. hefur lýst yfir í útvarpinu að Framsfl. væri flokkur sem vildi frjálsa samkeppni milli samvinnuverslunar og einkaverslunar, sem gæti best haldið vöruverði niðri, en hins vegar tæki Framsfl. nú þátt í samsteypustjórn og yrði að taka tillit til sjónarmiða samstarfsaðila. Nú hefði ég haldið að sjálfstæðismenn þeir, sem aðild eiga að ríkisstjórn, hefðu sömu skoðun og hæstv. viðskrh. lýsti sem sinni, að þeir vildu frjálsa samkeppni. Hins vegar vitum við að Alþb. er ekki málsvari eða formælandi frjálsra viðskipta. Við vitum að Alþb. vill höft og hömlur og leggja valdið í opinberar hendur. Það er bersýnilegt af þessu, að Alþb. hefur brotið á bak aftur bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn í ríkisstj., það er Alþb. sem ræður ferðinni.

Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. í fyrradag að hann gæti verið sammála um að frjáls samkeppni tryggði best hag neytenda, en bætti því við: þegar sæmilegt jafnvægi ríkir í efnahagslífinu. En svo sagði hann að þegar verðbólgan væri svo mikil sem raun ber vitni væri frjáls samkeppni ekki leiðin, þá væri nauðsynlegt að hafa verðlagseftirlit. Nú er það einmitt spurningin, hvort það er ekki frjáls samkeppni sem einmitt í verðbólgu er leiðin til þess að vinna bug á verðbólgunni. Ef hæstv. ráðh. er t. d. þeirrar skoðunar, að það sé sæmilegt jafnvægi í efnahagslífinu að öðru leyti en verðlagshækkanir bera vitni um, og það er auðvitað alvarlegur brestur, skyldi maður ætla að frjáls samkeppni væri einmitt leiðin til að koma verðbólgunni niður. Reynslan sýnir okkur bæði hérlendis og erlendis að þegar frjáls samkeppni er og nægilegt vöruframboð, þá er frekast von á að halda verðhækkunum í skefjum og raunar að ná fram verðlækkunum.

Það hefur komið hér fram að ákvæði það í brbl., sem felst í 5. gr. þessa frv., um hækkun bindiskyldu, er eitt af mörgum dæmum þessa frv. sem gerir ráð fyrir geðþóttaákvörðunum stjórnvalda. Með þessari grein og jafnvel með þeirri brtt., sem við hana er flutt, er gert ráð fyrir að Seðlabanki og ríkisstj. hafi í hendi sér hvað mikið af sparifé landsmanna verði tekið til nota fyrir ríkisframkvæmdir og hið opinbera eða í öðru því skyni sem stjórnvöld ætla. Það er ekki trúleg skýring af hálfu stjórnvalda að segja þetta ákvæði til þess fallið að ná sterkari tökum á stjórn peningamála þegar af þeirri ástæðu, að um leið er verið að tvöfalda og meira en tvöfalda erlendar lántökur til landsins. Það væri nær að byrja á því að draga úr þeim lántökum áður en þessi leið er farin, auk þess sem skynsamlegra væri, eins og málsvarar Sjálfstfl. við þessa umr. hafa bent á og ég raunar við 1. umr., að lækka endurkaup Seðlabankans, en fela viðskiptabönkunum útlán til atvinnuveganna að sama skapi meira.

Þá hefur það og komið fram að engin svör hafa fengist um hver er stefna stjórnvalda hvað snertir vexti. Það er að vísu góðra gjalda vert að verðtryggingu hefur verið komið á í innlánsreikningum. Við það hafa innlán aukist á þeim reikningum, en eingöngu á þeim reikningum og raunar meira á þeim reikningum en innlán í heild sinni hafa aukist. Þetta er góðra gjalda vert, en á hinn bóginn hlýtur afleiðingin af því að vera að fjármagnskostnaður lántakenda hlýtur að fylgja verðtryggingu. Þess vegna er tómt mál að tala um lækkun vaxta þegar verðbólgustigið er svo hátt sem raun ber vitni. Jafnvel þótt því markmiði ríkisstj. yrði náð að verðbólgan væri ekki meiri en 40% frá upphafi til loka þessa árs eru vextir núna um það bil. Því er tilgangslaust og út í hött fyrir ríkisstj. að telja sig þess umkomna að lækka vexti þar sem innlánsfé er bundið verðtryggingu. Þegar svo er haft í huga að engar líkur eru til þess, að verðbólgan náist niður í 40%'á þessu ári, heldur miklu meiri líkur að hún verði 50–60%, þá er fyrirsjáanleg vaxtahækkun eða hækkun fjármagnskostnaðar ef ríkisstj. ætlar sér að fylgja brbl. frá því á gamlársdag.

Ríkisstj. hóf feril sinn með stjórnarsáttmála sem sagði að stefnt skyldi að lækka vaxta. Hún hóf feril sinn þegar á fyrsta ári með því að hækka vexti um 2.5 til rúmlega 4%. Það var þess vegna ákaflega lítið spor til baka þegar vextir voru lækkaðir um 1% í febrúarmánuði s. l. Það er áreiðanlega hámark þess sem unnt er að búast við varðandi fyrirhugaða og umtalaða svokallaða vaxtalækkun ríkisstj. að um álíka lítið skref sé að ræða nú og var fyrr á árinu. Og þótt bæði skrefin séu tekin saman eru þau styttri en vaxtahækkunin var sem ríkisstj. stóð að á síðasta ári.

Hæstv. ráðh. nefndi að atvinnureksturinn og fyrirtæki og einstaklingar, sem hefðu aðra menn í vinnu, mættu vera ákaflega þakklát ríkisstj. fyrir að hafa lækkað kaupið um 7%, verðbætur launa um 7%. Ef þakklætið á að vera svona einlægt hjá vinnuveitendum er auðvitað spurningin hvort launþegar geti undir slíkt þakklæti tekið. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki fjarri lagi ef minni launakostnaður verður til þess að tryggja atvinnuöryggi og treysta undirstöður atvinnuveganna. En ég hef litla trú á að launþegar séu ákaflega þakklátir fyrir slíka kauplækkun. Við þá er raunar sagt að hér sé um jöfn, slétt skipti að ræða. Og í hverju eru þessi sléttu skipti fólgin? Þau eru fólgin í því, að það á að hækka kaupið seinni hluta ársins með afnámi skerðingarákvæða Ólafslaga meira en ella hefði orðið og það á að bæta kaupmátt launa með lækkun skatta.

Nú getur vel farið svo, að afnám svokallaðra skerðingarákvæða Ólafslaga muni lækka kaup launþega seinni hluta ársins ef viðskiptakjör fara batnandi. Í fréttum hefur sem betur fer komið fram að það fæst mjög gott verð fyrir saltfiskinn og skreiðina. Og hæstv. sjútvrh. hafði orð á því hér úr ræðustól um daginn, að það væri von til þess að hækkað verð fengist fyrir frystan fisk á Bandaríkjamarkaði. Jafnvel hefur flogið fyrir að slík verðþróun á frystum fiski sé á Evrópumarkaði. Það hefur líka komið fram í fréttum að olíuverð fer lækkandi. Standa því vonir til að viðskiptakjörin fari batnandi. En ákvæði Ólafslaga voru einmitt um það, að verðbætur á laun ættu að breytast eftir viðskiptakjörum. Þessi ákvæði hafa lækkað verðbætur launa um ótaldar prósentur á þeim 16–18 mánuðum sem þessi skerðingarákvæði giltu, en nú, þegar vonir standa til að viðmiðun við viðskiptakjör geti mælt launþegum hærri laun, eru þau afnumin. Þeir, sem hreykja sér mest af afnámi þeirra, eru einmitt þm. Alþb. og þ. á m. formaður Verkamannasambands Íslands. Dæmið lítur þess vegna þannig út, að til viðbótar 7% kauplækkun, lækkun verðbóta á laun, geti vel farið svo, að um frekari skerðingu á verðbætur, ef miðað er við viðskiptakjör, verði að ræða.

En látum nú það vera í bili og snúum okkur að fyrirtækjunum. Að svo miklu leyti sem launþegar fá bætta þá 7% kaupskerðingu sem orðin er, og þá er það helst með lækkun skatta á lægri tekjur, þá er það gert á kostnaði fyrirtækja og einstaklinga sem hærri tekjur hafa. Talið er að skattalækkun taki til þeirra sem höfðu allt að 9 millj. gkr. á síðasta ári í tekjur, en allir þeir, sem hafa hærri tekjur, verða að þola auknar skattaálögur. Jafnframt hefur verið upplýst að meira en helmingur verkamanna hefur tekjur er nema um eða yfir 12 millj. gkr. á síðasta ári, þ. e. að meira en helmingur verkamanna verður að borga þyngri skatta á þessu ári en á síðasta ári. Þannig eru þau sléttu skipti. Og gagnvart fyrirtækjunum er auðvitað um að ræða að það, sem þau út af fyrir sig e. t. v. vinna með því að kaupgjald er 7% lægra, verða þau að borga aftur með hærri sköttum og með e. t. v. hærri kaupgjaldi seinni hluta ársins en ella hefði verið. Það er þó, eins og ég hef þegar rakið, ekki víst.

Nú liggur fyrir skattafrv. sem gerir ráð fyrir verulega hærri skattgreiðslum atvinnufyrirtækja á þessu ári en um var að ræða á síðasta ári, og þegar þessu til viðbótar eru ráðgerð verðlagshöft í líkingu við þau, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er ljóst að atvinnuvegirnir, atvinnufyrirtækin og einstaklingarnir, sem í atvinnurekstri standa, geta ekki hrópað húrra fyrir 7% kauplækkun sem brbl. höfðu inni að halda. Sannleikurinn er sá, að með verðlagshöftum og opinberum afskiptum, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, með geðþóttaákvörðunum yfirvalda varðandi verðlag án tillits til kostnaðar við framleiðslu eða dreifingu vöru, eru fyrirtækin í slíkri spennitreyju að þau geta ekki veitt þeim, er vinna hjá þeim, neinar þær tekjubætur eða kjarabætur sem þau gætu ef þau hefðu sjálfdæmi um verð vöru sinnar og þjónustu, aðeins bundin af þeirri samkeppni sem önnur samsvarandi fyrirtæki veita þeim, en það er það verðlagsaðhald sem eitt dugar til þess að halda verðbólgunni í skefjum.

Með þessu frv. og með auknum sköttum er ljóst að kippt verður grundvelli undan vexti og viðgangi atvinnuvega í landinu. Það verður komið í veg fyrir að nýjar atvinnugreinar verði okkur til framdráttar. Stöðnun á öllum sviðum blasir við vegna tilverknaðar núv. ríkisstj. og stefnu hennar í skatta- og verðlagsmálum. Hin dauða hönd Alþb. í orku- og iðjumálum innsiglar svo þá raunalegu niðurstöðu af meðferð mála er hnígur öll á þá leið, að verðbólgan geysist áfram og lífskjörin skerðast með hverri viku sem líður.