30.04.1981
Neðri deild: 86. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3882 í B-deild Alþingistíðinda. (3929)

306. mál, verðlagsaðhald

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja hér tvær brtt. við frv. ásamt Matthíasi Á. Mathiesen og Albert Guðmundssyni.

Fyrri brtt. er við 2. gr. frv., svo hljóðandi: „Orðin „eða yfirvofandi“ í 1. mgr. falli brott.“

Hin till. er við 5. gr.: „Í stað „17%“ í 1. mgr. komi: 15%.“ Þessi grein er um lækkun vörugjalds úr 30 í 17%, sem samþ. var við 2. umr. Fyrir þessari deild liggur frv. um breytingu á lögum um vörugjald sem flutt er af þremur þm. stjórnarliðsins, og í því frv. leggja þeir til að í stað 30% komi 15%. Þó að það hafi verið komið nokkuð til móts við okkar sjónarmið í þessu efni finnst okkur flm. þessarar till. rétt að ganga nú ekki skemur en þrír stjórnarliðar hafa lagt til að gengið verði. Þó hefðum við sjálfstæðismenn viljað leggja þetta vörugjald niður með öllu, enda vorum við þeirrar skoðunar í des. En það ætti nú að takast að miða þessu áfram í rétta átt með því að halda málinu vakandi. Ég tel að nokkuð góður árangur hafi náðst og enn betri í sjónmáli.