30.04.1981
Efri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3884 í B-deild Alþingistíðinda. (3939)

306. mál, verðlagsaðhald

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram í hv. Nd. s. l. mánudag. Fjh.- og viðsk.- nefndir beggja deilda hafa unnið sameiginlega að athugun þess og hefur það nú verið afgreitt frá hv. Nd.

Það eru þrjú meginatriði í þessu frv.: Í fyrsta lagi að áfram sé haldið aðhaldi í verðlagsmálum, í öðru lagi að auknir séu möguleikar á aðhaldi í peningamálum og í þriðja lagi niðurskurður framkvæmda- og rekstrarútgjalda.

Í 1. gr. frv. er kveðið á um það fyrirkomulag sem skuli koma í stað þeirrar svokölluðu verðstöðvunar eða herts verðlagseftirlits sem ákveðið var með brbl. á gamlársdag og síðan staðfest af Alþingi og skyldi gilda í fjóra mánuði eða til loka þessa mánaðar. Nú er tekinn upp sá háttur, eins og boðaður var í efnahagsáætlun ríkisstj. frá því á gamlársdag, að ríkisstj. setji ársfjórðungsleg meginmarkmið í efnahagsmálum. Nú liggur að vísu ekki fyrir endanlega hver framfærsluvísitalan fyrir maímánuð verður, en gert ráð fyrir að hún verði milli 8 og 9%, þó líklega nær 8%. Það markmið, sem ríkisstj. setur sér fyrir næsta þriggja mánaða tímabil, má gera ráð fyrir að liggi nærri framfærsluvísitölunni þegar hún hefur verið reiknuð út. Með þessu er ætlast til að verðhækkanir verði í heild ekki yfir þessu marki. Það er vitað að í ýmsum greinum muni ekki þurfa á þeirri verðhækkun að halda sem hér er gert ráð fyrir. Það má t. d. nefna að þar sem launagreiðslur eru ekki mjög stór hluti af framleiðslukostnaði og aðrar þarfir atvinnufyrirtækisins hækka ekki eins mikið og verðbætur eða kaupgjald muni ekki þurfa á þessari prósentu að halda. Hins vegar er viðbúið að sum önnur fyrirtæki kunni að þurfa á mun meiri hækkun að halda vegna erlendra hækkana eða af öðrum ástæðum. Hér er því breytt til frá því herta verðlagseftirliti, sem ákveðið var um áramótin, og gert ráð fyrir meira svigrúmi en í þeim ákvæðum.

Í 2. gr. er svo fjallað um framkvæmd verðlagsákvæða. Það er þannig nú, að Verðlagsstofnun telur sig ekki hafa nægar heimildir til að fylgja ákvörðunum sínum eftir. Ef einhverjir brjóta gegn þeim, — sem betur fer er það tiltölulega sjaldan því að allur þorri manna hlítir ákvæðum og fylgir lögum, — en ef einhverjir brjóta þar í gegn er sú aðferðin, sem notuð hefur verið hingað til, að kæra málið til réttra yfirvalda og síðan er það ákvörðun saksóknara hvort mál verður höfðað. Allt tekur þetta langan tíma, oft nokkra mánuði eða jafnvel svo misserum skiptir. Á meðan hefur Verðlagsstofnun ekki talið sig hafa heimild til að stöðva hina ólöglegu hækkun, þannig að vara er þá iðulega seld á hinu ólöglega verði alllangan tíma. Verðlagsstofnunin hefur gert tillögu til ríkisstj. um að tekið yrði í lög það ákvæði sem greinir í 2. gr. þessa frv., þ. e. að Verðlagsstofnun sé heimilt að krefjast þess að fógeti leggi lögbann við byrjuðu eða yfirvofandi broti á verðlagsákvæðum. — Nú eru gildandi lög um kyrrsetningu og lögbann frá 1949, og það orðalag, sem hér er upp tekið, „byrjað eða yfirvofandi,“ er tekið beint upp úr þeim lögum.

Í 3. gr. frv. er lagt til að vörugjaldið á gosdrykki lækki úr 30% í 17%, en varðandi tvo síðustu mánuði sé heimilt að lækka það niður í 25%. Þetta gjald hefur verið mjög umdeilt, eins og kunnugt er, og þessi atvinnugrein talið að hið nýja gjald hafi dregið úr sölu á þessum vörum. Er hér gengið til móts við þau sjónarmið, bæði atvinnurekstrarins og starfsfólks þar, að hætta sé á samdrætti í þeim efnum.

Í 4. gr. er svo ákveðið að ríkisstj. sé heimilt að lækka ríkisútgjöld, þar með talin lögbundin framlög, um allt að 31 millj. kr. Hér er farið fram á nokkru rýmri heimild en er í gildandi lögum, m. a. lögum um viðnám gegn verðbólgu sem ná til þess að fresta verklegum framkvæmdum. Hér er rætt um víðtækari heimild til að lækka ríkisútgjöld. Hér er átt við bæði framlög til verklegra framkvæmda, rekstrarútgjöld og framlög t. d. til sjóða. Er gert ráð fyrir að nota það fé, sem þannig vinnst, til þess að lækka framfærslukostnað í landinu, sumpart til að mæta tekjumissi ríkissjóðs vegna lækkunar vörugjaldsins og sumpart í auknar niðurgreiðslur.

Þá er í 5. gr. gert ráð fyrir að rýmka heimildir Seðlabanka til innlánsbindingar í bönkum og sparisjóðum. Nú er hámarkið í lögum 28%, en hér er heimild til handa Seðlabankanum til að hækka þau mörk, enda komi samþykki ríkisstj. til. Í þessu efni var gerð breyting að tillögu 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd., eins og greinir á þskj. 691.

Segja má að þetta frv. sé í beinu framhaldi af efnahagsáætlun ríkisstj. frá því á gamlársdag og þeim ráðstöfunum sem þar voru ákveðnar. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn., og vil ítreka þá ósk, sem ég hef borið fram áður, að frv. nái afgreiðslu út úr þessari hv. deild og þar með frá þingi nú í dag.