30.04.1981
Efri deild: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3889 í B-deild Alþingistíðinda. (3941)

306. mál, verðlagsaðhald

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta frv., eins og ýmislegt annað sem hefur komið frá hæstv. ríkisstj., kemur fram á elleftu stundu. Í þessu tilviki eru Alþingi ekki ætlaðir nema fáeinir dagar til að fjalla um þetta mál. Sjálf hefur ríkisstj. setið dögum saman við að semja þetta plagg. Mér reiknast svo til að það hljóti a. m. k. 100 dagsverk af hálfu ráðh. að liggja í þessu frv. Sumum hefði þótt þetta heldur rýr eftirtekja af 100 dagsverkum á háum launum, en af þessu feiknaframlagi og sífelldum fréttatilkynningum frá ríkisstj. um stórvirki þau, sem hún væri að vinna á hverjum degi við samningu þessa frv., hefði mátt ætla að eitthvað stórt og merkilegt kæmi frá henni.

Ég held að það sé óhætt að segja um þetta frv. að það sé smærra og efnisminna en aðdragandi þess gaf tilefni til að ætla. Nú hefur ríkisstj. með þessu háttalagi sínu auðvitað sýnt Alþingi mikla óvirðingu með því að ætla stjórnarandstöðunni og Alþingi í heild svo knappan tíma til umfjöllunar um þetta mál, en ríkisstj. leggur ofurkapp á að þetta mál verði afgreitt héðan frá þessari deild í kvöld. Við þm. Alþfl. munum þó verða við ósk ríkisstj. og ekki standa í vegi fyrir því, að frv. hljóti afgreiðslu. En það er rétt að geta þess varðandi tvö atriði þegar á þessari stundu hversu léttvæg þau verða að teljast.

Það er farið fram á sérstaka heimild til að skera niður ríkisútgjöld, en heimildir, sem fyrir hendi eru, hafa ekki verið nýttar. Það er líka rétt að líta á að hér er ekki um raunverulegan sparnað í ríkisrekstrinum að ræða, ekki heildarniðurskurð, ef svo má segja, heldur einungis tilflutning í niðurgreiðslum.

Varðandi hitt meginatriði frv., um það að setja á ný lög og lagaheimildir um stjórn verðlagsmála, verður að segjast að það hafa í rúman áratug verið fyrir hendi mjög rúmar lagaheimildir um þetta efni og tvöföld verðstöðvun a. m. k. í gildi af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Það er vandséð hvaða tilgangi það þjónar að vera með sífelldar orðalagsbreytingar og málalengingar um framkvæmd laganna. Hitt vekur ýmsum ugg, að það kunni að liggja að baki þessum lagabreytingum gildrur um að beita þeim á enn þá ófaglegri hátt en gert hefur verið. Þetta tel ég rétt að komi fram þegar á þessari stundu.

Ég mun ekki, herra forseti, fjölyrða að öðru leyti um efnisatriði í þessari umr. núna, en gera nánari grein fyrir afstöðu okkar Alþfl.-manna við 2. umr. um málið. — En að lokum: Þetta er lítilsiglt frv. og skiptir engum sköpum um efnahagsstjórn hér á landi. Þetta er lítið frv. og harla lélegt.