30.04.1981
Efri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3890 í B-deild Alþingistíðinda. (3944)

306. mál, verðlagsaðhald

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar deildar fjallaði um frv. á sameiginlegum fundum með fjh.- og viðskn. Nd. Í ítarlegri framsöguræðu formanns fjh.- og viðskn. Nd. kom fram lýsing á störfum n. að málinu. Auk þess hefur fjh.- og viðskn. þessarar deildar haldið fund um málið í kvöld og fengið m. a. sérstaka umsögn frá Þórði Friðjónssyni hagfræðingi í forsrn. um framkvæmd 1. gr. laganna. Við teljum að þessi umfjöllun, sem farið hefur fram á fundum nefnda þingsins bæði í gær og í dag, feli í sér allgreinagóða mynd af því sem hér er um að ræða, þótt vissulega hafi tíminn verið naumur. Ég vil því þakka meðnm. mínum í þessari nefnd og einnig fjh.- og viðskn. Nd. fyrir mjög ötult starf að framgangi þessa máls og lipurt samstarf við að greiða fyrir framgangi þess.

Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kemur frá Nd. Við erum þeirrar skoðunar, að þetta frv. sé einn steinninn í þá traustu götu sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið að leggja síðan hún tók við völdum og færir þjóðina frá því óðaverðbólgu- og upplausnarþjóðfélagi, sem hér var ríkjandi allt of oft áður, og yfir í samfélag þar sem framþróun atvinnulífsins og aukin og bætt lífskjör í landinu varða þá meginefnahagsstefnu sem við lýði er.

Það hefur komið fram hér í þessari deild áður að að þessari stefnumótun er unnið með margvíslegum hætti, bæði með þeim fjárlögum, sem samþykkt voru hér fyrir áramót, með þeirri sérstöku fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem samþykkt var hér fyrir nokkru, með brbl., sem sett voru um áramót, og þeirri efnahagsáætlun, sem fylgdi þeim, og einnig með því frv. sem hér liggur fyrir og meiri hl. n. leggur til að verði samþykkt.