30.04.1981
Efri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3896 í B-deild Alþingistíðinda. (3947)

306. mál, verðlagsaðhald

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það hefur einkennt umr. sumra stjórnarandstæðinga, bæði hér og í hv. Nd., að samtímis er ríkisstj. ásökuð fyrir að verðbólgan sé of mikil, en svo er hamrað á því í ræðu eftir ræðu að ríkisstj. synji í stórum stíl um hækkanir á verði ýmiss konar þjónustu og vöru. Hér eru t. d. í þessum ræðustól gerðar kröfur um að leyfðar séu miklu meiri hækkanir en þær sem samþykktar hafa verið, t. d. nú varðandi opinberar stofnanir. Um þennan málflutning og þessar mótsagnir þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum.

Fsp. hv. síðasta ræðumanns er næsta furðuleg. Hann spyr mig um það hér og biður um að upplýsa hvaða fyrirtæki í landinu það séu sem komist af með minna en 8% hækkun. Væntanlega á ég þá líka að svara því og telja upp hvaða fyrirtæki í landinu þurfi meira en 8% hækkun. Ég er alveg undrandi á hv. þm. að leyfa sér að bera fram svona vitlausar fsp. Hvernig dettur manninum í hug að ég fari að telja upp einstök fyrirtæki áður en það er metið af réttum verðlagsyfirvöldum? Það hefur alltaf verið þannig og verður þannig að verðlagsyfirvöld verða að skoða hvert einstakt fyrirtæki og athuga hvað hækkunarþörfin er mikil. Það er hrein fjarstæða að bera fram svona fsp.

Hitt er auðvitað ljóst, eins og ég hef tekið fram bæði hér og í hv. Nd. og seinast í ræðu minni við 1. umr. málsins, að þegar ríkisstj. hefur sett sín viðmiðunarmörk, og við skulum segja að þau yrðu svipuð því sem framfærsluvísitalan verður, sem við vitum ekki enn hver verður, þá er auðvitað augljóst hverjum manni hverjar eru hækkunarþarfir einstakra fyrirtækja og atvinnugreina. — Hv. þm. hefur ekki nenningu einu sinni til að hlusta á þegar verið er að svara honum.

Það er auðvitað ljóst hverjum manni að hvert fyrirtæki verður að meta fyrir sig. Ég benti á það í framsöguræðu minni að sum fyrirtæki þurfa miklu meiri hækkanir en önnur, vegna hækkana af erlendum toga t. d. Ég hef nefnt það áður að t. d. er mjög mikil hækkun á áburðarverði. Mörg fyrirtæki nota mikla olíu og vegna verðhækkana á henni þarf vafalaust miklu meira en meðalhækkanir. Hins vegar hef ég líka bent á að sum fyrirtæki hafa ekki mjög mikinn launakostnað. Við skulum segja að laun mundu hækka milli 8 og 9% þar sem kannske minni hluti tilkostnaðar er launakostnaður, en annar kostnaður hækki minna en þetta þá er augljóst að ekki eru rök fyrir því að láta það fyrirtæki fá sömu hækkun og launin hækka. Þetta ætti hv. þm. að skilja. Það er t. d. ekki víst að fjármagnskostnaður fyrirtækis hækki eins mikið nú á næstunni og launin. Því hefur verið lýst yfir af ríkisstj., að hún muni beita sér fyrir því, og hún hefur þegar tilkynnt Seðlabankanum að það sé stefnt að vaxtalækkun 1. júní í stað vaxtahækkunar sem þessi hv. þm., eins og ýmsir aðrir hávaxtamenn, mun auðvitað heimta.

Ég nefni fjármagnskostnað. Það er hugsanlegt í sumum tilfellum að hann hækki ekki eins mikið og launakostnaður. Ég get nefnt það sem dæmi að gjaldskrárnefnd, sem kannaði mjög rækilega fjárhag og fjárþörf Hitaveitu Reykjavíkur, lagði til við ríkisstj. að gjaldskrá Hitaveitunnar hækkaði um 7%. — Ég vil segja að þetta er einhver furðulegasti þm. sem ég hef kynnst. Hann ber fram fsp. og krefst þess að ég svari þeim. Svo hlustar hann ekki á orð af því sem ég er að segja. Auðvitað er ég búinn að svara honum því, að þessar fsp. eru fráleitar, það er ekki hægt að svara með því að ég fari að telja upp öll fyrirtæki og hvort þau eigi að fá hækkanir prósentunni meira eða minna. Það er ekki mitt hlutverk, heldur er það hlutverk verðlagsyfirvalda sem kanna það á hverjum tíma. — En ég vil aðeins skýra þetta almennt. Það var t. d. mat gjaldskrárnefndar að Hitaveita Reykjavíkur ætti að fá 7% hækkun nú. Sú tillaga var gerð eftir mjög ítarlega athugun á þeim fjármálum. Hér rísa menn upp og tala um í þessum ræðustól að þetta sé allt of lítið. Sem sagt: Mennirnir, sem berjast á móti verðbólgunni, sem vilja lækkun verðlags, mennirnir, sem ráðast á ríkisstj. fyrir að hún sé verðbólgustjórn og það sé allt of mikil verðbólga, heimta að hvert fyrirtæki eftir annað fái meiri hækkanir, verðlag hækki meira en ríkisstj. hefur ákveðið.

Það er augljóst hverjum manni sem eitthvað vill hugsa um þessi mál hleypidómalaust og án þess að það sé eins og frosið fyrir skilningarvitin, að við það mat, sem mun fram fara á fyrirtækjunum á næstunni, þurfa fyrirtækin misjafnlega miklar hækkanir. Ég mótmæli því gersamlega þeirri kenningu hv. síðasta ræðumanns, að hvert fyrirtæki í landinu þurfi a. m. k. 8% hækkun og flest líklega meira. Þessum verðbólguskoðunum og verðbólgukenningum er full ástæða til að mótmæla harðlega. Þetta er fjarri öllu lagi.

Með þessu er búið að svara því sem unnt er að svara á þessu stigi. Eins og í lögunum segir verða sett almenn viðmiðunarmörk til leiðbeiningar fyrir verðlagsyfirvöld.

Þau meta svo hvort tiltekið fyrirtæki þarf minni hækkun, hver þurfa meiri, og í samræmi við það verða auðvitað ákvarðanir verðlagsyfirvaldanna.