04.05.1981
Efri deild: 91. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3919 í B-deild Alþingistíðinda. (3969)

2. mál, skráning á upplýsingum er varða einkamálefni

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. þessarar deildar hefur fjallað ítarlega um frv. til l. um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni. Nefndin hefur fjallað um þetta mál á 11 fundum og hún sendi það allvíða til umsagnar og ræddi við fjölmarga aðila, m. a. hagstofustjóra, fulltrúa Skýrsluvéla ríkisins og fulltrúa Verslunarráðs Íslands, svo að nokkuð sé nefnt. Leitast var við að taka tillit til umsagna eftir því sem ástæður þóttu gefa tilefni til.

Það kom fljótlega í ljós þegar allshn. fór að skoða þetta frv., að henni þótti frv. nokkuð viðamikið og þessi mál gerð óþarflega flókin. Þótt vissulega sé hér í eðli sínu ekki um einföld mál að ræða er einmitt sérstök ástæða til, þegar verið er í fyrsta skipti að setja lög um málaflokk sem þennan, að reyna að hafa þau ekki flóknari en þarf að vera og eins einföld og ljós og auðið er. Það voru m. a. ákvæðin í frv. um svokallaða tölvunefnd, sem á að hafa umsjón með þessum málum, sem allshn. þóttu ganga fulllangt og ýmislegt benda til að þarna yrði e. t. v. um nýtt stjórnsýslubákn að ræða. Og raunin mun hafa orðið sú, sums staðar a. m. k. á Norðurlöndum þar sem hliðstæðar nefndir hafa verið settar á laggirnar, að þær hafa verið næsta fljótar að hlaða utan á sig og orðið stórar og mannmargar stofnanir. Það vildum við og viljum forðast og að því m. a. miða brtt. okkar.

Allshn. komst fljótlega að þeirri niðurstöðu, að eðlilegt væri og nauðsynlegt að umsemja þetta frv. eða breyta því mjög verulega í átt til einföldunar. Við það starf naut nefndin góðrar aðstoðar þeirra dr. Þorkels Helgasonar dósents og Hjalta Zóphóníassonar deildarstjóra í dómsmrn. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að flytja brtt. við hið fyrra frv. Það skal að vísu játað að þær eru nokkuð margar og hv. þm. kann að virðast málið næsta flókið þegar þær brtt. eru lesnar yfir í heild. Sannleikurinn er þó sá, að allt miðar þetta til einföldunar á frv. Hið upphaflega frv. greinist í þætti og kafla, 7 þætti og 13 kafla, en í brtt. nefndarinnar er gert ráð fyrir að það skiptist eingöngu í 10 kafla. Þá voru greinar hins upphaflega frv. 51 talsins, en þeim fækkar í 31 ef brtt. allshn. verða allar samþykktar.

Það er e. t. v. ástæða til, herra forseti, að fara um þetta nokkrum almennum orðum. Þegar löggjöf á borð við þá, sem hér um ræðir, er samin hér, þá er gjarnan leitað til Norðurlandanna um fyrirmyndir, sem er sjálfsagt og eðlilegt. Norðurlöndin hafa hins vegar gjarnan sínar fyrirmyndir frá Þýskalandi eða Frakklandi, einkum þó Þýskalandi, að ég hygg. Því vill það æðioft verða svo, að þegar búið er að semja löggjöf um íslensk efni sem sniðin er eftir löggjöf þessara nágrannaþjóða okkar, þá erum við með löggjöf sem sniðin er upphaflega fyrir þjóðir með nokkra tugi milljóna íbúa, og ekki er ævinlega víst að slík löggjöf og þær meginreglur, sem þar eru settar, henti okkur jafnvel og hinum miklu fjölmennari þjóðum. Þetta hygg ég að hafi að hluta til gerst með þetta frv., sem lagt var hér fram á s. l. hausti og hefur raunar verið flutt tvisvar áður á Alþingi, 1978 og 1980, en ekki náð fram að ganga.

Þær brtt., sem allshn. flytur við þetta frv., miða sem sé fyrst og fremst til einföldunar. Þær miða að því að koma í veg fyrir endurtekningar sem voru allmargar og á fjölmörgum stöðum í frv. Til fróðleiks er ekki úr vegi að geta þess, að við endurskoðun og endursamningu frv. var m. a. notast við tölvu til að auðvelda þá vinnslu og til þess að sjá betur hvernig unnt væri að koma í veg fyrir endurtekningar sem víða eru í frv. Það er auðvitað nokkur vinna að átta sig á öllum þessum 57 brtt. sem allshn. flytur. Engu að síður hygg ég að það muni verða niðurstaða þm. eftir að hafa séð frv. í hinni einfaldari mynd, eins og það væntanlega verður að þessum till. samþykktum, að menn muni ekki velkjast í vafa um að þær till., sem hér er lagt til að samþykktar verði, eru til mjög verulegra bóta. Þær miða fyrst og fremst að því að einfalda málið og koma því í skiljanlegra horf, leyfi ég mér að segja.

Ekki er deilt um nauðsyn þess að setja lög um þessi efni. Um það hefur margoft verið rætt hér á hinu háa Alþingi. Með hverju árinu sem líður eykst tölvunotkun. Öll erum við hér, hvert og eitt, skráð sjálfsagt í margar tölvuskrár og auðvitað hefur í umr. um þessi mál á Alþingi margsinnis verið minnst á nauðsyn þess að varðveita rétt einstaklingsins varðandi ýmiss konar persónulegar upplýsingar. Eins og nýleg dæmi sanna er ekki ólíklegt að mál af þessu tagi verði algengari hér en verið hefur. Er þess skemmst að minnast, að fram hefur komið í blöðum að hér starfa fyrirtæki sem hafa af því framfæri að skrá upplýsingar um lánstraust einstaklinga og selja þær síðan fyrirtækjum og einstaklingum, og auðvitað er það mjög alvarlegt mál fyrir hvern einstakan þjóðfélagsþegn ef inn í slíkar tölvuskrár komast rangar upplýsingar, upplýsingar sem eiga ekki við nein rök að styðjast og geta verulega skaðað álit hans. Þess eru einmitt nýleg dæmi.

En jafnframt því sem þarf að vernda rétt einstaklingsins verður auðvitað hér að fara þann meðalveg, að kostir þessara stórvirku — og ég segi: stórkostlegu tækja nýtist til fullnustu, en jafnframt sé þess gætt, að ekki sé á rétt einstaklinga gengið. Það er víst og sjálfsagt að tölvunotkun á eftir að aukast hér eins og annars staðar og sjálfsagt getum við ekki látið okkur dreyma um það í dag til hverra nota þessi tæki muni reynast hagkvæm og nýt þegar fram í sækir. Hér er í fyrsta skipti verið að setja löggjöf um flókinn málaflokk og nefndin telur eðlilegt að eftir ákveðinn tíma verði þessi löggjöf endurskoðuð í ljósi fenginnar reynslu. Þess vegna er það ein af till. nefndarinnar að dómsmrh. leggi fyrir Alþingi í þingbyrjun 1984 nýtt frv. til l. um kerfisbundna skráningu á upplýsingum, er varða einkamálefni, og að þessi lög þ. e. þetta frv. sem væntanlega verður nú að lögum — falli úr gildi í árslok 1985. Eðlilegt hlýtur að teljast að þessi mál verði endurskoðuð eftir ákveðinn tíma þar sem hér er í rauninni um nýtt málasvið að ræða og eðlilegt að í ljósi fenginnar reynslu verði þetta endurskoðað.

Ég held að það sé afar mikilvægt að Alþingi afgreiði þetta frv. nú fyrir þinglok. Það er brýn nauðsyn að setja löggjöf um þessi mál, það má ekki öllu lengur dragast. Eins og ég gat um áðan var frv. um þessi efni fyrst lagt fram undir þinglok 1978, síðan í ársbyrjun 1980, en náði þá ekki fram að ganga. Loks var frv. enn lagt fram á s. l. hausti sem þingmál nr. 2 og vænti ég þess, að við alþm. rekum nú af okkur slyðruorðið í þessu máli og afgreiðum þetta frv. fyrir þinglok.

Brtt. allshn. eru á þskj. 693 og mun ég nú gera nánari grein fyrir þeim. Þær eru, eins og ég áðan sagði, 57 talsins. Þetta er því kannske ekki fljótgert, en ég mun þó reyna, herra forseti, að stytta mál mitt eftir föngum.

1. till. er aðeins um smávægilega orðalagsbreytingu, 1. þáttur verði 1. kafli.

2. brtt. er um að 1. mgr. 1. gr. laganna orðist sem hér segir:

„Lög þessi taka til hvers konar kerfisbundinnar skráningar á upplýsingum varðandi einkamálefni einstaklinga, svo og fjárhagsmálefni einstaklinga, stofnana, fyrirtækja eða annarra lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Lögin taka bæði til skráningar af hálfu atvinnurekanda, fyrirtækja, félaga og stofnana og til skráningar á vegum opinberra aðila. Með kerfisbundinni skráningu upplýsinga er átt við söfnun og skráningu ákveðinna og afmarkaðra upplýsinga í skipulagsbundna heild.“

Þessi mgr. er að mestu samhljóða 1. mgr. 1. gr. frv. Felld er niður 2. mgr., en efni hennar kemur síðar í frv. Ég ítreka það, að hér er í rauninni ekki um neinar verulegar efnisbreytingar að ræða frá hinu upphaflega frv., þær eru mjög smávægilegar, heldur er hér fyrst og fremst um einföldun að ræða.

3. till gerir ráð fyrir að 2. og 3. gr. frv. falli niður. Þar er aðeins um skilgreiningar að ræða sem einnig koma fram síðar í tillögunum.

4. till. er um að 4. gr. frv. verði 2. gr. og breytist þannig að 1. mgr. falli niður, en hún fjallar um það sem þessi lög eiga ekki að ná til. Síðar í till. nefndarinnar er grein þess efnis, að lögin um kerfisbundna skráningu á upplýsingum, er varða einkamálefni, taki nánast til allrar skráningar í þá veru sem á sér stað. Aðeins er undanþegið það sem er í b-lið þessarar 4. brtt., þ. e. að 2. mgr. þessarar greinar orðist svo:

„Æviskrárritun skv. lögum nr. 30/1956 fellur utan marka laga þessara svo og skráning í þágu ættfræðirannsókna og æviskrárrita.“

Þá er gert ráð fyrir að 3. mgr. 4. gr. frv. falli niður. En 3. mgr. hljóðar svo:

„Um þjóðskrá og sakaskrá fer eftir því sem segir í 51. gr.

Í 51. gr. segir:

„Um þjóðskrá og almannaskráningu fer eftir því sem segir í lögum og stjórnvaldsreglum þar um. Sama er að sínu leyti um sakaskrá.“ En samkv. brtt. allshn. munu þjóðskrá og sakaskrá heyra undir þessi lög um almannaskráningu, eins og eðlilegt hlýtur að teljast, þótt um þær séu raunar sérlög.

5. brtt. er aðeins breyting á kaflafyrirsögn.

6. till. er um að inn komi ný gr. er verður 3. gr. og orðist svo:

„Kerfisbundin skráning upplýsinga, er 1. gr. tekur til, er því aðeins heimil að slík skráning sé eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi aðila og taki einungis til þeirra er tengjast starfi hans eða verksviði, svo sem viðskiptamanna, starfsmanna eða félagsmanna.“

Þetta er enn fremur till. í átt til einföldunar frá þeim ákvæðum sem í frv. eru.

Þá er það 7. brtt. Hún er í þá veru að 5. gr. verði 4. gr., þó þannig að 1., 3., 4. og 5. mgr. falli brott, en í stað 2. mgr. komi eftirfarandi:

„Óheimilt er að skrá upplýsingar, er varða þjóðflokk manna, kynþátt og litarhátt, svo og skoðanir þeirra á stjórnmálum eða einstökum stjórnmálalegum efnum og á trúmálum, nema sérstök lagaheimild standi til þess. Skráning er þó heimil, ef hinn skráði hefur látið í té upplýsingar eða þeirra er aflað með samþykki hans og við þær aðstæður, að honum getur eigi dulist að ætlunin er að skrá þær með þeim hætti er greinir í 3. gr. Það er enn fremur skilyrði, að aðila sé brýn nauðsyn vegna starfsemi sinnar að skrá upplýsingarnar.

Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um upplýsingar varðandi brotaferil manna, kynlíf þeirra og heilsuhagi, notkun þeirra á áfengi og öðrum vímugjöfum og svipuð einkalífsatriði. Opinberum aðilum, þ. á. m. læknum og sjúkrahúsum, er þó heimil skráning án vitundar eða samþykkis hins skráða, standi til þess sérstök lagaheimild eða skráning sé ótvírætt nauðsynleg vegna notagildis skránna, sbr. 3. gr.

Þetta er raunar að verulegu leyti bara staðfesting á því síðastnefnda, staðfesting á þeim reglum sem unnið er eftir nú og hefur verið um alllangt skeið. Breytingin, sem verður þarna á 2. mgr., er einkum sú, að í frv, stendur: „Óheimilt er að skrá upplýsingar, er varða þjóðerni manna, þjóðflokk, kynþátt o. s. frv.“ Það virðist ekki vera sérstök ástæða til að leggja bann við því að skrá þjóðerni manna. A. m. k. varð það niðurstaða okkar við þessa endurskoðun, að til þess gætu varla verið rök, þó svo að annað gildi um þjóðflokk, kynþátt og litarhátt. Raunar er það svo nú, áður en lög um þetta efni taka gildi, að ýmiss konar furðuleg skráning á sér stað í þjóðskránni. T. d. eru konur giftar varnarliðsmönnum skráðar þar sér og einkenndar með sérstökum hætti í þjóðskrá. Hlýtur það að teljast furðulegt og orka raunar mjög tvímælis.

En þarna falla niður fjórar mgr. og þetta er hin almenna grein í till. nefndarinnar um það, hvaða upplýsingar er bannað að skrá. Þetta er þó í stórum dráttum samhljóða því sem er í upphaflega frv.

8. brtt. gerir ráð fyrir að 6. og 7. gr. falli niður, en efni þeirra greina kemur aftur síðar í þessum till., í liðum 20 og 33.

9. brtt. er aðeins um að kaflafyrirsögn falli brott.

10. brtt. gerir ráð fyrir að 8., 9. og 10. gr. hins upphaflega frv. falli niður, en í stað þeirra komi grein er verði 5. gr. og hljóði svo:

„Söfnun og skráning upplýsinga, sem varða fjárhag manna og lögpersóna eða lánstraust, er óheimil án starfsleyfis er tölvunefnd veitir, enda sé ætlunin að veita óðrum fræðslu um þau efni.

Eigi er heimilt að færa í skrá samkv. 1. mgr. aðrar upplýsingar en nafn manns eða fyrirtækis, heimilisfang, nafnnúmer eða fyrirtækjanúmer, stöðu, atvinnu og upplýsingar, sem tiltækilegar eru á opinberum skrám, án þess að skýra viðkomandi frá þessu. Ef önnur atriði eru tekin á skrá ber aðila að skýra viðkomandi, sem greindur er í fyrsta skipti á skrá, frá þessu innan fjögurra vikna frá skráningu og gera honum grein fyrir heimild hans til að fá skýrslu um efni skráningar, sbr. 11. gr.

Upplýsingar um fjárhag og atriði, er varða mat á lánstrausti, má aðeins láta öðrum í té bréflega. Þegar fastir viðskiptamenn eiga í hlut má þó veita upplýsingar munnlega, en nafn og heimilisfang fyrirspyrjanda skal þá skráð og gögn um það varðveitt í a. m. k. sex mánuði.

Skriflegar upplýsingar, sem veittar eru samkv. 3. mgr., skulu vera dagsettar og eðlilegs fyrningartíma þeirra getið.“

Þetta er sem sagt um það, hvað sé heimilt að skrá í sambandi við söfnun og skráningu upplýsinga er varða fjárhag manna og lánstraust, og því er slegið föstu í þessari till., að slík skráning sé óheimil án starfsleyfis er tölvunefnd veitir, en síðar í þessum till. eru ákvæði um tölvunefnd, stöðu hennar og hlutverk.

Þetta er ein af megingreinunum hér sem ákvarðar nákvæmlega hvernig fyrirtæki af þessu tagi, sem veita upplýsingar um fjárhagslega stöðu manna og lánstraust, skuli starfa og hvernig því skuli háttað þegar þau gefa slíkar upplýsingar.

Þá er það 11. till. sem fjallar um nýja grein og er um það atriði gengið nokkru lengra en gert hafði verið í hinu upphaflega frv. Nefndin leggur til að hér komi ný grein er verði 6. gr. og orðist svo:

„Eigi er heimilt að tengja saman skrár, er falla undir ákvæði laga þessara, nema um sé að ræða skrár sama skráningaraðila. Með sama skráningaraðila er hér átt við sama fyrirtæki, félag eða stofnun hins opinbera. Með samtengingu skráa er hér jafnt átt við vélræna sem og handunna færslu upplýsinga milli skráa.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að tengja við skrá upplýsingar um nafn, nafnnúmer, fyrirtækjanúmer svo og heimilisfang eða aðsetur, enda þótt slíkar upplýsingar séu sóttar í skrá annars aðila.“

Hér er gengið nokkru lengra en var í upphaflega frv., því að hér er lagt almennt bann við því að tengja saman tölvuskrár. Nefndinni þótti vanta hér fyllri ákvæði, en auðvitað er samtenging tölvuskráa meiri háttar mál sem getur gefið þeim, sem slík gögn hafa á valdi sínu, feiknamiklar upplýsingar, upplýsingar sem er fullkomlega óeðlilegt að tengja saman og ekki til ætlast í upphafi að yrðu nokkurn tíma tengdar saman. Hér segir enn fremur:

„Tölvunefnd getur veitt undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. þegar sýnt er fram á að brýna nauðsyn beri til, sbr. 3. gr. og 4. mgr. 16. gr.

Samkv. þessu er sem sagt heimilt að skýra frá upplýsingum ef það leiðir af lögum eða öðrum stjórnvaldsreglum, og 3. gr. á t. d. við um viðskiptamannaskrár hjá þjónustufyrirtækjum sveitarfélaga, eins og rafmagnsveitu og hitaveitu.

12. brtt. er um að á eftir 6. gr. komi nýr kafli með fyrirsögninni: „III. kafli. Skráning upplýsinga og varðveisla þeirra.“

13. brtt. er um að inn komi þrjár nýjar greinar sem verði 7., 8. og 9. gr (sbr. 24., 25. og 26. gr.) Það er fyrst a-liður ( gr.):

„Beita skal virkum ráðstöfunum, er komi í veg fyrir að upplýsingar séu misnotaðar eða komist til óviðkomandi manna.

Skráðar upplýsingar skal afmá, sem vegna aldurs þeirra eða af örður ástæðum hafa glatað gildi sínu, miðað við það hlutverk sem skrá er ætlað að gegna. Skrár, sem sífellt eru í notkun, skulu geyma upplýsingar sem á hverjum tíma eru réttar, en úreltar upplýsingar skal afmá.

Tölvunefnd getur leyft að afrit eða útskriftir úr skrám verði varðveittar í Þjóðskjalasafni eða öðrum skjalasöfnum með nánar ákveðnum skilmálum.“

Þetta eitt sem sagt fyrirmæli um að afmá skuli úreltar upplýsingar.

Þá er það b-liður (8. gr.):

„Nú hafa upplýsingar eða mat varðandi fjárhag og lánstraust verið látnar í té til annarra og þær reynast rangar eða villandi. Er ábyrgum aðila skv. 5. gr. þá skylt að senda án tafar öllum þeim, sem fengið hafa slíkar upplýsingar frá honum síðustu sex mánuði, svo og hinum skráða, skriflega leiðréttingu. Hinn skráði skal fá í hendur greinargerð frá aðila um hverjum leiðréttingar hafi verið sendar.“

Þetta er sem sagt trygging einstaklinganna fyrir því, að leiðrétt verði ef rangt hefur verið skráð. Þessi ákvæði eru í 25. gr. upphaflega frv.

Og þá er það í þriðja lagi c-liður (9. gr.):

„Nú geyma tilteknar skrár upplýsingar, sem líklegt þykir að muni hafa notagildi fyrir erlend ríki, og skal þá koma við öryggisráðstöfunum, sem gera kleift að eyðileggja skrár án tafar, ef styrjöld brýst út eða uggvænt þykir að til styrjaldarátaka komi.“

Þetta ákvæði mun sjálfsagt tekið beint upp úr dönsku lögunum um þetta efni. Það þótti svo sem engin ástæða til að amast við því hér þó að menn teldu kannske að ekki væri mjög brýnt að hafa þetta hér.

14. till. er um nýja kaflafyrirsögn: „IV. kafli Um rétt skráðra aðila.“

15. till. er um að efni 27. gr. verði í 10. gr.:

„Nú telur aðili að upplýsingar um einkamálefni hans séu færðar í tiltekna skrá. Getur hann þá óskað þess við þann, sem ábyrgur er fyrir skráningu, að honum sé skýrt frá efni upplýsinganna. Er skylt að verða við þeim tilmælum án ástæðulausrar tafar.

Nú telur maður að upplýsingar um hagi sína séu ritaðar í sjúkraála eða önnur sjúkraregistur eða sjúklingaskrár, og vill hann fá vitneskju um efni þeirra. Skal hann þá óska þess við heimilislækni sinn, eða annan þann lækni sem fjallað hefur um heilsuhagi hans, að hann leiti eftir upplýsingum þessum frá þeim sem ábyrgur er fyrir skráningu. Þessi aðili skýrir lækninum frá upplýsingunum svo að honum sé kleift að koma þeim á framfæri við viðkomanda.

Ákvæði 1. mgr. gildir ekki ef hagsmunir hins skráða af því að fá vitneskju um efni upplýsinga þykja eiga að víkja að nokkru eða öllu fyrir ótvíræðum almenningshagsmunum eða öðrum veigamiklum einkahagsmunum. Ef svo er háttað um nokkurn hluta upplýsinga, en eigi aðra hluta þeirra, þá skal beiðanda veitt vitneskja um þá hluta sem eigi þykir varhugavert að skýra frá.

Tölvunefnd getur ákveðið að skrár séu þegnar undan ákvæðum þessum, ef ætla má að sérregla 3. mgr. muni hafa í för með sér að tilmælum um upplýsingar úr slíkum skrám verði almennt hafnað.“

Þetta er sem sagt um rétt hins skráða til að fá upplýsingar sem varða hann sjálfan. Að meginefni er þetta samhljóða 27. gr. upphaflega frv., en tölvunefnd getur samkv. þessu veitt heimild til að skrár séu undanþegnar þessu ef ætla má, eins og segir hér, að tilmælum um upplýsingar úr slíkum skrám verði almennt hafnað.

16. till. er um að 11. gr. frv. orðist sem hér segir: „Nú telur aðili að upplýsingar um hann séu skráðar samkv. 5. gr., og er þá skráningaraðila skylt að beiðni hans að skýra honum frá efni þeirra upplýsinga og þess mats, sem aðilinn hefur látið frá sér fara til annarra á síðustu sex mánuðum varðandi hagi beiðanda. Aðilanum er einnig skylt að greina hinum skráða frá því, hverjar upplýsingar eru skráðar um hagi hans, þar með talið mat á fjárhag hans.

Nú hefur aðili samkv. 5. gr. í vörslum sínum frekari gögn um skráðan mann eða stofnun en þau sem beiðni lýtur að og er honum þá skylt að gera beiðanda grein fyrir þeim.

Hinn skráði aðili á eigi kröfu til þess, að honum sé skýrt frá því hvaðan upplýsingarnar stafa.“ Nauðsynlegt þykir að hafa þetta ákvæði, þessa síðustu mgr., því það mundi, held ég, leiða til óendanlegs þvargs, rifrildis og raunar gera alla slíka starfsemi ókleifa ef menn ættu jafnan kröfu á að vita hvaðan upplýsingar eru komnar. Menn eiga kröfu á því að vita hverjar upplýsingarnar eru, en ekki nauðsynlega hvaðan þær eru komnar. Þetta er að mestu samhljóða frv.

17. till. gerir ráð fyrir að 12., 13. og 14. gr. falli niður. Efni þeirra er komið áður í því sem ég hef gert grein fyrir. 18. till. er um að 15. gr. verði 12. gr. og orðist svo: „Nú óskar sá, sem tekinn hefur verið á skrá samkv. 5.gr., að skráningaraðili afmái eða leiðrétti atriði, er varða fjárhag hans eða mat á lánstrausti hans, og er honum þá skylt að svara því án ástæðulausrar tafar og í síðasta lagi innan fjögurra vikna frá því að tilmæli bárust.

Nú synjar aðili, sem er ábyrgur fyrir skráningu, tilmælum samkv. 1. málsgr., og getur hinn skráði þá innan fjögurra vikna frá móttöku svars, eða innan fjögurra vikna frá lokum svarafrests samkv. 1. málsgr. óskað eftir því við tölvunefnd, að hún skeri úr um kröfu um afmáingu upplýsinga eða leiðréttingu þeirra. Ákvæði 8. gr. eiga við, ef fallist er á kröfuna.“

Ákvæði 8. gr. eru í þessu tilviki um það hvernig senda skuli út leiðréttingar, en hér hefur sá aðili sem orðið hefur fyrir því að um hann eru skráðar rangar upplýsingar aðgang að tölvunefnd ef skráningaraðilinn skirrist við að koma á framfæri eða leiðrétta það sem ranglega hefur verið skráð.

Í 19. brtt. er gert ráð fyrir að 16. gr. falli niður, en 16. gr. er að mestu samhljóða 11. gr.

Í 20. till. er gert ráð fyrir að inn komi ný gr., 13. gr., sem hafi að geyma efni 7. og 18. gr. frv. og orðist svo: „Nú telur skráður aðili, að upplýsingar um hann í skrám, er lög þessi taka til, séu efnislega rangar eða villandi, og getur hann þá krafist þess, að sá, sem ábyrgur er fyrir skráningu, færi þær í rétt horf eða afmái þær.

Nú telur maður eða fyrirsvarsmaður félags fyrirtækis eða stofnunar, að nafn hans eða félags o. s. frv. sé fært á skrá, sem notuð er til útsendingar dreifibréfa, tilkynninga, auglýsinga eða áróðurs, og getur hann þá óskað þess, að nafnið sé afmáð af viðkomandi skrá og er þá skylt að verða við því.

Nú neitar sá, sem ábyrgur er fyrir skrá, að fallast á kröfu samkvæmt 1. eða 2. málsgr. eða hefur eigi svarað slíkri kröfu innan fjögurra vikna, og getur aðili þá krafist þess, að tölvunefnd kveði á um, hvort kröfu um afmáingu upplýsinga eða leiðréttingu þeirra beri að taka til greina.

Nú fellst tölvunefnd á kröfu manns um leiðréttingu eða afmáingu, og leggur hún þá fyrir skráningaraðila að leiðrétta upplýsingarnar eða afmá þær.“

Það gerist æ algengara nú að nöfn einstakra þjóðfélagsþegna, sem eru í félagasamtökum eða áhugamannasamtökum einhvers konar, — nöfn hvers einstaks þjóðfélagsþegns eru í fjölmörgum skrám, félagaskrám áhugamannahópa og því um líkt, — það gerist æ algengara að fyrirtæki eða samtök fái slíkar skrár í hendur og noti þær til að koma á framfæri upplýsingum, auglýsingum eða áróðri. Raunar eru slíkar félagaskrár víða erlendis og kannske einnig hér seldar dýru verði ef því er að skipta. Hér eru sem sagt ákvæði um það, að einstaklingar eiga rétt til þess að verða strikaðir út af slíkum skrám, ef þeir þess óska, skrám sem notaðar eru til að senda áróður, auglýsingar, dreifibréf eða tilkynningar.

21. brtt. er um að kaflafyrirsögn falli niður.

Í 22. till. er gert ráð fyrir að 17., 18. og 19. gr. falli niður, en að hluta til er efni þeirra komið þegar í þessum till., einkum undir 20. lið.

23. till, er einfaldlega um að fyrirsögn falli niður.

24. till. er um að 20., 21., 22. og 23. gr. frv. falli brott. Þar er hreinlega um endurtekningar að ræða sem horfir til einföldunar að fella niður, en breytir ekki neinu efnislega.

25. till. er um að fyrirsögnin „V. kafli Skráning upplýsinga og varðveisla þeirra“ falli brott.

26. till. er um að 24., 25. og 26. gr. falli niður. Þar er sömuleiðis um endurtekningar að ræða.

Í 27. till. er lagt til að kaflafyrirsögn falli niður.

28. brtt. gerir ráð fyrir að 27. og 28. gr. frv. falli niður. Þar er sömuleiðis um að ræða ákvæði sem búið er að taka inn og ég hef þegar gert grein fyrir. Þetta er um skráningu upplýsinga í sambandi við sjúkdóma, upplýsinga sem læknar skrá, og horfir einfaldlega til mikillar einföldunar að fella þetta niður þar sem ákvæðin eru þegar komin og engin ástæða til að margendurtaka þau í lögunum.

29. brtt. er um að 29. gr. verði 14. gr. er orðist svo: „Nú rís ágreiningur eða vafamál vakna í sambandi við heimild manna til að fá upplýsingar samkv. 1. málsgr. 10. gr. eða 11. gr., og má þá leggja málið fyrir tölvunefnd til úrlausnar.“

1. málsgr. 10. gr. fjallar um upplýsingar um einkamálefni, sem skráðar eru á tiltekna skrá, og 11. gr. um upplýsingar um fjárhagsstöðu og lánstraust, og þá má sem sagt leggja slík mál fyrir tölvunefnd til úrlausnar. En hér síðar eru ákvæði um það, að úrskurður tölvunefndar er endanlegur og verður ekki skotið til annarrar stjórnvaldsstofnunar, en auðvitað er mönnum ævinlega opið að fara þar dómstólaleiðina og höfða mál.

30. till. er um að inn komi ný gr., 15. gr.:

„Heimilt er skráningaraðila að krefjast sanngjarns gjalds fyrir veitingu upplýsinga samkv. 1. málsgr. 10. gr. eða 11. gr.

Hér er aðeins um heimild að ræða til þess að aðilar geti tekið gjald fyrir að veita þær upplýsingar sem um er beðið.

„Tölvunefnd getur sett ákvæði um hámarksgjald í þessu sambandi.“

Í 31. till. er aðeins um fyrirsagnarbreytingu að ræða. 32. till. er um að 30. og 31. gr. falli niður. Þar er sömuleiðis um endurtekningu að ræða, en 30. og 31. gr. frv. eru um skráðar upplýsingar, sem eru látnar í té öðrum einkaaðila en hinum skráða, og ákvæði um það eru þegar komin í þeim till. sem ég hef gert hér grein fyrir.

33. till. er um að ný grein, sem verði 16. gr., komi í stað 6. og 35. gr. frv. Þetta er eins og víðar að það er dregið saman efni úr tveimur eða fleiri greinum og sett í eina grein, allt til einföldunar. Þessi grein orðist svo:

„Eigi má skýra frá upplýsingum úr skrám, er lög þessi taka til, nema með samþykki hins skráða aðila eða skráðra upplýsinga hafi verið aflað með vitund þess skráða og á þann hátt, að honum gat ekki dulist að ætlunin væri að veita öðrum aðgang að upplýsingunum, enda falli slík upplýsingamiðlun undir eðlilega starfsemi skráningaraðilans.

Heimilt er að skýra frá upplýsingum, ef ekki er unnt að rekja þær til ákveðinna einstaklinga eða lögpersóna. Um miðlun upplýsinga úr skrám, er falla undir 1. málsgr. 5. gr.“ — Það er atriði er varðar fjárhag og lánstraust — „gilda ákvæði þeirrar greinar. Enn fremur skal virða ákvæði 3. málsgr. 10. gr. Þá skerði ákvæði 1. málsgr. ekki ákvæði 3. málsgr. 7. gr.“ — en þau ákvæði fjalla um geymslu skráa í Þjóðskjalasafni og heimildir til þess.

„Heimilt er að skýra frá upplýsingum, sbr. 1. málsgr., leiði slíkt af öðrum lögum eða stjórnvaldsreglum. Enn fremur er heimilt að veita stjórnvaldsstofnun upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eðlilegrar starfsemi stofnunarinnar. Ekki má þó láta í té upplýsingar sem sérstök þagnarskylda hvílir á samkv. lögum eða stjórnvaldsreglum.“

34. till. er um að 1. málsgr. 32. gr. verði að nýrri grein, 17. gr., en 2. og 3. málsgr. falli brott. Þau ákvæði, sem þar eru, koma síðar. Það er engin efnisbreyting þó að þetta sé fellt hér niður.

35. till. er um að 1. málsgr. 33. gr. verði að nýrri grein, 18. gr., en 2. málsgr. falli brott. 33. gr. frv., 1. málsgr. hljóðar svo:

„Nú er sýnt fram á af hálfu einstaklings, fyrirtækis, félags eða stofnunar, að þessum aðilum sé þörf á tilteknum skráðum upplýsingum vegna ákveðins dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja, og er þá heimilt að láta í té upplýsingar til þess, sem lagahagsmuni hefur af upplýsingum“ o. s. frv. Þetta ákvæði standi, en niður falli setningin: „Heimilt er að láta í té með nánar tilteknum skilmálum skráðar upplýsingar vegna tiltekinna rannsóknarverkefna.“ Þetta ákvæði fellur niður, en sú heimild er væntanlega á valdi tölvunefndar samkv. þessum till. allshn.

36. till. gerir ráð fyrir að 34. og 35. gr. falli niður og fyrirsögnin „VIII. kafli Skráðar upplýsingar látnar í té til stjórnvaldsstofnana“ falli brott. Efnislega eru öll þessi atriði í till. nefndarinnar svo að ekki er um neinar efnisbreytingar að ræða.

Þá er 37. till. aðeins númerabreyting á kafla.

38., brtt. er um að 36. gr. verði 19. gr. og breytist þannig — 36. gr. upphaflega frv. fjallar um tölvuþjónustu — að 1. málsgr. orðist svo:

„Einstaklingum, fyrirtækjum eða stofnunum, sem annast tölvuþjónustu fyrir aðra aðila, er óheimilt að varðveita eða vinna úr upplýsingum um einkamálefni sem falla undir sérákvæði 4. gr., eða 5. gr., eða undanþáguákvæði 3. málsgr. 6. gr., nema hafa til þess starfsleyfi er tölvunefnd veitir.“

Þá er gert ráð fyrir að 2. málsgr. þessarar greinar verði óbreytt, 3. málsgr. falli niður, en efnislega kemur hún síðar, og 4. málsgr. verði 3. málsgr.

39. till. er um að 37. gr. frv. falli niður, þ. e.: „Umsókn um starfsleyfi skulu fylgja rækileg gögn um fyrirhugaða starfsemi, tækjabúnað, starfslið, húsnæði o. s. frv.“ Eðlilegt þykir að tölvunefnd kynni sér í hverju tilviki hvernig háttað sé með þau fyrirtæki sem sækja um slík leyfi.

40. till. er um að 38. gr. verði 20. gr. og í stað tilvitnunar í 36. gr. komi tilvitnun í 19. gr. Það er sem sagt óbreytt nema tilvitnun breytist.

41. brtt. er um kafla- og númerabreytingu og að 39. gr. frv., sem fjallar um söfnun upplýsinga hér á landi til tölvuúrvinnslu erlendis, verði 21. gr. og 1. og 2. málsgr. orðist svo:

„Kerfisbundin söfnun og skráning upplýsinga um einkamálefni til geymslu eða úrvinnslu erlendis er óheimil.“ — Meginreglan er sú, að þetta er óheimilt, en tölvunefnd getur heimilað söfnun ef sérstaklega hagar til. „Skrá eða frumgögn, sem geyma upplýsingar þær er greinir í 4. gr., má eigi láta af hendi til geymslu eða úrvinnslu erlendis nema samþykki tölvunefndar komi til.“ — Meginreglan er sem sé sú að þetta verði óheimilt, en orðalag í þessum brtt. er nokkru einfaldara en í frv. Gert er ráð fyrir að 3. og 4. málsgr. þessarar greinar haldist óbreyttar.

42. till. er aðeins um númerabreytingu á köflum, að VI. þáttur XI. kafli verði VIII. kafli: Um eftirlit með lögum þessum.

43. brtt. er um að 40. gr. verði 22. gr. og orðist svo: „Dómsmrh. skal skipa 3 manna nefnd, sem kölluð er tölvunefnd í lögum þessum. Nefndin skal skipuð til fjögurra ára í senn. Formaður hennar skal vera lögfræðingur, sem fullnægir skilyrðum til að vera dómari. Einn nefndarmaður skal vera sérfróður um tölvu- og skráningarmálefni. Varamenn eru skipaðir með sama hætti til fjögurra ára í senn, og skulu varamenn fullnægja sömu skilyrðum sem aðalmenn.“ — Í frv. var gert ráð fyrir að tölvunefnd væri skipuð 3 mönnum. Formaður átti að vera lögfræðingur sem uppfyllti sömu skilyrði og ég taldi upp hér áðan, en tveir nefndarmenn skyldu vera sérfróðir um tölvu- og skráningarmálefni. Okkur í allshn. þótti nægja að formaðurinn væri lögfræðingur, sem uppfyllti þau skilyrði sem hér hafa áður verið greind, og einn nefndarmaður væri sérfróður um tölvu- og skráningarmálefni. Þá væri og ekkert óeðlilegt að þriðji fulltrúinn í nefndinni hefði að leiðarljósi sjónarmið hins almenna borgara án þess að þar kæmi til sérfræðiþekking á tölvumálum.

En þá kemur að næstu málsgr. og þar leggur allshn. til þá breytingu, að starfsmaður dómsmrn. skuli vera ritari tölvunefndar. Með þessu vill allshn. slá því föstu, að tengsl séu á milli tölvunefndar og dómsmrn. Þetta er m. a. tilraun til að koma í veg fyrir að þessi nefnd verði strax sjálfstæð, sérstæð stofnun. Okkur telst svo til að þetta kunni kannske að vera hálft starf eða minna. Það að vera ritari þessarar tölvunefndar verður þó væntanlega töluvert starf til að byrja með, þegar verið er að koma þessu á laggirnar og móta starfið, en tilgangurinn með þessu er m. a. að tryggja að tölvunefnd verði ekki stjórnsýslubákn út af fyrir sig, eins og hún gæti mjög auðveldlega orðið. Síðan segir:

„Tölvunefnd hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara og leysir úr ágreiningsefnum svo sem greinir í lögum þessum.“

44. till. er að ný gr., 23. gr., orðist svo: „Tölvunefnd veitir starfsleyfi samkv. 5. og 19. gr. og heimildir samkv. 3. málsgr. 6. gr., 3. málsgr. 7. gr. og 21. gr.“ — Þarna er m. a. vikið að heimildum til samtengingar skráa og heimildum til úrvinnslu erlendis. Það eru þau tilvik þar sem mörkuð hefur verið almenn regla. En síðan er tölvunefnd veitt heimild til þess að veita undanþágur þar frá.

Þá segir hér og: „Dómsmrh. getur ákveðið eðlilegt gjald er greiða skal fyrir veitingu leyfa og heimilda samkv. 1. málsgr.“ Það eru starfsleyfi þau er tölvunefnd veitir fyrirtækjum sem fást við þessa starfsemi.

45. till. er um að 41. gr. falli brott. Þau ákvæði eru þegar komin.

46. gr. er um að 42. gr. verði 24. gr., þó þannig að 1. málsgr. orðist svo:„Ákvæði þessarar greinar gilda um skráningarstarfsemi er fellur undir ákvæði 4. gr. eða 1. málsgr. 5. gr.“ Það eru enn ákvæðin um skráningu á lánstrausti og fjárhagsástæðum manna.

47. till. er um að 43. gr. falli brott. Það gildir sömuleiðis hér að efni hennar er þegar komið.

48. brtt. er um að 44. gr. verði 25. gr., þ. e. óbreytt, en 44. gr. frv. hljóðar svo: „Úrlausnir tölvunefndar verða eigi bornar undir aðrar stjórnvaldsstofnanir.“ Hafði ég raunar þegar vikið að þessu ákvæði.

49. till. er um að 45. gr. verði 26. gr., þó þannig að 1. málsgr. orðist svo:

„Tölvunefnd getur sett reglur um form og efni tilkynninga og umsókna samkv. lögum þessum.“ — Þetta er einfalt framkvæmdaratriði.

50. till. gerir ráð fyrir að 46. gr. falli niður, en í 46. gr. er heimild dómsmrh. til þess að gefa út reglugerð. Að því er vikið síðar, raunar er 57. og síðasta brtt. allshn. í þá veru.

51. brtt. er um að 47. gr. verði 27. gr. óbreytt, en hún fjallar um að tölvunefnd birti öðru hverju skýrslu um starfsemi sína. Hún getur enn fremur birt almenningi umsagnir og álitsgerðir svo og tillögur er hún hefur látið uppi samkvæmt lögunum.

Í 52. till, er um að ræða breytingu á kaflanúmerum. 53. brtt. er um að 48. gr. verði 28. gr. Þarna er aðeins um að ræða breytingar á tilvísunum í a-lið, en í b-lið að 4. málsgr. falli niður. Hún er um það, að nú sé brot framið í starfsemi sem hlutafélag, samvinnufélag eða annað atvinnufyrirtæki hafi með höndum og megi þá leggja sektarrefsingu á félagið sem slíkt.

Í 54. till. er um tilvitnanir að ræða sem breytast, enga efnisbreytingu.

55. till. er um gildistöku og lagaframkvæmd, það er breyting á kaflanúmerum.

56. till. hafði ég raunar vikið nokkrum orðum áður. Hún gerir ráð fyrir að þessi lög taki gildi 1. jan. 1982 og falli úr gildi 31. des. 1985, en dómsmrh. skuli láta endurskoða lögin og leggja frv. þar að lútandi fyrir Alþingi í þingbyrjun haustið 1984. Ég er ekkert að endurtaka þær röksemdir sem ég flutti fyrir þessu áðan, ég hygg að mönnum séu þær ljósar.

57. og síðasta brtt. er um að 51. gr. falli brott. 51. gr. fjallar um þjóðskrá og almannaskráningu og sakaskrá og hafði ég áður vikið að því. Í stað 51. gr. komi ný gr., 31. gr., sem orðist svo: „Dómsmrh. er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.“

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þessum mörgu brtt. allshn. Eins og ég sagði í upphafi þá horfa þær mjög til einföldunar og gera ráð fyrir að frv. styttist úr 7 þáttum og 13 köflum í 10 kafla og að greinum frv. fækki úr 51 í 31 án þess að hér sé um verulegar efnisbreytingar að ræða.

Allshn. leggur til, herra forseti, að þessar brtt. verði samþykktar. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, að e. t. v. er erfitt fyrir menn að átta sig á þessu í fljótu bragði þar sem þetta er töluvert flókið, en ég hygg að hv. þm. muni sjá að þessum till. samþykktum, sem ég vona að verði, að hér er um verulega einföldun að ræða og — að ég tel — mikla breytingu til bóta.